Ég er ekki geimvera

Allt mitt líf hefur mér liðið eins og ég passi ekki inn, eins og ég sé einhver annar flokkur af manneskju sem á ekki beint heima neins staðar.
Ég hef reynt að fela þá parta af mér sem mér finnst flokka mig í þennan flokk og hefur liðið eins og geimveru sem er búin að klæða sig í manneskju til þess að passa inní umhverfið, en innst inni veit hún að hún á ekki heima þarna.

Í samtölum við fólk koma upp alls konar umræðuefni sem mér líður ekki eins og ég geti tengt almennilega við því þau eigi ekki við mig, og þá á ég við færni til þess að vinna, til þess að mennta sig, til þess að hafa áhugamál og stunda þau, til þess að geta notið lífsins, til þess að ferðast, til þess að eignast vini, til þess að skapa os.frv. Mér hefur liðið eins og það eigi ekki við mig, það sé ekki pláss fyrir mig, að ég hafi ekki getuna eða færnina, að ég verðskuldi það ekki, að ég tilheyri ekki þeim einstaklingum sem mega gera þessa hluti, dreyma þessa hluti, elta og elska þessa hluti. Einhvern tímann hafði ég vott af því, en þá var ég ekki að gera það fyrir mig og hálftýndi sjálfri mér. Ég er búin að taka síðustu ár í að æfa það að þetta sé líka fyrir mig, að ég eigi líka heima þarna. Gamlar trúir sem hjálpa okkur að lifa af tekur tíma að aflæra.

Ég er að verða 27 ára þegar ég er að fatta að ég er raunverulega, í kjarnanum, eins og allir aðrir. Ég veit það hljómar fáranlega, en það er satt. Ég er virkilega núna að fatta að ég passaði alltaf inní, að ég fæddist ekki skemmd, eða sem einhvað annað en átti heima í þessum heimi. Það er lýjandi að vera stöðugt að púsla saman púslinu, en það er mitt lífsverkefni að heila það sem ég þarf að heila innra með mér.

Jú ég hef gert svipaðar uppgötvanir áður, lærði að aðskilja mig frá varnarviðbrögðum, lærðum niðurrifsröddum, hugmyndum um það hver ég ætti að vera, en ég losnaði aldrei við tilfinninguna að ég væri ekki eins og aðrir. Að ég væri einhver verri útgáfa af manneskju en aðrir.

Ég lærði frá ýmsum speglunum að ég var ekki nógu fljót að læra og meðtaka erfiða eða nýja hluti svo það væri best að ég myndi sitja á hliðarlínunni og ekki vera með, mátti ekki standa upp fyrir mér, ég ætti að vera áhorfandi, klappstíra, en ég ætti ekki að taka þátt í leiknum því ég var ekki nógu góð og myndi tefja eða klúðra fyrir öllum hinum því ég var ekki nógu fljót eða vandvirk. Ég er ennþá að vinna í því að byggja mig upp í því að prófa erfiða eða nýja hluti og finna sjálfstraust til þess að klára þá eins vel og ég get. Ég átti það til að frjósa í hvert skipti, búast við refsingu, dómhörku eða niðurlægingu, en ég held ég sé á nokkuð góðri leið í dag.

Ég lærði líka að ég væri brothættari en aðrir, viðkvæmari og að það gerði mig einhvern veginn verri, að ég væri að kalla fram erfiðar tilfinningar til þess að skemma fyrir öðrum, ekki því ég væri sjálf í sársauka. Ég er ennþá hrædd við tilfinningarnar mínar, en ég vinn í því á hverjum degi, knúsa mig fast, minni mig á að ég þarf ekki að réttlæta tilfinningarnar mínar. Ég má finna þær, vera hjá þeim og elska án þess að búast við refsingu, dómhörku eða niðurlægingu.

Ég lærði einnig að ég átti erfiðara með líkamlegt erfiði en aðrir, bjóst við því að verða niðurlægð því ég hreyfði mig svo asnalega, gerði hlutina ekki alveg 100 % rétt, gerði ekki nóg, bjóst við að ég myndi hrynja, skemma einhvað, skemma mig, eyðileggja hlutina einhvern veginn í líkamlegu erfiði, mátti ekki vera með því ég var ekki nógu sterk, aftur á hliðarlínuna. Mér leið eins og líkaminn minn væri brotinn, að ég væri ófær um að vernda mig, að ég væri með skemmdan líkama. Ég brotna ennþá niður og er við það að hrynja í gólfið þegar ég hreyfi mig eða jafnvel þegar ég er að bera matarpoka í dag, en það er eitt skref í einu og ég er ekki hætt. Þetta tekur tíma og þolinmæði. Ég er smám saman orðin aðeins öruggari, án þess að búast við refsingu, dómhörku eða niðurlægingu.

Ég lærði ýmislegt annað um mörk, tjáningu, hugsanir, upplifanir og skoðanir mínar sem setti mig í þennan flokk að vera öðruvísi, verri en aðrir, og trúði því að ég gat ekki alveg verið með og gat ekki alveg tengst öðru fólki því ég ætti ekki heima þar. Ég átti bara alltaf að vera á hliðarlínunni, jafnvel einangruð, vera góð, tilbúin að hjálpa og hlusta ef þörf var á en það var of erfitt þá að hjálpa eða hlusta á mig, ég var ekki velkomin á völlinn sjálfan, að vera með, ekki alveg, það var alltaf einhvað sem aðskyldi mig.

Það breytti litlu þó aðrir jákvæðir hlutir væru speglaðir líka, því neikvæðu hlutirnir fengu enga úrvinnslu svo það myndaðist togstreita því ég var farin að lifa alveg eftir varnarviðbrögðum og þau hugsa bara „hvað er hættulegt gagnvart mér?“ Allt hitt verður eins og það sé falskt, eins og lygi, því niðurbrotið tekur allan fókusinn. „Hvar þarf ég að laga mig til þess að lifa af?“ Því málið er að ef skekktar trúir/skilaboð eru ekki leiðréttar um virði  strax samtímis og gefið er sársaukanum sem myndaðist rými til að vinna úr þeim, að þá festast trúnnar í líkamanum sem áföll, sem óunnar tilfinningar og sem hegðunarmynstur sem verður blueprint til þess að lifa af.

Og svona hefur mér nokkurn veginn liðið síðan ég man eftir mér, versnaði eftir því sem ég varð eldri. Mér hefur aldrei liðið eins og ég geti raunverulega gert einhvað stórt við líf mitt, því mér hefur alltaf liðið eins og ég ætti bara að horfa á. Enda um leið og ég geri einhvað stórt á mínum mælikvarða að þá hryn ég niður. Þegar ég áorka einhvað gott í mínu lífi, þá versna ég, því varnarviðbrögðin mín vilja bara að ég sé á hliðarlínunni, því þar sé ég örugg og þannig muni ég lifa af.

En ég vil ekki lengur bara lifa af. Ég vil lifa. Og sem betur fer hef ég gott stuðningsnet í kringum mig í dag sem vill að mér gangi vel, vill að mér líði vel og er alveg jafn tilbúið að elska mig þegar mér gengur illa og líður illa. Það er enginn að reyna að ýta mér niður þegar ég er að byggja mig upp. Ég er elskuð, að fullu og það er ekki sjálfsagt þó svo það ætti að vera það. Ég er örugg ytra. Það er pláss fyrir mig að breyta innra öryggi í dag. Það er pláss fyrir mig að taka pláss eins og ég er. Eftir endalausa vinnu og sjálfsást, kærleika og samkennd er ég alltaf smám saman að færast nær sjálfri mér.

Ég tilheyri þessum veruleika, ég er velkomin, ég er elskuð og ég er mannleg.
Mér leið alltaf eins og það væri einhver hula á milli mín og raunveruleikans, að ég væri þarna, en samt ekki. Því partur af mér þráði að tilheyra en varnarkerfið þráði aftengingu því það hjálpaði mér að lifa af þegar ég átti að læra að ég væri öðruvísi og þyrfti að fela það og bæla það og jafnvel bæta upp fyrir það til þess að vera elskuð.

Hver einstaklingur hefur sína skynjun, sjónarhorn, reynslu, tengingu við tilfinningar og hugsanir, hegðunarmynstur, varnarviðbrögð, hugmynd á því hver hann heldur að hann eigi að vera … osfrv.

En það er svo ótrúlegt að fatta skýrt að í grunninn erum við öll eins í kjarnanum.
Að raunverulega finna það að í hjartanu að kjarni okkar er eins og að þar tilheyri ég líka.

Ég er ekki geimvera. Manneskjan sem tikkar í öll boxin er ekki til. Það vilja allir og þurfa allir að vera séðir og fara mismunandi leiðir til þess að verða séðir. Það er held ég eitt það mikilvægasta.

Því dýpsti kjarni okkar allra er eins.

Ég er ekki geimvera.

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.