Ég fór að taka eftir því að ég átti það til að halda í mér andanum í óþæginlegum aðstæðum.
Það ýtti undir ennþá meiri kvíða og tilfinningu um aftengingu frá umhverfinu mínu.
Það var eins og líkaminn væri að reyna að vernda mig frá því að finna fyrir sér, frá því að taka pláss, frá því að hreyfast. Það var sú leið sem hann var búinn að læra að ég væri örugg. Hann vildi halda mér kyrri og frosinni.
Ég man eftir því þegar mér fannst ég taka of mikið pláss með því að anda, fór að verða ofurmeðvituð um hvort það heyrðist í mér, hvort ég væri að anda of hratt eða skringilega, gat ekki leyft mér að anda djúpt eða andvarpa. Það var bara eins og allt væri læst þarna inni. Ég gat ekki leyft mér að anda djúpt því ég var of upptekin við að greina umhverfið. Ef ég færði fókusinn eitthvert annað þá fann ég ótta, því ég var ekki á varðbergi.
En það sem gerðist þá var að ég varð mun aftengdari líkamanum og innsæinu. Ég gat ekki fundið fyrir því sem var að gerast, heldur var ég að reyna að greina það huglægt, ofhugsa allar mögulegar útkomur sem gætu haft neikvæð eða skaðleg áhrif á mig.
Líkaminn var ekki einhvað sem ég treysti lengur, því huglæga nálgunin hafði hjálpað mér að lifa af og þegar ég var nær líkamanum þá var ég líka nær tilfinningunum mínum og öllum sársaukanum þar undir.
En öndunin er það sem hreyfir við því sem er innra við, hjálpar tilfinningum að koma upp á yfirborðið, hjálpar mér að losa um spennu. En það var eins og líkaminn vildi halda í þessa spennu, ekki hleypa neinu út, ómeðvitað en útfrá fight, flight, freeze eða fawn viðbrögðunum. Hann þekkti ekkert annað og hefur eflaust viljað halda í það sem hann þekkti frekar en að taka þá áhættu að hleypa einhverju út sem hann hafði enga hugmynd um hvernig áhrif það myndi hafa á mig.
En ég er að velja að anda. Þó það sé erfitt. Þó það sé að kalla fram ótta. Því mig langar að finna allt sem ég þarf að finna og hleypa því í gegn.
Því þegar ég er að halda í mér andanum, þá er ég að reyna að stoppa það sem þarf að gerast, til þess að reyna að vernda mig, ómeðvitað, með minn hag fyrir brjósti.
Ef að andardrátturinn hleypir spennu og tilfinningum að finna sér þæginlegri farveg, þá meikar það sens að til þess að reyna að taka stjórn, að ég muni halda í mér andanum.
Því við getum ekki stjórnað eðlilegum ferlum líkamans, líkt og tilfinningum, það eina sem við getum gert er að reyna að stjórna þeim með því að trufla eðlileg ferli líkamans (færa fókus, bíta niður, spenna vöðva, halda í sér andanum osfrv.) og það gengur aldrei til lengdar, því tilfinningar hverfa ekki þegar við neitum að finna þær, þær bíða eftir því að fá tækifæri til þess að koma upp á yfirborðið, svo í rauninni getum við bara valið hvernig við bregðumst við tilfinningunum þegar þær koma upp og það sem þær raunverulega þurfa er skilningur og umhyggja fyrir því sem þær hafa að segja og vinna úr. Því okkur líður aldrei rangt, það virkar ekki þannig.
Líkaminn gerir það sem hann getur til þess að vinna úr því sem við upplifum til þess að við getum haldið áfram, hann veit hvað við þurfum til þess að hleypa spennunni út og við kunnum það þegar við erum börn.
Börn hleypa tilfinningunum (tilfinningum, ekki hegðun) sínum út þegar þau þurfa að vinna úr einhverju, þau kunna það eðlilslægt en sem börn ýta viðbrögð fullorðinna gagnvart tilfinningum þeirra annaðhvort undir þá hugmynd að það sem barnið er að upplifa er eðlilegt og að það verði ekki yfirgefið þegar það er að upplifa erfiðar tilfinningar, eða þau ýta undir þá hugmynd að þau þurfi að ýta vissum tilfinningum niður til þess að fá samþykki, líkt og margir gera núna á fullorðinsárum. Ég gerði það og geri það enn, því það tekur tíma að hleypa sársaukanum aftur á yfirborðið þegar það er partur af manni ennþá hræddur við það af hræðslu við að fá ekki samþykki eða verða hafnað.
En ég er að æfa mig í að anda inní það sem kemur, anda inn í umhverfið sem ég er í, horfast í augu við hræðsluna sem kemur og velja að anda samt inní hana. En ég vil setja það skýrt fram að þetta er ekki auðvelt og ég vil alls ekki láta það hljóma þannig. Þetta er ferli sem tekur þann tíma sem það þarf og mun einkennast af því að ég fari í gamalt far og velji frekar að halda í mér andanum. Það er ekkert alltaf og aldrei hér. En það sem skiptir mig máli er að ég er að velja þetta aftur og aftur, æfa mig aftur og aftur og ég held í vonina um það að ég muni einn daginn upplifa það sem „heima“ að anda djúpt, hvar sem ég er.
Við erum öll að gera okkar besta og okkar besta er bara það sem við höfum færni og orku til þess að gera hvert augnablik.
-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.
Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.
-karen