Ég er enn ekki viss hvora leiðina er hjálplegra fyrir mig að fara, að segja nei við niðurrifshugsanir eða að taka þeim með hlýju og mildi. Þetta er endalaus hringrás sem ég virðist stöðugt taka skref inní og í burtu frá til skiptis. Það allra mikilvægasta fyrir mér er að ég brjóti sjálfa mig ekki niður, jafnvel þó ég sé að endurtaka niðurbrjótandi skilaboð til mín, því þá er innra barnið búið að læra að gera það til þess að vernda mig, til þess að ýta mér inn í þann kassa sem það barn var velkomið inní, jafnvel þó sá kassi særi eða eigi engan veginn við mig eins og ég er. Svo þetta er flókið, en þetta eru pælingar sem koma alltaf aftur til mín. Í kjölfarið kom þessi eftirfarandi texti til mín um daginn.
Ég er sífellt að fara til baka í gömul verkfæri, enduruppgötva sama hlutinn aftur og aftur. Ég er síleitandi, því mig langar að öðlast meira tilfinningalegt frelsi sem virðist vera það sem ég á erfiðast með. Að gefa mér leyfi aftur til þess að upplifa meira.
Ég rakst því aftur á bókina hans Pete Walker, The tao of fully feeling. Bók sem ég byrjaði á fyrir nokkrum árum og hefur ýtt mér aftur í átt að angering og að skoða innri gagnrýnandann betur.
Ég hef fókusað svo lengi á það að taka við öllu með mildi og skilning til þess að minnka togstreituna, en samtímis þess hef ég skilið mig eftir þegar ég upplifi ofbeldi og þá sérstaklega eigin ofbeldi gagnvart sjálfri mér. Ég missti einhvers staðar leyfið og öryggið til þess að verða reið og segja stopp þegar farið var yfir mín mörk.
Ég tek því með mildi og skilning, meðvituð um að partur af mér sé að reyna að vernda mig, það eru útskýringar þarna á bakvið. En sama hvað ég geri virðist ég alltaf frjósa á endanum gagnvart þessu niðurbroti. Flýja og hverfa inní mig. Finnst ég þurfa að þóknast í stað þess að vera séð.
Hugmyndir Pete sem og Richard Grannons sem ég held mikið uppá er sú að ég verði að aðskilja mig frá þeim parti af mér sem viðheldur niðurbrjótandi skilaboðunum sem kalla núna fram flótta. Því í sannleika sagt sé þetta ekki ég. Þetta eru minningarbrot sem ég upplifi sem hugsanir.
Þeir P og R telja að án þess að ég læri að vernda mig frá þessum innri gagnrýnanda, að þá muni ég ekki veita sjálfri mér raunverulegt öryggi. Ef ég stend ekki gegn ofbeldinu sem er ennþá að smokra sér inn í meðvitundina, eftir að hafa verið grafið niður fyrir löngu.
Ég hef ekki fyrirgefið það, því ég hef ekki syrgt, hef ekki gefið mér leyfi til þess sem og að verða reið og taka til baka valdið yfir sjálfri mér, valdið að segja stopp við ofbeldi gegn mér, án afsakana eða útskýringa eða hugsana um það að ég ætti að vera komin yfir þetta. Því það kæfir það bara ennþá meira og svo vellur sársaukinn upp þegar ég á síst von á því.
Ég mun ekki getað fyrirgefið því fyrgefningin gerist í líkamanum ekki bara huganum(þó svo fyrirgefning sé valkvæð og ekki skylda) fyrr en ég leyfi mér að finna sársaukann sem ég gaf mér aldrei leyfi til þess að finna. Leyfi mér að syrgja það sem átti sér stað og vernda það sem var ekki verndað. Reiðin er vernd, ef henni er beitt á heilbrigðan hátt.
Þeir tala einnig um það að fjarlægja sig ytra frá innri gagnrýnandanum, jafnvel bara með því að gera lítið merki (t.d. þumall og vísifingur snertast) sem áminningu um það að ég er ekki innri gagnrýnandinn. Ég og hann erum sitthvor hluturinn. Hann hefur tekið á sig mynd þeirra sem beittu mig ofbeldi og viðheldur ofbeldinu núna.
En með tímanum ætti ég að geta aðskilið mig frá honum, sagt honum bókstaflega að þegja, stoppa, að þetta megi ekki og sé ekki í boði, að ég ræð núna, að þetta sé ekki mín skömm, að ég ætli að vernda mig og segja nei upphátt eða ekki, verða reið og leyfa mér að syrgja að þessi niðurbrjótandi skilaboð vöru sögð/sýnd óbeint eða beint við mig sem barn og minna mig aftur og aftur á að þetta er ekki ég. Ég þarf að passa að ég viti sjálf að ég er ekki að segja þetta við mig, að ég er að gera þetta til þess að vernda mig, skila skömminni þar sem hún á heima, því þetta er ekki mín skömm sem var reynt að yfirfæra á mig. Það er mjög mikilvægt að ég færi fókusinn huglægt á þá (ekki beint til þeirra í dag) sem spegluðu þessi niðurbrjótandi skilaboð til mín sem barns og sé varkár um það að ég sé ekki að beina reiðinni inn á við til mín núna, því þetta er ekki ég.
Ef ég upplifi erfiðar tilfinningar eftir að verða reið við þessi skilaboð, að þá er mikilvægt að ég faðmi mig fast og tali uppbyggjandi og hlýlega til mín. Vera hjá mér á meðan sorgin og allur sársaukinn kemur upp. Hláturinn ef hann kemur hjálpar líka.
Samkvæmt Pete Walker er tvennt sem helst í hendur og er mikilvægt í bata og það er sorgin og reiðin. Bæði jafn mikilvægt og eitt virkar ekki án hins, svo lengi sem það er á heilbrigðan hátt. Reiðin er verndin, sorgin er kærleikurinn.
Hingað er ég komin enn og aftur að skoða tengslin mín við reiðina og hversu hrædd ég er við hana ennþá, hræddari að verða reið en að verða sjálf beitt ofbeldi. Hef skilið mig eftir aftur og aftur, hugga mig en hef ekki haft þor í að standa upp fyrir mér eins og ég þarf. En það er æfing og þetta er allt æfing.
Þar sem ég er stödd í dag, þá vil ég að segja stopp, sýna mér að ég geti verndað mig núna og standa við það, verða reið og taka stjórnina. Ofbeldið var aldrei í lagi og það er það ekki núna.
Ég er ekki minningarnar mínar, en allt sem fékk ekki að komast í gegn þegar þær áttu sér stað þarf ég núna að hleypa í gegn og hlúa að. Það mun ekki þora að koma uppá yfirborðið frjálst nema það finni að það sé öruggt og að ég verði með mér í liði þegar það kemur upp.
Er ég tilbúin að setja mörk gegn innri gagnrýnandanum? Get ég gefið mér leyfi til þess að verða reið við hann? Get ég lært að aðskilja mig frá honum? Ég vona það. Sumt af þessu stangast við sjálfmildishugmyndirnar um það að hlúa þurfi að hugsunum, ekki dæma þær. En samt sem áður virðist ekkert breytast varðandi innri hræðslu og samkvæmt þessari kenningu þá eru þetta ekki raunverulegar hugsanir heldur minningabrot. Ég verð ennþá hrædd og upplifi mig smáa þegar þessi brot taka yfir. Svo ég ætla að prófa nýja nálgun á þennan part af púslinu.
Mér skilst svo að þegar heilbrigð reiði er endurheimt þ.e.a.s. náttúrulegt fight viðbragð sem allir hafa nema það sé óaðgengilegt og bælt innra með, að þá sé mikilvægt að hlúa að og sýna skilning öllu því sem þarf að heila. En það kemur seinna og í millitíðinni, þegar minningarnar eru ekki að taka yfir án þess að nokkuð sé að vernda mig gegn þeim.
Kannski eru þetta hjálpleg skrif fyrir einhvern annan, kannski ekki, en mér finnst fyrir sjálfa mig áhugavert að skoða þennan vinkil aftur.
-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.
Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.
– karen