Markaleysi gagnvart hugsunum

Ég er nýbúin að átta mig á því að ég hef þróað með mér ákveðið innra markaleysi gagnvart eigin hugsunum. 
Sem barn þá leið mér innst innra með mér eins og ég þyrfti að laga mig til þess að verða nóg. Þrátt fyrir að þau skilaboð kæmu ekki alls staðar frá.

En í kjölfar þess var eins og ég hefði tekið stækkunargler og farið með það vandlega á allt innra með mér. Allt sem mér gæti mögulega verið hafnað fyrir, allt sem ég þyrfti að fela, laga, hafna sjálf. Í framhaldinu varð ég ofurmeðvituð um hugsanirnar mínar og þær tengdust oftast öllu því sem var að í mínu fari og hvernig ég gæti passað uppá að aðrir sæju það ekki. 
Svo tók ég þetta mynstur ómeðvitað með mér í gegnum árin, jafnvel þó svo ég væri í öruggum aðstæðum. Ég var alltaf ofurmeðvituð um sjálfa mig og taldi að allar hugsanir, líka ósjálfráðar væri lífsnauðsynlegt fyrir mig að taka við, trúa og finna leiðir til að þær rættust ekki. Ég mátti ekki hunsa eina einustu. Allar voru mikilvægar. Allar viðvaranir.

Það var of mikið að taka við, að fylgjast með hverri einustu hugsun af hræðslu við að hún þýddi einhvað neikvætt um mig. Hverjar voru vísbendingarnar? Ég hætti að geta treyst því að ég vissi hver ég væri og að þessar hugsanir skilgreindu mig ekki. Ég gleypti þær allar, líkt og allar mögulegar neikvæðar skoðanir á mér. Ég þurfti að passa uppá þær, því án þeirra þá hafði ég ekki lengur vísbendingar um það hvað ég ætti að laga, hvernig ég mætti raunverulega taka pláss í heiminum. Stöðugt impostor syndrome því hugsanirnar sögðu einhvað annað. Án þess að vera meðvituð um það að þær voru að reyna að vernda mig í óeðlilegum aðstæðum, hjálpa mér að lifa af, ekki sannleikskorn um það hver ég væri.

Ég taldi mig ekki vera örugga, þó svo ég væri í öruggum aðstæðum, því ég var ekki búin að laga mig. Ég var ekki búin að kæfa nógu marga parta af sjálfri mér, þeir gætu komið upp á hverri stundu, hvernig gæti ég komið í veg fyrir það.
Þegar ég trúði loksins mömmu fyrir þessum hugsunum sem komu sem ég taldi vera vísbendingar um það hver ég væri, innst innra með mér, á bakvið allar grímur, þá var hughreistandi að heyra að þetta voru hugsanir sem nánast allir fá. Þessar tilteknu hugsanir sérstaklega, ósjálfráðar. 
Það eru þessar hugsanir: Þú ert við tjörnina og færð allt í einu hugsun “hvað myndi gerast ef ég myndi sparka í þessa önd?” Og það er enginn vilji til þess og mér þykir vænt um endur.

Flestir myndu bara leiða þessar hugsanir hjá sér “ókei weird” en ekki ég, því ég taldi mér ekki vera óhætt nema ég myndi gleypa allt sem hugurinn hefði að segja. Þetta er lítið dæmi, en þetta hefði getað eyðilagt daginn minn. Allt í einu var ég sannfærð um það að ég sé manneskja sem vill drepa endur og sé hættuleg þeim. Þetta varð til þess að ég forðaðist dýr af hræðslu við að hugsanirnar endurspegluðu hver ég raunverulega væri. Ég var bara sannfærð af þessari ósjálfráðu hugsun, því ég mátti ekki hunsa neinar upplýsingar sem tengdust sjálfri mér, um það að ég væri hræðileg manneskja sem hefði gaman af því að sparka í dýr. Sem er svo langt frá raunveruleikanum. Fólkið mitt horfði uppá mig sannfærða um það að ég væri ill og vond fyrir það að ósjálfráðar hugsanir komu og ég trúði þeim sem sannleika og staðreyndum. Ég einangraði mig, taldi mig ekki vera örugga að vera í kringum, hélt að ég væri versta manneskja í heiminum og að fólk sæji það bara ekki fyrir grímunni sem ég var búin að setja upp í gegnum árin.

Ég gat ekki séð mig í jákvæðu ljósi. Ekki þegar mér leið sem verst. Það var alltaf þetta hvað ef? Hvað ef þetta er satt? Ég þróaði með mér krónískan efa. Ég efaðist um allt. Gat ekki lengur sagt með fullvissu hvað væri uppáhaldsliturinn minn því það gæti einhvern veginn endurspeglað einhvern vondan part af mér. Allar hugsanir voru undir smásjá, enda var ég úrvinda hvern einasta dag. Vildi ekki tjá mig, vildi ekki sýna líkamstjáningu.. mér fannst allt við sjálfa mig gefa vísbendingar um það hversu hræðileg ég væri, því ég var farin að efast svo mikið að ég var ekki lengur viss um hvað það væri sem ég þyrfti að laga, hvað það væri sem ég þyrfti að breyta, því allt í einu eftir nánast 20+ ár voru hugsanirnar orðnar svo miklar að ég gat ekki flokkað þær lengur, allt í einu fór allt undir sama hatt.

Ég gat ekki lagað mig því það var of mikið til að laga, of margar hugsanir til að fylgjast með. Ef ég sagði of mikið tók ég of mikið pláss, ef ég sagði of lítið þá var ég dónaleg og fjarlæg. Svona hélt þetta áfram. Ekkert var nóg. Allar hugsanir niðurbrjótandi. 
Ég hef náð að vinna með það í gegnum síðustu ár, læra að elska mig og tala fallegra til mín. En það sem ég fattaði ekki fyrr en núna var að ég var samt ennþá að hlusta, ennþá að skoða ósjálfráðar hugsanir og festast í þeim.

En ég þarf þær ekki lengur. Ég er í öruggu umhverfi. Ég er elskuð og er að læra með hverjum degi að kynnast mér betur og elska mig. Ég kann að elska fólkið mitt. Það er öruggt fyrir mig að taka pláss. Ég þarf ekki lengur að grandskoða hverja einustu hugsun. En ég veit það er miklu meira en að segja það.

Ég hélt ég þyrfti að svara hverri og einustu hugsun, ég hélt ég mætti ekki hunsa neinar hugsanir, ég hélt ég þyrfti að bregðast við hverri einni og einustu hugsun. En ég þarf þess ekki og ég skil núna hvaðan þær koma. Ég má setja mörk gagnvart mínum eigin hugsunum. Það bara má. Ég þarf ekki að elta þær allar. Ég hleypi tilfinningunum í gegn, en hugsanirnar eru bara vísbendingar um það hvað þær hljóti að þýða um mig sem ég þarf ekki lengur.

Ég má vera til, ég má taka pláss og ég má elska mig núna. Ég má segja nei og ekkert meir, engin eftirfylgni. Bara skýrt nei og færa fókusinn einhvað annað, ég treysti því núna. Ég gat ekki sagt nei áður fyrr því ég var of hrædd við að það mætti ekki og ég myndi missa af mikilvægum skilaboðum því þau væru öll 100% sönn og án þeirra væri ég í lífshættu. En það má og ég veit það núna. Þær eru að minna mig á það sem var, ekki það sem er og núna er það mitt hlutverk að segja nei og sýna mér að ég er örugg. Sýna mér að ég má vera. Sýna mér að ég má taka pláss.

Þetta hljómar svo einfalt og ég þoldi ekki þegar fólk sagði mér að ég þyrfti bara að hunsa hugsanirnar mínar, því guð minn almáttugur það var ekki einhvað sem ég gat gert þá. En ég hef öðlast ákveðið traust til þess að geta gert það núna. Ég hef fengið að kynnast kjarnanum í mér, stelpunni sem vildi flýja þessar hugsanir, grátbað mig að trúa þeim ekki. Þannig sá ég að þær endurspegluðu ekki hver ég er, heldur voru bara þarna þegar ég mátti ekki vera sú sem ég er. Leið til þess að tilheyra án þess að tilheyra. En núna má ég segja nei. Núna má ég faðma það sem kemur þegar ég segi nei, horfist í augu við óttann sem kemur þegar ég segi nei. En ég má samt segja nei.

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

-karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.