Ég er ennþá hrædd

Mér finnst oft erfitt að opinbera hvernig mér líður hér, en ég finn það samt að ég þarf að gera það fyrir mig. Ég vil ekki skammast mín fyrir það að líða. Það má. Það má upplifa sársauka og eiga erfiða tíma, það þýðir ekki að ég sjálf sé einhverskonar sársauki eða erfiður einstaklingur. Það kemur frá skömm og hræðslunni við að verða dæmd og hafnað.

En það er einn ótti sem lifir ennþá sterkt í mér. Það er einhvað sem ég uppgötvaði eftir samtal við manninn minn um daginn. Ég var að útskýra fyrir honum hvað ég var að upplifa og hann stoppaði mig af og spurði „kemur þetta ekki frá þessu atviki? Þetta minnir allavegna rosalega á þá atburðarrás? Það er eins og þú sért að lýsa þessari minningu“. Þetta skýrði ýmislegt. Hvers vegna ég er svona hrædd.

Óttinn sem ég er að upplifa er að ég verði tekin í burtu frá fólkinu sem ég elska, að ég verði heilaþvegin og tekin í burtu, að ég hafi ekki raunverulegt val, því minni heimsmynd sé ekki treystandi, svo ég geti ekki raunverulega séð skýrt eða staðið með mér og ég verði tekin, talin trú um að það sé það sem er best fyrir mig því ég sé svo brotin.

Í rökhugsun veit ég að það er ekki að fara að gerast, en líkaminn minn neitar ennþá að trúa því, ég er greinilega ekki búin að vinna úr þessu. Ég var einu sinni í aðstæðum þar sem nákvæmlega þessi atburðarrás átti sér stað, eða þannig upplifði ég aðstæðurnar. Ég var í burtu frá örygginu mínu, taldi mig vera í öruggum aðstæðum og áður en ég vissi af gerðist atburðarrás sem hafði það í för með sér að ég valdi, þó ekki alveg orðin fullorðin, að yfirgefa öryggið mitt fyrir þetta perceived öryggi sem ég taldi mig vera komna í. Þegar ég loksins sá skýrar og þorði að treysta sjálfri mér, þá komst ég ekki strax aftur heim. Ég þurfti að lifa af restina af tímanum sem ég var í þessum aðstæðum,  þurfti að fela það hvernig mér leið og reyna að gera einhvað gott úr þessu, samtímis þess að ég var skíthrædd, gat engan raunverulega talað við á staðnum, né sýnt hvernig mér leið eða staðið fast upp fyrir sjálfri mér. Ég varð hálfdofin, og þessi dofi hefur fylgt mér síðan. Ég gat ekki barist og ég gat ekki flúið. Ég var föst. Himinn og haf í burtu frá heima.

Ég hef aldrei upplifað jafn mikinn létti og þegar ég komst úr þessum aðstæðum, mér leið eins og ég væri frjáls. En vegna þess að ég gat í rauninni ekki sýnt hvernig mér leið eftir þetta þegar þetta var að gerast, að þá fékk streitukerfið í líkamanum ekki sína réttu úrvinnslu og úr varð áfall sem hefur setið fast í líkamanum síðan. Vantraust og mikill ótti, óraunveruleikatilfinning, því ég hafði treyst perceived öryggi og verið talin trú um að raunverulegt öryggi (sem hafði þó sín sár einnig, en sýndi mér skilyrðislausa ást, ábyrgð og vilja til þess að gera betur) væri ekki hægt að treysta. Ég vissi ekki lengur, mun sterkar en áður fyrr, hvar ég fyndi öryggi, því ég vantreysti sjálfri mér. Ég hafði trúað því að ég var örugg þegar ég var það ekki og svo efaðist ég. Ég hafði trúað því að ég væri í minna öryggi þegar ég var það ekki og svo efaðist ég.

En ég hefði aldrei átt að vera sett í þær aðstæður að þurfa að velja hliðar. Það var það sem perceived öryggi ýtti mér í átt að og hafði reynt að gera áður, reynt að snúa mér gegn örygginu mínu og það er aldrei í lagi og er ekki heilbrigðar aðstæður að setja mig í. Aðstæður voru erfiðar hjá raunverulega örygginu mínu, en þar fékk ég samt að vera ég. Þar mátti ég anda. Þar mátti mér líða. Þar mátti ég tjá mig. Þar mátti ég vera.

Í þessum aðstæðum leið mér eins og ég gæti ekki andað. Mátti ekki vera ósammála, mátti ekki líða, mátti ekki tjá mig ef það var ekki það „rétta“ sem ég hefði átt að segja. Ég var ekki séð. Ég sá það bara ekki þá, því þarna vorum við að gera allskonar nýja hluti og ég var ennþá ekki orðin fullorðin og fannst það spennandi. En það þýðir ekki að raunverulegur hagur minn sé hafður í huga. Mér hafði áður liðið hjá perceived öryggi ,nógu oft til þess að það varð djúpstætt sár, eins og ég væri fyrir, líðan mín væri of mikið, ég væri viljandi að búa til vesen þegar mér leið illa, eins og það væri einhvað að því hver ég væri ef ég gerði mistök (tilfinningin þú ert skömm), að ég væri að byðja um of mikið, að ég væri vanþákklát, að ég væri viljandi að gera lífið erfiðara fyrir alla, að ég þyrfti að berjast fyrir því að standa mig svo ég yrði séð, en að ég væri samt aldrei nógu góð, að ég sjálf væri ekki nóg og að mín heimsmynd væri skökk og ég gæti ekki treyst sjálfri mér. Mér líður ennþá þannig í dag, enda vel ég það öryggi sem ég vil vera í kringum og líður eins og ég geti andað í kringum. Ég get enn þann dag í dag ekki horfst í augu við hitt öryggið sem varð perceived öryggi án þess að verða skíthrædd og stútfull af skömm og sjálfshatri.

Og ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu eftirá hversu stór áhrif þetta atvik hafði haft á mig, sem og alla aðra sem málið snerti. Þetta byrjaði sem óraunveruleikatilfinning og hræðsla við að horfa í augun á fólki sem ég þekkti ekki nógu vel. En í gegnum árin hefur þetta þróast yfir í ofsahræðslu sem kemur líka upp í kringum mína nánustu. Ég er ennþá hrædd við að misskilja hvar ég er örugg og að ég verði tekin í burtu. Það lifir ennþá innra með mér.

En fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir sárinu, nú veit ég hvaðan þetta sár kemur og get vonandi lært að ég sé raunverulega örugg þar sem ég er í dag og geti treyst því að ég viti sjálf hvað er mér fyrir bestu. Því ég veit að mér líður aldrei rangt, þó svo líðanin geti verið að koma frá einhverju sem er gamalt, þá þarf ég samt að finna það sem ég þarf að finna. Og það sem ég þarf að finna og meðtaka og skilja og hlusta á hjá sjálfri mér er hvað ég er ennþá hrædd. Það er það sem er að gerast þegar mér líður sem verst. Ég er skíthrædd, því mér líður ennþá eins og ég sé í þessum aðstæðum eða hársbreidd frá því að lenda aftur í þeim.

Það eina sem ég get í rauninni gert á meðan ég vinn úr þessu með áfallasálfræðingnum mínum er að hlusta á mig og taka utan um það hvernig mér líður. Ég finn að það hjálpar að heyra mig sjálfa segja „ég er hrædd“, því það er raunveruleikinn minn og ég er að læra að samþykkja hann í burtu frá hugmyndum að ég „ætti“ ekki að vera hrædd eða að ég „ætti“ að vera komin yfir þetta eða einhvað álíka. Tilfinningin í líkamanum sem yfirtekur rökhuga þegar hún kemur er „ég er hrædd“ og þá þarf ég að hlusta og elska og skilja.

Batarferlið er ekki bein lína og þetta tekur tíma, ég er stöðugt að minna mig á það, því ég finn oft fyrir pressu útfrá samfélagslegu samþykki að ég þurfi að ná bata strax, eins fljótt og mögulegt er. En það virkar því miður ekki þannig. Ég er bara að særa sjálfa mig með því að segja að ég sé ekki að gera nóg eða ég sé ekki nóg því ég sé ekki búin að ná bata. Líkaminn þarf að finna fyrir því að ég gef honum leyfi fyrir að líða, að ég skil og ég elska hann sama hvað hann er að upplifa og það mun líklega taka líkamann smá tíma að treysta mér fyrir því sem hann er að upplifa. Það eina sem ég get gert er að minna mig á að ég elska hann og mig og innra sjálfið, minna mig á að ég er örugg núna og að ég vilji hlusta og biðjast afsökunar ef ég hlusta ekki og sýna því skilning að það er sárt þegar ég geri það ekki.

Núna er ég tilbúin að heyra „ég er hrædd“ og leyfa mér að finna það sem kemur og æfa mig að elska það allt.

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.