Að taka eftir og knúsa það sem kemur

Ég hef svo oft farið yfir í pælingar um innri gagnrýnandann, hvernig sé hjálplegast að vinna með honum samtímis þess að passa uppá að endurtaka ekki skilaboðin aftur og aftur sem hann hefur að segja. Ég tengi sjálf við innri gagnrýnandann sem innra barnið sem er ennþá hrætt og hafa margir talað um hann á þennan hátt, þar á meðal Richard Grannon, Pete Walker og Peter Levine. Hlutverk hans eins og ég hef áður komið inná er að endurtaka niðurbrjótandi bein eða óbein skilaboð um allt það í mínu fari sem ég átti í hættu á að vera hafnað fyrir í mínu umhverfi sem barn. En ég held að margir geti tengt við það að hafa þessa innri niðurbrjótandi rödd.

Hún getur hins vegar farið á overload og byrjað að stýra lífi manns ef innra barnið er ekki búið að átta sig á því að það er mest megnis öruggt, að það hafi öruggan kjarna til að snúa sér til ef svo kæmi til þess að því verði hafnað. En það er erfitt að finna fyrir öryggi þegar maður hefur lært að hafna sjálfum sér, upplifir vantraust gagnvart því hvar sé raunverulegt öryggi og þegar maður hefur ekki leið til að hlúa að sér sjálfur.

Ég hef lifað þannig í mörg ár, stöðugt hrædd, stöðugt óviss um það hvort ég geti treyst því að ég viti sjálf hvar ég er örugg samtímis þess að ég finn það skýrt í öllum líkamanum ef ég er virkilega ekki örugg. Ég hef sem betur fer í meirihluta fundið leiðina til baka og leyft mér að treysta, en þessi ótti kemur samt alltaf aftur, þetta vantraust. En þá á það sérstaklega við allt sem er ekki augljós hætta, því margt var svo lúmskt sem skaðaði mig sem mest.

Ég hef reynt að leiðrétta innri gagnrýnandann, meðvituð um að hann sé bara að reyna að vernda mig, fattar ekki að ég er ekki lengur þar sem ég var og að ég sé raunverulega fær um að vernda mig núna. Ég hef sent honum endalaust af ást og kærleika, en samtímis fann ég mig reyna að ýta honum í burtu með því að sýna honum kærleika. Flókið dæmi. En ég rakst stöðugt á vegg. Ég gat ekki sett mörk og varð linari með mörkin mín. Ég vonaðist stöðugt eftir því að kærleikurinn myndi ýta undir það að ég finndi það að ég væri verðug að vernda og það myndi bara loksins gerast einn daginn að ég myndi ekki yfirgefa sjálfa mig fyrir samþykki einhvers annars. Að ég gæti bara fundið það hjá mér sjálfri. En ég átti bara svo erfitt með að trúa því, því ég var ennþá að reyna að ýta þessu frá mér innst innra með mér. Verkfærið varð bæði hjálplegt (því uppbyggjandi skilaboð hjálpuðu mér að minna mig á eigin virði) og hindrandi (ég ýtti sjálfri mér í burtu í samskiptum við aðra og minnkaði mig), samtímis.

Ég hef líka reynt að aðskilja innri gagnrýnandann frá mér og fókusað á skilaboðin hans og á þá sem beindu þeim óbeint eða beint að mér. Því jú reiði er líka partur af batavinnunni og að standa upp fyrir sjálfri mér. Þá á ég ekki við reiði sem er kastað á einhvern annan sem er á staðnum, heldur huglægt og með því að hleypa allri spennunni úr líkamanum með vissum verkfærum frá því að bæla reiði og halda henni innra með. Það hjálpar ef ég segi hlutina upphátt og í öruggu rými, en það var óhjálplegt ef ég reyndi að svara fyrir mig í huganum, því ég upplifði það eins og árásir á sjálfa mig. Málið er líka það að um leið og innri gagnrýnandinn finnur að ég sé að togast í burtu frá honum, að þá hækkar hann styrkinn, heldur að hann sé að koma í veg fyrir einhvað hræðilegt og telur fórnarkostnaðinn vera of mikinn til þess að brjóta mig ekki niður svo ég haldi mér áfram í „örygginu“.

Svo ég hef verið að leita mér að nýrri leið til þess að hlúa að þessum gagnrýnanda, en ég áttaði mig á því að ég var ekkert alltaf viss hvenær þetta væri innri gagnrýnandinn og hvenær þetta væri bara ég. Svo ég hef verið að æfa mig að fylgjast bara með. Ekkert meira, ekki leiðrétta, heldur um leið og ég sé hugsun sem felur í sér niðurbrot, samanburð, óhjálplega gagnrýni, skilningsleysi eða einhverja leið sem minnkar mig eða einhvern annan, að þá segi ég við sjálfa mig „gagnrýnandi“. Ég mótmæli ekki, né reyni að leiðrétta eða breyta neinu, heldur bara tek eftir því að hann er að birtast þarna. Mér finnst reyndar persónulega þæginlegt að kalla hann „critic“ þar sem íslenska orðið er svolítið þjált að endurtaka. Ég veit um leið og ég segi þetta orð hvað er að gerast, hvað er verið að ýta undir og ég veit líka að það eru stórar og sársaukafullar tilfinningar sem ég þarf að finna sem eru að ýta á eftir því að gagnrýnandinn telur sig knúinn til þess að mæta á svæðið.

En þetta hefur verið að hjálpa mér undanfarið og er ekki nærri því eins lýjandi og að reyna að leiðrétta eða að dæma gagnrýnandann fyrir það sem hann segir. Ég veit bara strax að það sem er að gerast endurspeglar ekki mitt viðhorf og mína innri rödd/kjarna. Því innri kjarninn leitast eftir jafnvægi, að tilheyra og að sjá aðra tilheyra án þess að nokkur sé minni eða stærri, að allir séu bara velkomnir. Hegðun sé hegðun og við getum lært af henni og breytt henni með skilning, ábyrgð og kærleika. Hugsanir og tilfinningar séu bara einhvað sem kemur og fer ef við treystum því til þess (þá á ég við frá upphafi, ég er alls ekki að segja að það sé auðvelt að vinna með þessa hluti þegar við höfum orðið fyrir áföllum og sársauka varðandi þennan hluta af mennskunni). Ég þekki kjarnann minn og hvað ég vil gefa af mér til mín og annara og skilaboð innri gagnrýnandans heyra ekki þar undir. Þess vegna er svo mikilvægt að ég beri kennsl á hann, sé að fylgjast með, því annars gæti ég farið að trúa honum og það hefur oft gerst, þar til ég átta mig á því hvað gerðist.

Innri gagnrýnandinn minn hefur í raun og veru það hlutverk að búa til ótta, af hræðslu við það að ef hann myndi ekki ráðast á mig sem barn, að þá myndu aðrir gera það og þá væri það mun verra því það myndi koma mér á óvart og ég gæti ekki leiðrétt það eða reynt að koma í veg fyrir það á einhvern hátt (sem oftast er engin leið til þess að gera, nema þá með því að yfirgefa sjálfan sig fyrir einhvern annan). En þá er það eitt merki sem ég get leitað eftir, að taka eftir því að ég er hrædd. Gæti þá verið að það sé einhvað niðurbrjótandi að endurtakast ómeðvitað í huganum? Ef svo er þá get ég núna borið kennsl á það, séð hvað er að gerast og hlúið svo að tilfinningalegu þörfinni sem býr undir. Oftast þá þarf ég bara að gráta smá og það er alltaf gott að gráta. Tár þýða ekki alltaf að það sé einhvað „að“ heldur geta þau líka bara verið úrvinnsla frá einhverju sem ég hef ekki leyft mér að finna og hleypa í gegn. Þá finnst mér gott að setja aðra höndina á hjartað og anda. Yfirleitt kalla tárin mín fram gagnrýnandann, en þá er ég að æfa mig að bera kennsl á hann og halda svo utan um sjálfa mig, því ég veit að ég mun eiga erfiðara með að hlúa að og skilja tilfinningar annara þegar ég hef ekki leyft mér að hlúa að og skilja mínar eigin.

 

 

Við erum öll að gera okkar besta og okkar besta er bara það sem við höfum færni og orku til þess að gera hvert augnablik.

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

 

-karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.