Allt er á hreyfingu

Ég veit ekki hvort þessi skrif gagnast einhverjum öðrum, en þessi áminning er að hjálpa mér að vingast við það að geta staldrað við í líkamanum þegar ég er að upplifa mikla spennu eða sársauka.

Innra með mér er allt á hreyfingu, taugakerfið, blóðið, meltingakerfið… o.s.frv. en samt hefur mér svo oft liðið eins og ég sé föst, allt sé kyrrt, eins og ég hafi einhvern veginn bara frosið að innan. Sérstaklega þegar það kemur að því að upplifa mikinn ótta. Þá líður mér stundum eins og ég sé ekki einu sinni á staðnum, jafnvel að ég sé ekki raunveruleg. Það er eins og tíminn stoppi, eða ég stoppi og allt er á hreyfingu í kringum mig en ég er ekki partur af því, eins og mig sé að dreyma, nema þetta er ógnvekjandi.

Kyrrðin hefur verið mest yfirþyrmandi. Þegar mér líður eins og ég gaddfrjósi, geti ekki hreyft mig, ekki talað, ekki hugsað, eins og allt festist einhvern veginn bara á sama stað og ég kemst ekkert áfram.

Það hjálpaði mér að átta mig á því að þetta væri tilfinning, ótti, ekki einhvað sem væri að mér og væri að toga mig í burtu í kjölfarið, heldur mikill, mjög raunverulegur ótti. Það er það sem gerist þegar taugakerfið fer gjörsamlega yfir sín mörk. Þegar taugakerfið lærir að það geti hvorki barist né flúið hættulegar aðstæður, þá tekur það uppá því að frjósa eða reyna að þóknast ógninni til þess að lifa af. Ef taugakerfið fær svo ekki næga úrlausn eftirá að þá geta þessi viðbrögð, þessi spenna, þessi sársauki fest í líkamanum og viðhaldist löngu eftir að hættulegu aðstæðurnar eru liðnar.

Ég upplifi það að frjósa í lang flestum tilfellum þegar taugakerfið fer á overload. Það er ekki eins ýkt og það getur verið í verstu tilfellunum (bókstaflegt yfirlið) hjá mér. Það sést oftast ekki, nema ég sé í aðstæðum þar sem ég treysti mínum nánustu fyrir að sjá mig í þessu ástandi í von um að hjálpa mér að róa kerfið niður með co regulation. En það er miklu meira en að segja það og ég vil segja að ef það er ekki einhvað sem fólk upplifir sig geta gert að þá er engin skömm í því, það er alveg nóg að lifa af.

Ég er búin að lifa í mörg ár í einhvers konar freeze/fawn/flight doða, en er stöðugt að reyna að finna lausnir og hjálpa mér að þora að taka pláss og treysta heiminum á ný. En það hefur verið virkilega erfitt. Sérstaklega þegar ég skildi ekkert hvað var í gangi. En fræðsla hefur hjálpað mér ekkert smá að skilja betur hvernig þetta virkar, hvaðan þetta kemur o.s.frv. Það hjálpar sérstaklega með samkennd, því lengi vel þá kenndi ég sjálfri mér um það sem ég var að upplifa og það að ég gæti ekki bara haldið áfram. En það virkar ekki svoleiðis. Ég þarf að vera með mér í liði. Velja mig. Hvernig sem það lítur út hverju sinni. Ég get ekki verið til staðar fyrir aðra án þess að brenna út ef ég er ekki til staðar fyrir sjálfa mig.

En aftur að hreyfingunni. Það hjálpar mér að líða eins og ég sé partur af tilverunni að hugsa að ég hreyfist með henni, að ég er ekki kyrr, að jafnvel þó mér líði eins og hugurinn frjósi, að þá er fullt af hlutum að gerast, heill heimur af hreyfingum. Alveg eins og með líkamann, það veitir mér einhverja huggun að ég sé ekki kyrr, ekki stopp, ekki stöðnuð. Það hjálpar mér að fara inn í ölduna, staldra hjá henni, fylgjast með hvernig hún hreyfist, því þetta er bara líkaminn að vinna úr ytra og innra umhverfi í von um að hjálpa því að fá þá úrlausn sem það þarf til að skapa ró. Ekkert er stopp, svo jafnvel þó ég rekist á, að þá mun það hreyfa sig til líka. Ég hef líka átt erfitt með hreyfinguna, því ég lærði að óttast tilfinningarnar mínar og í hreyfingunni, ef ég fylgist með henni, þá geta þær komið upp. En samtímis vil ég þær, því þær eru líka bara að leita að úrlausn og ró. Þær eru hafsjórinn og öldurnar sem stækka og falla, sem hætta samt aldrei að hreyfast.

En þetta er bara lítið sjónarhorn sem er að hjálpa mér og má alls ekki taka burtu frá því hversu erfitt þetta getur verið, ég vil alls ekki taka neitt frá því.

Við erum öll að gera okkar besta og okkar besta er bara það sem við höfum færni og orku til þess að gera hvert augnablik.

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.