Tímabil innra barnsins og orðin sem færa hlýju

Við höfum öll innra barn innra með okkur sem þráir að vera elskað og öruggt. Það sem ég hef lært aftur og aftur er hversu mikilvægt það er að vingast við þetta innra barn, svo það fái að vera partur af okkar lífi núna þegar við erum orðin fullorðin.

Innra barnið er það sem lærir að setja upp veggi og varnarviðbrögð til þess að lifa af. Það veit ekki alltaf að það er öruggt hér núna að VERA, bara alveg eins og maður er. Allar tilfinningar, allar ómættar þarfir sem þarfnast að vera séðar, allur sársaukinn, allt sem við höfum jafnframt bannað í okkar eigin fari, af hræðslu við að verða hafnað, því fullorðnu fólki á ekki að líða svona eða hinsegin, þurfa þetta eða annað, vilja þetta eða annað… taka of mikið pláss eða of lítið pláss.

Stundum gleymist bara það að VERA og elska það sem er, horfa á það sem var ekki séð, hlúa að því sem var ekki hlúið að, eins og t.d. reiði og sorg. Þær tilfinningar þurfa að fá pláss, því þær hverfa ekki og snúast þá frekar inná við. Hvort sem þær virðast ekki eiga við þegar þær koma upp, þá þurfum við að horfa á þær, elska þær og leyfa þeim að vera. Segja stopp við þau skilaboð um að þær eigi ekki rétt á sér eða að þær þýði einhvað niðurbrjótandi um okkur sjálf, heiminn eða aðra. Bara horfa, nefna þær, tala um þær, vera hjá þeim, þú þarft ekki að vita afhverju þær eru að koma. Bara horfa, vera og elska.

Vonandi með tímanum lærir innra barnið að treysta aftur og leyfir okkur að kynnast sér upp á nýtt. Þá er vonandi hægt að eiga innra samtal í samkennd, ást og skilning. Þá vonandi fara hlutirnir að skýrast. Hvað er innra barnið að segja? Hvað þarf það núna? Hvað þarf það að heyra til þess að læra að þora að treysta því að það sé öruggt núna og elskað af okkur sjálfum? Hér kemur lítill listi sem ég rakst á þegar ég var að lesa og ég vildi þýða hann og deila honum hér.

 

Nýfædda barn

Velkomið í heiminn.
Ég er svo glöð/glaður/glatt að þú fæddist.
Þú ert fullkomlega fullkomin/nn/ið eins og þú ert.
Ég er svo glöð/glaður/glatt að þú ert þú.
Þú ert unun að sjá.
Þú ert gjöf til heimsins.
Ég elska hver þú ert.

Litla barn

Allar þínar tilfinningar eru í lagi mín vegna.
Þú mátt hafa áhuga á öllu.
Ég elska að horfa á þig kanna heiminn.
Ég er alltaf glöð/glaður/glatt að sjá þig.
Þú getur gert hlutina eins oft og þú vilt.
Þér má líka við það sem þér líkar og þú mátt vilja það sem þú vilt.
Mér líkar vel við það þegar þú segir nei. Takk fyrir að láta mig vita.
Mér líkar vel við það þegar þú lætur mig vita hvort ég hafi sært tilfinningarnar þínar.
Þú mátt fara þína eigin leið eða vera með mér eins mikið og þér líkar.
Það er allt í lagi að þú verðir reið/reiður/reitt, og ég mun passa að þú munir ekki meiða þig eða aðra þegar þú verður reið/reiður/reitt. Ég elska hver þú ert.

Barn á leið í skóla

Ég elska hvernig þú talar og tjáir þig.
Ég elska að hlusta á þig.
Ég elska hvernig þú syngur og dansar.
Ég elska hvernig þú hugsar fyrir sjálfa/sjálfan/sjálft þig.
Þú mátt hugsa og finna fyrir tilfinningum á sama tíma.
Þú mátt gera mistök – þau eru kennararnir þínir.
Þú mátt vita hvað þú þarft og biðja um hjálp.
Þú mátt spyrja eins margra spurninga og þú vilt.
Þú mátt hafa þína eigin hrifiningu og hafa þinn eigin smekk fyrir hlutunum.
Þú ert ánægja í mínum augum.
Ég elska hver þú ert.

Barn í skóla

Það er alltaf ánægjulegt að sjá þig og vera með þér.
Það er dásamlegt að tala við þig.
Þú mátt treista þínu eigin innsæi til að hjálpa þér að taka ákvarðanir.
Ég elska hvernig þú hefur þínar eigin hugmyndir og skoðanir.
Þú mátt velja þín eigin virði og gildi.
Ég elska hvernig þú biður um það sem þú þarft og vilt.
Þú mátt velja þína eigin vini og þér þarf ekki að líka við alla.
Þú getur lært hvenær og hvernig það er gott að vera ósammála.
Þú getur verið sanngjörn/sanngjarn/sanngjarnt við þig og aðra.
Þú getur stundum verið ringluð/ringlaður/ringlað, upplifað mismunandi tilfinningar á sama tíma og stundum ekki vitað öll svörin.
Ég er svo stolt/stoltur af þér.
Ég elska hver þú ert.

– Lagfært og bætt við orð John Bradshaw, úr bókinni The Tao Of Fully Feeling eftir Pete Walker.

-Farið vel með ykkur og knúsið ykkur fast,
Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.