Að segja of mikið, eða að ofdeila er einhvað sem ég hef átt erfitt með síðan ég veit ekki hvenær. Ég leitaði út um allt að ráðum, fór á lyf, prófaði alls konar leiðir og leitaði útskýringa á því afhverju þetta gerðist. Í hvert skipti sem ég deildi út fyrir mörkin mín á því hverju ég vildi deila, þá sat ég eftir í molum, skildi ekki hvað gerðist, skildi ekki afhverju og hreinlega braut sjálfa mig niður fyrir það að finna fyrir svona mikilli þörf fyrir að deila.
Ég var sannfærð um það að ég væri stútfull af sjálfri mér og þess vegna gerðist þetta, en samt samtímis var þetta það sem ég kveið fyrir í hverjum samskiptum „plís ekki tala um þetta karen, plís ekki“. Í hvert skipti leið mér eins og ég hefði svikið sjálfa mig, vildi einangra mig, ekki vera í kringum fólk, til þess að koma í veg fyrir það að ég myndi tjá mig mögulega um einhvað sem ég raunverulega vildi ekki gera. Ég hef spurt hvern sálfræðinginn á eftir öðrum að því hvers vegna ég geri þetta og hvað ég geti gert til þess að geta leyft mér að velja hvað ég segi, hverjum ég raunverulega treysti fyrir þessum parti af mér, því mér líður eins og ég sé gagnsæ og ófær um að vernda sjálfa mig þegar þetta gerist.
En ég held ég skilji þetta loksins. Skilji sjálfa mig aðeins betur á þennan hátt. Þó svo ég upplifi einnig stundum eins og ég sé að skrifa út fyrir sjálfa mig hér. En svo langar mig líka bara að skrifa um allt ferlið hér, fyrir sjálfa mig fyrst of fremst í von um að hlúa að þessari skömm sem fylgir því oft að eiga erfitt andlega í þessu samfélagi. Dags daglega er ég frekar hrædd við samskipti ennþá og fámælt. Þessi síða hefur hjálpað mér að öðlast einhverja rödd. Ég óska þess innilega að hún fái að hljóma, þegar hún vill, ekki bara þegar hún er hrædd, utan þessarar síðu einn daginn. Ég er enn að safna kjarki og þá á ég ekkert endilega við til þess að tala um einhvað sérstakt, bara þora að hafa rödd, tala við fólk um allt og ekkert. Ég sakna þess mikið. Að samræður séu ekki endalaus spenna og hræðsla, heldur bara eins og vatn sem flæðir upp og niður og stundum inná milli kemur þögn og það er bara allt í lagi.
Ég upplifði það í langan tíma að heimurinn var að hrynja í kringum mig en enginn sagði neitt við mig, enginn sýndi merki um að þau sæju rústirnar, allir í kringum mig (að ég upplifði) létu eins og ekkert væri að, en allt um kring var þessi yfirþyrmandi áþreyfanlega spenna sem ég vissi að við fundum öll, en enginn sagði neitt, allir brostu bara og svöruðu „allt fínt“ og ég gat ekkert annað gert að segja sjálf „allt fínt“ því ég var skíthrædd við að segja einhvað annað, skíthrædd við að vera hafnað, skíthrædd við að vera dæmd sem vandamál, skíthrædd við að skapa meiri rústir.
En ég var að kafna. Allt í kringum mig var fólk en mér leið eins og ég væri alein og mig langaði að öskra. Mér leið eins og ég væri komin í einhvern sýndarveruleika, einhverja martröð þar sem fólk klæddi sig upp eins og fólkið mitt en var það ekki raunverulega. Ég gat ekki andað í þessu andrúmslofti, fann tengslin rofna og fjarlægðina kæfa allt í herberginu. Ég upplifði sjálfa mig sem falska, því ég hleypti þeim ekki lengur að mér, spilaði heldur leikritið, lét eins og allt væri „fínt“ en fann samtímis allan missinn. Fann fólkið hverfa í burtu frá mér, fann sjálfa mig týna sjálfri mér. Eftir einhvern tíma þá gat ég ekki verið í kringum þau lengur, of hrædd við að spila hlutverkið, vildi ekki sársaukann, þorði samt ekki í heiðarleikann. En inn á milli reyndi ég að koma til baka, en alltaf festist þetta bros á andlitinu sem ég vildi ekki. Ég lærði að svara „rétt“ til að halda friðinn. Því ennþá vildi enginn tala um spennuna í herberginu. Enginn vildi rjúfa þögnina sem var yfirþyrmandi og það sem ég hræddist mest. Því þar var ég viðkvæmust fyrir því að þau gætu séð mig, séð leikinn, séð að ég var að látast, að ég var ekki ég sjálf.
En ég reyndi að rjúfa þögnina, reyndi að tala um þetta, reyndi að brjóta niður þennan vegg, en það varð allt verra þá. Ég varð óþæginleg. Svo ég hélt áfram leiknum, reyndi að rífa brosið af mér en gat það ekki, of hrædd við að missa meira. Svo á endanum varð fjarlægðin meiri, kvíðahnúturinn í maganum stærri yfir yfirvofandi heimsóknum og alltaf fannst mér ég vera að kafna. Heimurinn var ekki raunverulegur lengur. Hann var sýndarveruleiki. Hvernig mér leið samræmdist ekki því hvernig viðmót annara var og ég hélt ég væri að missa vitið. Svo ég fór að lokum, gat ekki meir.
Í dag hræðist ég ekkert meira en að lenda í svona hringrás aftur og ég hræðist það mest að skapa hana sjálf. Svo ég vil leysa spennuna áður en hún tekur yfir. Jafnvel þó svo enginn annar skynji hana nema ég. Þá vil ég strax leysa hana. Strax vera heiðarleg um það hvernig mér líður og hvað ég er að upplifa. Ég er of hrædd við að mögulega valda þessari spennu sjálf, að ég er alltaf einu skrefi á undan í samskiptum og reyni að leysa hana strax. Á sama tíma og ég vil ekki gera það. Svo það sjálft skapar spennu, þessi togstreita.
Ég er skíthrædd við samskipti enn þann dag í dag því enn kemur þetta bros upp, þessi spenna, þegar ég er að láta eins og allt sé í lagi þegar það er það ekki (sérstaklega í kringum þá sem skipta mig miklu máli). Ég vil það ekki og verð hrædd, því ég vil eiga einlæg samskipti, raunveruleg tengsl við fólk, svo ég bæti upp fyrir það með því að vera of heiðarleg. Komin í stöðugan vítahring við sjálfa mig sem endurtekur sig aftur og aftur. Segi frá því hvernig mér líður langt fyrir utan mörkin mín. Finn ekki miðpunktinn.
Ég er stöðugt hrædd við að valda fólki þeim sársauka sem ég fann í þessari spennu, þessari kæfandi þögn með því að láta eins og allt sé í lagi þegar mér líður ekki þannig og finn það innra með mér að er ekki í lagi og líður eins og aðrir skynji það líka. Og þá verð ég ennþá hræddari. Ómeðvituð um að þetta er mitt eigið sár sem er að opnast þarna, ekki hjá einhverjum öðrum (að mér vitandi). Það er eins og ég sé stöðugt að reyna að koma í veg fyrir það að þetta gerist ekki aftur, að missa fólkið mitt ekki aftur, og eina leiðin sem ég kann er að tjá mig, þegja ekki. En svo verð ég hræddari eftir það. Því ég vildi ekki deila þessu með hverjum sem er.
Kannski þarf ég að læra að sættast við þögnina, læra að hún er ekki einhvað sem er hættulegt og kannski hef ég skrifað um það áður, ég átta mig oft á því að ég er að enduruppgötva hlutina aftur og aftur þegar ég þarf mest á þeim að halda. Þetta er það sem er að koma til mín núna. Ég held það veiti mér aðeins meiri skilning og innsýn í sjálfa mig. Hjálpar mér að muna að við erum öll alltaf bara að reyna að vera séð, hvernig sem það lítur út.
Stundum lærum við að gera það á óheilbrigðan hátt og ef við veljum það, þá getum við aflært það. Mikilvægast er bara að muna að ég er nóg, þú ert nóg, við erum og við vorum alltaf nóg. Við fáum bara ekki öll að sjá það. Ég er að æfa mig í því að sjá það aftur. Læra að elska mig eins og ég er, meðvituð að hegðun er ekki hver ég er en er einhvað sem ég get valið að aflæra. Ég er ábyrg fyrir henni. Hver ég er, hver við öll erum innst í kjarnanum, er ekkert nema tær ást og allt sem segir okkur að við séum það ekki, segir okkur að við séum stærri eða minni en einhver annar eða þurfum að vera það, er nákvæmlega það sem við þurfum að aflæra.
Að deila út fyrir mín mörk er einhvað sem ég þarf að aflæra, því það er ást í því að setja mörk og ég þarf að velja að virða mín eigin mörk, fyrir utan það að ganga úr skugga um það að viðkomandi sem er að taka við upplýsingunum sé fær um að taka við þeim og ég sé ekki að deila umfram mörkum viðkomandi. Það er líka mikilvægt. Ég hef verið að æfa mig í því að segja „hefur þú pláss fyrir þetta núna?“. En ég klikka líka á því og þarf að taka ábyrgð á því. Því það er ekkert alltaf og það er ekkert aldrei. Þetta er allt æfing og ég er alltaf að læra, gera mistök, horfast í augu við þau og æfa mig að gera betur næst. Eitt skref í einu.
Ég held ég þurfi hreinlega að átta mig á því að það að deila ekki öllu með hverjum sem er, er ekki óheiðarleiki, skaðar ekki fólk og skaðar ekki sjálfa mig og það má. Ég má halda því fyrir mig og bíða þar til ég er tilbúin og vil segja frá því í öruggu umhverfi, það má. Það þýðir ekki að allt sé aftur að fara að hrynja í kringum mig. Það er einhvað sem ég ætla að vinna í því að sjá. Með allri ást, skilning og samkennd sem ég hef uppá að bjóða gagnvart sjálfri mér.
-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.
Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.
– karen