Þetta gæti verið þú

„Getur þú hjálpað mér?“ Spurði maðurinn mig er hann álpaðist niður göngustíginn. Ég sá örvæntinguna í augunum hans og ég fann hvað ég fann til með honum. Ég sá að hann var drukkinn, með aggressíva framkomu og ég þorði ekki að nálgast hann. Hjartað mitt syrgði þann sársauka sem maðurinn þurfti að upplifa og það að ég gat ekkert gert fyrir hann.
Hann hélt áfram að öskra að hann þurfti hjálp.
Einstaklingur í sárri neyð vegna andlegrar vanlíðan. Einstaklingur eins og ég og þú.

Hvað getum við gert til þess að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, hvað varðar andleg veikindi? Þetta er eitthvað sem við gætum öll, einhvern tíman á lífsleiðinni, þurft að takast á við.
Hvað getum við gert betur svo tilfellum fækki og/eða einstaklingar hafi þá færni og getu og vilja til þess að hjálpa sér sjálfir? Svo viðkomandi upplifi ekki króníska vanlíðan, heldur tímabundna. Hvernig getum við hjálpað fólki að hjálpa sér?

Það er eitthvað sem vantar hættulega mikið uppá.
Maðurinn sem ég mætti í dag gæti verið hvert og eitt okkar. Ef færni okkar væri minni. Ef aðstæður væru verri. Og svo lengi má telja.

Að drekkja sorgum sínum með áfengi eða fíkniefnum er ekkert annað en örvæntingarfull leið til þess að lina sársaukann, akkúrat þetta tiltekna augnablik. Það er eitthvað í undirmeðvitundinni sem kallar á það. Þetta er sársauki. Þetta er vanlíðan. Þetta er ekki heimska eða eigingyrni eða aðrir neikvæðir stymplar sem eru settir á alkóhólista eða fíkniefnaneytendur.

Við upplifum öll sársauka á lífsleiðinni, mismikinn og mislítinn. En við höfum samt sem áður mismunandi færni til þess að vinna úr því. Færni eru þær leiðbeiningar sem okkur er gefið um okkar nánasta umhverfi. Færni eru þau verkfæri sem okkur er gefið í gegnum okkar nánasta umhverfi. Færni er sá eiginleiki að vita það að við erum nóg. Færni er að fá rými til þess að upplifa og samþykkja tilfinningar okkar. Færni er að vita að við megum vera til og við megum taka pláss. Færni er að læra að við erum ekki tilfinningarnar okkar og þær skilgreina okkur ekki. Færni er… svo lengi má telja.

Þetta snýst allt um það hvenær, hvar, hvort og hvernig viðkomandi er sýnt og kennt þá færni sem þarf til að geta tekist rétt á við þetta tiltekna augnablik, horft til langtíma.

Það besta sem hægt er að gera er að fræða fólk. En viðkomandi þarf líka að hafa uppgötvað/fengið/lært þá færni til þess að geta tekið á móti og nýtt þá færni sem hann kynnist.

Þetta atvik stakk mig og ég varð að skrifa. Við sem samfélag hljótum að geta gert betur..
Ég leyfi mér að trúa því.

Knús 

– Karen

Hvaða skilaboð er líkaminn að senda?

Þegar ég byrjaði að steypast út í útbrotum vegna kvíða, þá hélt ég að líkaminn minn væri að berjast á móti mér. Ég hélt að hugur og líkami væru í stríði og þrátt fyrir andlega sjálfvinnu, þá væri líkaminn að reyna að klekkja á mér.

En þegar ég las um það að líkaminn er alltaf að reyna að senda okkur skilaboð, til þess að hjálpa okkur að komast af. Þá breyttist eitthvað.

Líkaminn var að kalla á hjálp. Það var eitthvað sem ég var að gera vitlaust. Hvort sem það var hugsun, hegðun, meðhöndlun o.s.frv. vissi ég ekki, en ég vildi reyna að komast að því. Ég vildi skilja hvað undirmeðvitund mín væri að reyna að segja mér.

Í dag tel ég mig vita að það sem hann var að reyna að segja mér, væri einmitt það að óttast ekki hvernig líkaminn brást við í hverjum aðstæðum. Hvert viðbragð og hver tilfinning, væri að reyna að segja mér eitthvað. Það var eitthvað sem ég væri ekki að ná.

Hvernig ég var að lifa lífinu mínu, það var eitthvað sem ég var að gera vitlaust.

Þegar ég áttaði mig á þessu, þá tók við upphafið af því að komast að því hvaðan þessar tilfinningar og hugsanir kæmu. Hvað væri að viðhalda því?

Ég fór til baka, langt í fortíð og grenndist fyrir um svör og útskýringar. Eftir langan tíma þá fann ég svörin.

Allt það neikvæða sem ég held um mín eigin viðbrögð og eigin hugsanir er lærð hegðun. Mitt innra barn fæddist í þennan heim stútfullt af sjálfsást og tilbúið að læra hvernig það átti að skilgreina sjálft sig, aðra og heiminn. Einhvers staðar lærði ég að skilgreyna mig nær alfarið á neikvæðan hátt í undirmeðvitundinni. Þegar ég lærði að það væri ekki sú sem ég væri, alveg innst að kjarna. Þá skildi ég sjálfa mig betur. Þetta er allt byggt á þeim skilaboðum sem við fáum um okkur sjálf, aðra og heiminn frá umhverfinu. Sterkar tilfinningar tiltekins atburðar/skilgreyningar.. þeim sterkari tenging myndast við „alhæfinguna“.

Ég var ekki skömm. Ég þarf að vinna úr þeirri sjálfmerkingu sem innra barnið hefur tengt svo sterkt við.

Hvað viðhélt henni? Umhverfið. Það voru eitthverjar breytingar sem ég þurfti að gera.

Takk líkami, fyrir að minna mig á mitt eigið virði.

Ég mun ná að vinna úr þessu með þinni hjálp og ferlið heldur áfram … 

– Karen

Tilfinningar og togstreitan í kringum þær

Þetta er svo mikilvægt 

Við sem manneskjur upplifum tilfinningar, bæði vellíðunar og sársaukafullar. Þær eru leiðarvísar í lífinu.

Þegar við höfnum tilfinningum okkar, jafnvel bara hluta þeirra, þá erum við í raun að hafna sjálfum okkur.

Tilfinning er ekki það sama og hegðun.
Tilfinning er eitthvað sem er náttúrulegt og þarf að vera samþykkt.
Við getum ekki stjórnað tilfinningum okkar með því að reyna að kæfa, hafna eða deifa þær. Þær munu alltaf finna leið til að koma aftur, því þær eru náttúrulegur partur af því að vera til.
Við getum stjórnað því hvort og/eða hvernig við bregðumst við þeim.

Þegar sársaukafullar tilfinningar koma upp eigum við það oft til að reyna að stoppa þær, kæfa þær, breyta þeim, hafna þeim, deifa þær o.s.frv. Það getur verið vegna ýmislegra ástæðna t.d. það að við tengjum tilfinningu við neikvæða hegðun (sú skekkja að trúa því að hegðun sé tilfinning), viðbrögð annara, hræðsla við að ráða ekki við hana o.s.frv.

En sársaukafullar tilfinningar verða að fá rými líkt og vellíðunar tilfinningar. Við getum ekki valið og hafnað tilfinningum. Þær einfaldlega eru.

Leyfðu tilfinningum að koma. Taktu eftir þeim. Hvar finnur þú fyrir þeim. Hvernig líður þér? Hvað hugsar þú? Hvernig líður þér með það?

Markmiðið er að taka eftir án þess að dæma. Markmiðið er að taka öllum hugsunum fagnandi, sama hvort þær séu neikvæðar eða jákvæðar. Taktu eftir þeim.

Hugur og hjarta þurfa að fá að lifa í sátt, þó svo þau séu ekki alltaf sammála. Það er mikilvægt að gefa þeim báðum rými.

Við þurfum að gefa okkur sjálfum rými til þess að upplifa allt sem við upplifum frá náttúrunnar hendi.

Þegar við leyfum okkur ekki að upplifa tilfinningar festist sú spenna innan í líkamanum og veldur okkur vandræðum/erfiðleikum seinna meir. Við þurfum að leyfa þessari orku að koma….og fara. Þannig lifum við í sátt.

-Karen

Reglur sem þjóna mér ekki lengur

Þegar við erum lítil geta mótast mynstur eða ákveðnar reglur innra með okkur til þess að komast af.

Það gæti verið t.d.
Ég má ekki hafa skoðun, ég hef alltaf rangt fyrir mér
Ég þarf að brosa þegar mér líður illa, svo öðrum líði ekki óþæginlega
Ég má ekki gráta, það er ekkert til að gráta yfir.. þetta er bara ég.. það er eitthvað að mér
Ég þarf að fórna minni líðan fyrir líðan annara
Ég má ekki segja nei, ef ég geri það er ég vond
Ég mun alltaf klúðra öllu, svo best að ég láti aðra um að gera þá frekar
Ef ég bið um eitthvað þá er eg vond, svo best að þegja

O.s.frv.

Undirmeðvitundin mótar okkur í kjölfarið eftir þessum reglum. Allt bendir til þess að við séum eitthvað til að skammast okkar fyrir. Svo við reynum að vera fullkomin…eða við gefumst upp því kröfurnar eru of miklar. Megum aldrei gera mistök eða gerum ekkert annað en mistök.

Ég held að besta lýsingin á því hvernig undirmeðvitund treður sér inn í meðvitund sé hvernig gollum birtist í Lord of the rings. Meðvitundin, smeaogle, reynir að berjast og berjast á móti, en einhvern veginn nær gollum að sannfæra hann.

Gollum sannfærir Smeaogle um að hann sé skömm. Smeaogle bregst við í kjölfarið og fer í þá átt sem leiðir hann að vanlíðan, þó svo meðvitundin sé bara að reyna að gera gott eða viti af því að það sé í rauninni ekki gott.

Dæmi: ástarsamband sem býr til enn meiri skömm, vinasamband sem býr til enn meiri skömm, of mikið sjónvarpsgláp, símafíkn, óeðlilega mikil hjálpsemi drifin áfram af skömm, átraskanir, drykkja, fíkniefnaneysla, sykurfíkn, of mikill svefn, þráhyggjuhugsanir, mikil neikvæðni, hugrof, kynlífsfíkn, sjálfskaði… allt eitthvað sem deifir þetta augnablik, allt eitthvað sem veldur vellíðan þetta augnablik en veldur vanlíðan til langtíma. Meðvitund vill vellíðan en hún er ómeðvitað drifin áfram af þrá undirmeðvitundar í vanlíðan. Því hún lærði fyrir löngu
að það að upplifa vanlíðan = að fá ást.
Að upplifa vanlíðan = mitt virði.
Að upplifa vanlíðan = að tilheyra.

Við þurfum að vinna með undirmeðvitundina fyrst og fremst. Skora á allar þessar reglur sem nýtast okkur ekki lengur og leyfa okkur að upplifa hugsanir og tilfinningar okkar án þess að dæma. Og án þess að dæma fyrir að dæma o.s.frv.
Hvernig líður mér? Hugsun. Og hvernig líður mér eftir að þessi hugsun kom upp? Tilfinning. Hvernig líður mér eftir þessa tilfinningu? O.s.frv. leyfa öllu að koma. Taka eftir og upplifa. Leyfa okkur að vera mannleg. Allar hugsanir og tilfinningar í lagi. Allt bara partur af ferlinu.

Oft reynum við nefninlega strax að bregðast við, þegar við ættum í rauninni bara að leyfa okkur að taka eftir. Leyfa því sem kemur að vera. Leyfa því að líða hjá. Leyfa orkunni að fara í gegnum okkur og aftur út.

Það steikta í þessu er einmitt það að undirmeðvitundin telur sig vera að vernda okkur vegna fyrri reynslu af því að tilheyra ekki, svo hún reynir að draga okkur í átt að því sem leyfir okkur að líða eins og við tilheyrum.

Hvernig líður þér er ein besta spurning sem þú getur spurt þig, til þess að komast nær sjálfri/sjálfum þér í dag. Með því að gefa okkur rými, gefum við okkur virði. Með því að gefa okkur sjálf virði, þá gefum við okkur ást.

Þú ert nóg 
Allt sem segir þér að þú sért það ekki, er ekkert annað en ytra áreiti og þær upplýsingar sem þér hefur verið beint eða óbeint gefið þegar þú varst að læra hvers virði þú varst. Það er ekkert annað en það, upplýsingar, sem koma utan þín. Jafnvel endurvarp á meðvitaðri/ómeðvitaðri skömm einhvers annars.

Þær eru ekki það sem þú ert 

Með því að huga að okkur sjálfum, þá finnum við sjálfvirði. 

I am my own superhero 💪

Lítil skref

Lítil skref.. eitthvað sem ég er sífellt að minna mig á. Samt sem áður hef ég verið stöðugt að fresta því að byrja að skrifa hér.

Einhvern veginn fór ég að upplifa mikla hræðslu, en það var akkúrat ástæðan fyrir því að ég ákvað að byrja með þessa síðu í fyrsta lagi, svo það er skrítið að sama ástæðan sé að halda aftur af mér.

Hræðsla… hvað hún getur verið raunveruleg en samt sem áður ekki átt sér rökréttar ástæður. Jú ég gæti óvart nefnt eitthvað um mig eða heiminn sem fer illa í fólk og þá fríka ég út.. en er það ekki einmitt það sem ég er að skoða. Skoðanir í sinni einföldu og hreinu mynd.

Áskorunin var að sýna auðmýkt og opna augun mín fyrir því að ég má gera mistök, því það er það sem manneskjur gera. Við gerum mistök, lærum af þeim og höldum áfram. Þ.e.a.s. þegar við raunverulega göngumst við þeim og afneitum þeim ekki.

Ég lifði lífinu mínu alltof lengi með það hugarfar að ég þyrfti að vernda mig, aldrei gera mistök, aldrei láta neinn sjá að ég væri ekki fullkomin. Ég veit hversu fráleit hugsun það er, en það var það sem ég hafði fest mig við. Eitthvern veginn undir meðvitund, eitthvers staðar dýpra í undirmeðvitund (undir meðvitund, segir sér sjálft).

Það var ekki fyrr en ég fór að skora á þær hugmyndir sem ég hafði fastmótað um sjálfa mig og heiminn, að ég fór raunverulega að skilja allt betur.

Ég hafði fyllt höfuðið af allskonar þekkingu um andleg veikindi í gegnum árin, en ég var ekki að nýta hana á réttan hátt.

Jú.. ég var að læra meira um sjálfa mig og heiminn, en þekkinguna nýtti ég til þess að reyna að „laga“ mig og með tímanum var ég að reyna að gera hið ómögulega. Vera manneskjan sem sagði alltaf allt rétt, gerði alltaf allt rétt, brást alltaf rétt við o.s.frv.

Hvernig í ósköpunum ég hélt að mér myndi takast það að gera basicly hið fullkomna þóknunartæki úr sjálfri mér veit ég í rauninni ekki. Ég var einhvern vegin viss um að ef ég væri samþykkt af ÖLLUM, að þá væri ég nóg.

En það er einmitt málið. Ég var að leita að samþykki utan við sjálfa mig. Mitt líf hafði ekki gildi utan viðurkenningar allra hinna. Hvaða skilaboð var ég búin að vera að senda sjálfri mér seinustu billjón árin? (24 ára er billjón er það ekki?).

„Þú ert ekki nóg fyrr en einhver segir að þú sért nóg“.

Ojbara, hvað er það? Ég hafði eitt meiri hluta æskunnar, unglingsáranna og byrjun „fullorðinsáranna“ í það að sparka og hrækja á sjálfa mig. Á sama tíma leið mér hræðinlega og leyfði fólki að koma fram við mig eins og því hentaði.

Ég hrundi niður, ekki viss hvenær nákvæmlega.. en á einhverjum tímapunkti gat ég ekki meir. Það var orðið langt frá því að vera eðlilegt að þurfa að loka mig inni á baði í vinnunni og leggjast á gólfið til að ná andanum (nú þegar ég hugsa um það.. ég innilega vona að gólfið hafi verið þrifið nýlega, þegar ég gerði það..). Ég var hætt að lifa og byrjuð að þrauka. Sparkaði mér í gegnum hvern einasta dag. Reyndi á sama tíma að halda ímyndinni uppi. Búin á því. Uppgefin.

Ég hugsa til baka að þetta hafi allt verið blessing in disguise. Eitthvað til að ýta mér í rétta átt.

Þetta leiddi mig allt í átt að sjálfsvinnu. Ógeðslegri og yndislegri sjálfsvinnu. Nauðsynlegri sjálfsvinnu.

Fókusinn breyttist og ég fór að sjá hlutina í öðru ljósi. Skrifaði og skrifaði niður. Screenshot-aði hvern texta eða hvert quote sem ég tengdi við. Endalaust af upplýsingum og ljósaperum sem fór smám saman að kvikna á.

Heill haugur af upplýsingum og færni sem veittu mér svo mikla innsýn og upplýsingar um sjálfa mig og heiminn. Þær færðu mig nær sjálfri mér.

Ég áttaði mig á því að margt þarna væri svo einfalt og augljóst ef við opnuðum augun fyrir því og fengjum þær upplýsingar frá alheiminum. Ég áttaði mig á því að fólk væri að tengja við það sem ég hefði að segja. Ég áttaði mig á því að ég gæti mögulega hjálpað einhverjum, með því að deila því sem ég hef lært og velt fyrir mér í gegnum árin.

Þess vegna byrjaði ég að tjá mig, deila því sem ég væri að hugsa og læra um, ef ég héldi að það gæti einhver tengt við það.

Þess vegna tókum við Hrafnkell (maðurinn minn) þá sameiginlegu ákvörðun að opna þetta blogg.

Hér gæti verið vettvangur fyrir fólk eins og mig til þess að fylgjast með, læra og tengja við það sem ég hefði að segja, í gegnum mína batagöngu.

Ef það hjálpar einni manneskju, þá er það nóg.

Nú hvar var ég? Hræðslan við að stökkva út í þessa laug sem ég er búin að fylla af vatni í hausnum á mér. Ég veit bara að ég mun aldrei vita hvað ég gæti gert, ef ég tek aldrei stökkið.

Öryggið er einfalt og auðvelt. En ég er orðin þreytt á „hvað ef-sársauka“. Ef ég á að upplifa sársauka vegna þessar ákvörðunar, þá vil ég miklu frekar að hann sé raunverulegur og ekki „sársaukinn-sem- ég-er-hrædd-um-að-gæti-komið“. Það skilur mig bara eftir í vanlíðan, á sama stað, í örygginu. En ég læri ekki neitt.. og mig langar að læra. Ég er orðin þreytt á því að fela mig í gegnum lífið. Það er kominn tími til að ég átti mig á því að það er í lagi fyrir mig AÐ VERA SÉÐ.

Því ég er nóg, ég hef alltaf verið nóg og ég mun alltaf vera nóg.

Ég er til, ég má taka pláss.

 

– Karen