Áminning á erfiðum dögum

Þegar mér líður illa og fer í þráhyggju
Þá veit ég að survival mechanism er að taka aftur yfir því það er það líf sem það þekkir og tengir við.

Hugurinn er að berjast á móti því að fara í aðra átt.

Þessi leið er eitthvað sem er nýtt og hugurinn veit ekki hvert það leiðir mig.

Leiðin til baka (falska öryggið og það sem survival mechanism þekkir best) = sami staður

Leiðin áfram = nýja leiðin. Óöryggið. Vinnan. Erfiðið. Óvissa. Þroski og styrkur.

Ég þarf að komast að því hvaða reglur survival mechanism vinna gegn mér og brjóta þær niður.

Læra nýjar leiðir. Nýjar reglur. Átta mig á því hvaðan þær koma og vinna mig upp frá því.

Slæmur dagur = survival mechanism að reyna að fara í það sem það þekkir. Hræðsla við að geta ekki lifað af án þess að halda í gamla hegðun og reglur sem gáfu mér „ást“.

– Karen

Ráð til mín sem ég reyni að lifa eftir

Eftirfarandi texti á við í þeim aðstæðum þar sem samskipti þjóna fremur slæmum tilgangi en góðum. Þegar það er kominn tími til að setja sjálfan sig í fyrsta sæti og huga vel og vandlega að sínu nærumhverfi.

Hvaða skilaboð heyrir þú um sjálfa/sjálfan þig á hverjum degi? Eru þau að byggja þig upp eða rífa þig niður?

Hjálpar það þér að verða betri manneskja? Hjálpar það þér að vaxa og dafna?

Svörin sem við gefum við þessum spurningum geta gefið skýra mynd af því hvernig við ættum að huga betur að okkur sjálfum.

Ég spurði sjálfa mig að þessum spurningum og tók erfiðar ákvarðanir í kjölfarið, til að huga að mínum bata.

Fyrir mig, setti ég mörk. Fyrir mig, fjarlægði ég mig (sem hvert og eitt okkar hefur því miður ekki alltaf valkost á).

Þetta reyni ég að minna sjálfa mig á:

Þetta snýst ekki um hver gerði þér eitthvað.
Þetta snýst um hvernig þú ætlar að nota það sem gerðist til þess að læra af því og vaxa.
Þú ert ekki að refsa neinum með því að koma þér í burtu.
Þú ert einfaldlega að koma þér í burtu, svo þú getir dafnað.

Horfðu á það sem gerðist á þann hátt sem þú skilur.

Einfaldaðu eins og þú getur.

Sættu þig við það án samþykkis.

Lærðu það sem þú getur lært. Skrifaðu það niður.

Fyrirgefðu það sem gerðist þegar þú ert tilbúin og fyrirgefðu þér fyrir að hafa gert mistök.

Finndu tilfinningarnar sem þú finnur. Allar. Án þess að dæma.

Gerðu betur næst.

Verndaðu þig.

Sýndu þér samkennd.

Ekki halda í neinar tilfinningar. Leyfðu þeim að koma þegar þær koma.

Ekki vonast eftir réttlæti, þar sem raunverulega verður ekkert og mun aldrei verða neitt réttlæti.

Ekki vænta neins vegna þinnar ákvörðunar. Leyfðu henni bara að vera ákvörðun.

Haltu áfram að vinna í þér og slíta á böndin sem gera þér meira illt en gott.

Farðu nýjar leiðir.

Finndu rótina og vinndu þig út frá því. Innra með þér.

Ekki refsa þér með því að halda í biturð, bæði gagnvart þér og þeim sem hafa gert þér illt. Það viðheldur tengingunni ykkar á milli.

Ekki refsa þér með því að dæma þig fyrir hvernig þú bregst við. Það viðheldur tengingunni ykkar á milli.

Finndu rótina að því hvaðan hegðunin (hegðun/gjörð/tilhneyging sem gerir meira illt en gott, til langtíma) kemur. Hver er tilgangurinn? Hvað vill hegðunin forðast (tilfinning)? Hvað vill hún fá?

Virkar það í dag (í núverandi aðstæðum)?

Ef ekki, þá þarft þú að vinna að því að byggja nýja hegðun sem tekur við og gengur í aðstæðunum í dag.

Hverju var hegðunin að leita eftir? (T.d. viðurkenningu, samþykki, að tilheyra.. osfrv.)

Hvernig finn ég það án hegðunarinnar.

Horfðu inn á við.

Án þess að dæma.
Ytri raddir þagna þegar innri raddir þagna.

Ég hætti að vera hrædd við ytra áreiti, þegar innri kjarni hugar að því sem mig skorti.

Ég er nóg.

– Karen

Ljóð um andvökunótt

Ég skrifaði niður hugsanir sem komu upp þegar ég gat ekki sofnað, í nótt.

Þetta árið hef ég byrjað að vakna í svitabaði í rúminu vegna kvíða og erfiðra drauma.

Ljóðið fjallar upprunalega um það hvernig ég er aldrei viss hvort ég geti almennilega tæklað morgundaginn, martraðir og hvernig hlýji, öruggi staðurinn breyttist yfir í köfnunartilfinningu, að fara úr því að vera alltof heitt yfir í allt of kalt og það hvernig líkaminn virðist ekki getað fundið jafnvægi og ró, á þeim stað sem ég hafði áður leitað til huggunar. Eða bara hvernig þú, kæri lesandi, kýst að túlka það ❤

Ég vaki
Hvernig mun morguninn verða
Hvernig andi
Mun grýpa mig, leiða mig ferða

Mun ég geta það
Gripið þennan dag

Ég vaki
Sama hvað, næ ekki að sofa
Byrði á baki
Sem borið ég hef, nú ég lofa

Sjálfri mér, legg ég við fætur
Svo augum loki um nætur

Hvíslar að mér sofðu rótt
Morgun tekur við þér fljótt
Sama hve lengi þú bíður
Sama hvað tíminn líður

Það sem áður hlýlegt var
Og föðmum breyddi um þig þar
Tekur við þér í kulda
Skilin eftir með ekkert svar

– Karen

Fyrstu „opinberu“ skrifin 14. janúar 2016

Þegar ég les yfir þennan texta langar mig að knúsa þessa manneskju. Ég var svo þreytt og lifði í svo mikilli skömm..

Ég er svo fegin að ég hafði hugrekki í að segja frá og leita mér hjálpar.

Nú skil ég miklu betur hvað var að gerast á þessum tíma og sé 100 % hversu mikið ég hef lært og unnið úr síðan þá.

Það eru alltaf ljósglætur inn á milli… stundum er bara erfiðara að sjá þær.

Þessi póstur sýnir mér hversu mikilvægt það er að tala um þessa hluti..

knús á þig, fortíðar Karen

knús á þig, kæri lesandi.

 

„Ég skrifa þennan póst með það í huga að ég vil að fólk viti hver ég raunverulega er. Fyrir sumum gæti það þótt eitthvað skrýtið en mér finnst samt að ég eigi að skrifa þennan póst og þá sérstaklega fyrir mig sjálfa.

Í kjölfar fjölda áfalla til margra ára hef ég þróað með mér almenna kvíðaröskun og áfallastreituröskun. Það er ákveðin áskorun að kljást við þær á hverjum degi.

Ýmsir litlir og einfaldir hlutir geta virðst stórir og erfiðir fyrir mér. Það eru ýmsir „triggerar“ sem ég kýs að forðast eins og ég get en þegar ég verð fyrir þeim fyllist ég ofsahræðslu og get varla hugsað skýrt. Oftast fer ég bara að gráta.

Stundum getur það verið erfitt að fara eitthvert eins og í búðina, að hitta vini, fara í partý, jafnvel bara það eitt að tala við fólk.

Ég hef oft dregið mig í hlé frá því að hitta fólk annað en mína nánustu því ég er svo hrædd um að fá kvíðakast. Ég er einfaldlega ekki sama manneskjan þegar ég fæ kast. Ég er lítil í mér, hljóðlát, dreg mig til hliðar og þori ekki að tjá mig.

Ég titra öll og fæ ýmis líkamleg einkenni sem erfitt er að hunsa og þá líður mér eins og allir sjái breytinguna á mér og í kjölfarið verður kvíðinn verri. Ég hef margoft orðið líkamlega veik vegna kvíðans.

Þegar ég fer út eða geri eitthvað loksins, þá líður mér alltaf eins og ég hafi unnið lítinn sigur, sem það er. Það versta við þetta er stanslaust samviskubit sem nagar mig að innan. Einungis fyrir það að vera svona, að þetta sé svona erfitt.

Flestir vita að ég elska að syngja og hef gert frá því ég man eftir mér. Ég var alltaf uppi á sviði hvenær sem ég komst þegar ég var í grunnskóla.

Veikindi mín hafa haft mjög hamlandi áhrif á árin eftir grunnskólann og er ég eiginlega bara hrædd og stjörf uppi á sviði nú til dags. Mér líður einfaldlega ekki lengur vel uppi á sviði. Ég er samt sem áður að vinna í því og mun vonandi komast yfir þann þröskuld.

Á sama tíma er ég að vinna mikið í sjálfri mér og er að gera mitt besta í því að takast á við þetta. Ég get alveg sagt það að ég hef aldrei verið á betri stað en í dag.

Besti vinur minn og ástin mín stendur alltaf við bakið á mér og er til staðar fyrir mig og mér finnst ég heppnust í heiminum að eiga hann að. Fyrir mér er það einfaldlega ekki til fallegri manneskja á plánetunni 

Það eru ótrúlega margir sem eru í sömu sporum og ég og margir sem vilja ekkert opna sig um þessi mál. En ég ætla ekkert að fela þetta lengur, ég er eins og ég er 

Ég er ekki að leita eftir vorkun, ég vil bara að fólk fái að kynnast mér eins og ég er og sýni þessu vonandi skilning“.

– Karen

3. janúar 2018

Árið 2017 var líklegast erfiðasta ár sem ég hef upplifað hingað til. Vegna rangra greininga og lyfjanotkunar í kjölfarið hrundi andlega hliðin alveg niður.

Minningar úr fortíðinni litu ljós og í kjölfarið stóð ég frammi fyrir því að horfa í augun á óttanum hvern einasta dag. Ég varð að hætta að vinna og gat ekki hugsað mér að fara í nám. Ég var búin að klára orkuna og gat ekki meir.

Ég fór úr því að vera manneskjan sem vildi hjálpa öllum og bæta smá brosi inn í daginn í það að þora ekki út úr húsi alveg hjálparvana og við það að gefast upp.

Ég átti þó gott fólk í kringum mig sem trúði á mig þegar ég gerði það ekki sjálf. Þau standa upp úr, hvert og eitt þeirra þegar ég horfi til baka. Það er ótrúlegt hversu mikið kærleikur getur gert.

Ég fékk í framhaldinu hjálp frá Virk og nýt þeirrar hjálpar enn þann dag í dag. (á ekki við í dag)

Þakklæti er mér efst í huga. Þakklæti fyrir sjálfa mig, að sjá hversu langt ég er komin með því að taka bara eitt skref í einu. Þakklæti fyrir allt fólkið mitt, þið vitið hver þið eruð. Þakklæti fyrir að vera til. Það birtir alltaf til, sama hversu dimmt það verður.

Ég ætla að sigra þetta ár og vonandi komast aftur í nám eða vinnu. Ég er komin með nóg af mínum fordómum gagnvart sjálfri mér og því hvar ég er. 

Ég er stolt af þeirri manneskju sem tók öll þessi litlu skref sem hefði aldrei getað ímyndað sér hversu langt hún væri komin núna.
Knús á ykkur öll og takk þið sem nenntuð að lesa 

– Þrátt fyrir að öllum markmiðum  hafi ekki enn verið náð (nám og vinna t.d.), þá eiga þessi orð ennþá við. Ég held áfram og horfi björtum augum til framtíðar.

Karen

Trigger Warning

(Birt á facebook-inu mínu í janúar 2018)

Erfitt að birta þetta en finnst eins og ég þurfi þess. Búin að þegja alltof lengi..

Var ung og reynslulaus og margt úr fortíð mig elti
Í faðmi þér fannst örugg og hélt í þína hendi

Hún færðist neðar og neðar, fann sting í maga
Ég vildi bíða, mikið lengur en nokkra daga

Ég sleit hendi frá þér í von um skilning
En augun þín hrópuðu shit hvað ég vil þig

Þú endurtókst leikinn, ég ekki þig skildi
Þú sagðir mér áður ég réði hvað ég vildi

Ég vildi hvíla í þínum örmum en ekkert meira
Ég sagði það áður en þú vildir ekki heyra

Ég fann hvað ég fraus, ég gat ekki hreyft mig
Ég gaf eftir að lokum, ekki á staðnum.. horfði niður á mig

Þegar leik var lokið, þú brostir.. þú mig kysstir
Það eina sem ég fann var eitthver missir

Það var eitthvað að, en hvað vissi ég ekki
Öðrum augum horfði nú á þann sem ég þekkti

Skömmin sem ég fann var ekki mín eigin
Hrædd að tjá mig en það er þó verra ef ég þegi

Ég þori nú loksins að opna á sárin
Ekki lengur ein um að þerra tárin

 

– Karen

Einlægni á facebook

Persónulegt og nálægt hjartanu.
Deilt í von um að þeir sem þekkja þetta upplifi sig ekki eina.. því ég veit það hefur hjálpað mér ❤ (Skrifað 5. apríl 2018-tekið frá facebookinu mínu)

Svo hér kemur það..
Í byrjun seinasta árs upplifði ég í fyrsta sinn geðrof. Ég var sett á sterk lyf með lítilli eftirfylgd og byrjaði hægt og rólega að missa tengsl við raunveruleikann.

Ég fékk mjög óeðlilegar hugmyndir um sjálfa mig og taldi sjálfa mig vera með lífshættulegan sjúkdóm sem engir læknar gátu greint. Þetta fór versnandi með fleiri ranghugmyndum og ofskynjunum um minn eigin raunveruleika.

Þetta var að gerast á þeim tíma sem ég byrjaði að skrifa alla þessa löngu og persónulegu pósta á facebook.. svo hvað er meira viðeigandi en að segja frá þessu í enn einum löngum póst á facebook (hehe).

Í lokin var ég orðin eins og fíkill. Hver læknir sem ég talaði við sagði mér að fara upp á geðdeild en ég trúði því ekki að það væru lyfin sem væru að valda þessari líðan. Allir mínir nánustu voru skíthræddir um mig og ég sá það. Man ennþá eftir tilfinningunni þegar ég var ekki viss hvort ég gæti treyst sjálfri mér lengur. Ég var að missa öll tengsl við raunveruleikann og hef aldrei verið jafn hrædd.

Á sama tíma var ég í mikilli áfallaúrvinnslu en í henni fólust endurupplifanir á virkilega erfiðum atvikum. Áfallastreitueinkennin mín margfölduðust. Allt í lífi mínu ýktist. Ég gat ekki heyrt hurð lokast án þess að hjartað tæki kypp.

Að lokum hjartans míns vegna hætti ég cold turkey á þessum lyfjum og fór hægt og rólega að taka eftir því hversu slæmt ástandið var orðið. Í kjölfarið tók við versta þunglyndi sem ég hef upplifað. Ég komst ekki út fyrir húsið því ég var svo hrædd. Hrædd við hvað? Ég vissi það ekki. Óstjórnanlegur óbærilegur ótti sem ég er enn að berjast við í dag og sérstaklega í samskiptum við fólk.

Ég á erfitt með að tala um þetta því ég er skíthrædd við fordóma.. en þetta gerðist og getur komið fyrir hvern sem er. Ég er bara nokkuð stolt af þeim árangri sem ég hef þegar náð í dag, þó leiðin sé löng. Ég var líka svolítið mikið heppin með gott fólk í kringum mig. Ég get aldrei útskýrt hversu þakklát ég er fyrir ykkur öll 
……….

Eftirfarandi texti var skrifaður út frá því hvernig ég upplifði sjálfa mig

„Hvernig er það að þora ekki en þrá ekkert annað en að tjá sig. Hvernig er það að standa í sínum eigin vegi. Að vera alltaf einu skrefi á undan sjálfum sér og missa þannig af því sem gerist í eigin nútíð.

Að líða eins og maður svífi fyrir ofan sig, sé einungis að reyna að lifa af þennan tíma sem maður hefur með fólki.

Hvernig er það að geta ekki sleppt og verið maður sjálfur. Að hugsa hvað maður vill segja og gera en aldrei gefa sér frelsi til þess að raunverulega gera það.

Hvernig er það að upplifa sinn eigin líkama og hug sem kæfandi óvin sem vill ekki létta á þrýstingnum því hann er of hræddur við það sem hann getur ekki undirbúið sig fyrir.

Hvernig er það að kunna ekki og þora ekki að sýna þeim í kringum sig hver maður raunverulega er og hvernig manni raunverulega líður.

Hvernig er það að lifa í stöðugum ótta við það sem kemur næst og um leið og þú færð tíma fyrir sjálfan þig ertu gjörsamlega búinn. Andlega hliðin tóm. Þarft bara að sofa, anda, vera til í augnablik.

Hvernig er það svo að allt þetta gerist ómeðvitað og í undirmeðvitundinni sem þú kannt ekki að stoppa. Stöðug hringrás sem heldur svo áfram aftur og aftur.

Hvernig er það að geta ekki verið. Hér og nú alveg eins og þú ert.

Hvernig er það svo að vita að þú gefur öðrum aldrei nema brotabrot af þeirri manneskju sem þú ert. Aðrir fá ekki að sjá neitt nema þöglu stúlkuna sem er hrædd og veik og brosir stundum. Stundum getur hún tjáð sig og þakkar fyrir hvert einasta skipti.

Hvernig er það að reyna eins og maður getur að hlusta og taka eftir en ekkert heyrist nema brot og brot og þú starir út í tómið, gefur svar eða viðbragð sem þú telur passa við það sem er að gerast og vonar að þú hafir giskað rétt.

Hvernig er það að finnast þú vera lokaður inn í eigin líkama og hug og heyrir þig öskra og gráta „hér er ég“ en ekkert sést og ekkert heyrist og þú horfir á það gerast að innan frá. Þráir ekkert annað en að vera séð. Þess í stað sést einungis veggurinn, hræðslan, allt sem þú ert ekki og þú upplifir einhvern missi. Hvar er ég? Hvernig kemst ég héðan út? Ég er að drukkna. Hvernig kemst ég aftur á yfirborðið?

Svo fylgir reiðin og pirringurinn sem er secondary emotion sem kemur væntanlega vegna þess að hinar tilfinningarnar eru bældar. Að líða eins og það sé stöðugt verið að anda ofan í hálsmálið á þér og þú reynir eins og þú getur að standa þig.

Að vera orðin þreitt og pirruð út í allt og nánast alla í kringum þig því þú getur ekki verið bara þú og finnst eins og þú getir ekki andað. Þráir ekkert annað en að finna stað sem þú ert örugg og getur verið þú sjálf.

Að skilja samt ekki afhverju þú ert svona hrædd og þreytt og dofin.

Ranghugmyndir. Að halda að allir bíði eftir að þér mistakist. Að halda að allir horfi niður á þig. Að geta ekki meir. Að týna sjálfum sér.

Takk fyrir að lesa
Knús á ykkur öll“.

 

– Karen

 

Þessi texti kemur núna alltaf upp í símanum mínum kl 13:00 á hverjum degi

„Ég er nóg, og ég hef alltaf verið nóg“

Ég mæli með að hafa þennan texta fyrir framan þig á hverjum degi, hvort sem það er í minnismiðum eða á mynd inni í herbergi eða þú segir það einfaldlega við sjálfa/n þig 😊

við höfum öll gott af meiri hlýju til okkar sjálfra 

Þetta stendur fyrir það að þegar við fæddumst vorum við nóg. Litla sjálfið innst innra með okkur er nóg og það tekur ekki mið af árangri, fjárhagstöðu, færni og öllu því sem við söfnum utan um okkur um ævina. Litla barnið innra með okkur öllum er nóg.

Óskilyrðislaust 

(Takk Sigurbjörg hjá Lausinni fyrir að minna mig á þetta 💕)

Knús 💕

– Karen

Skilaboð Nanette

Ég grét, ég hló, ég klappađi međ áhorfendum ein međ sjálfri mér og þakkađi fyrir ađ fólk eins og Hannah Gadsby sé til.

Fólk sem þorir ađ stíga fram og segja sína sögu eins og hún gerđist, ekki međ lagfæringu þannig ađ hún passi inn í eitthvađ form. Ekki þannig ađ engum líđi óþæginlega því þađ er veriđ ađ rugga bátnum.

Raunverulegar sögur, eins og þær gerđust í von um ađ hún nái til þeirra sem tengja viđ hana. Í von um ađ viđ vitum, virkilega vitum og finnum þađ í hjartanu ađ viđ erum ekki ein.

Því lífiđ er ekki bara góđu tilfinningarnar, þađ er lìka vondu tilfinningarnar og viđ upplifum þađ öll. Enginn er undanskilinn og viđ megum hafa rödd.

Viđ eigum öll okkar sögu og hver og ein saga er full af visku og lærdóm sem kennir okkur eitthvađ.

Ég mæli međ ađ allir taki sér tíma til þess ađ horfa á Nanette. Þetta eru mikilvæg skilabođ til heimsins, viđ erum ekki ein.

Takk fyrir mig 

– Karen

Orð geta verið gjöf

Mörg okkar kannast viđ ađ líđa svona.. ef þessi orđ hjálpa einni manneskju… 
Þađ er mikilvægt

ég hvet alla mína vini og alla vini vina minna til þess ađ deila þessu. Mörg okkar segja ekki frá… mörg okkar þjást í hljóđi…
Hver sem þú ert og hvar sem þú ert…
Þú ert ekki ein/nn
Ég hugsa til þín

To the someone who needs to hear this today

This is how you feel right now. But our feelings aren’t always a reflection of truth. Depression clouds our vision of reality. There is always hope, even though it’s hard to believe right now.
Remember that if today is your worst day, then it can only get better from now on.
You are someone important. Subconsciously or consciously you make a difference in the world. Remember that you are not alone. You are a warrior.
Stay strong.
You are loved. 

– Karen