Pressa

Það er einhvað að kalla á að ég skrifi um þetta. Ég tek mér oft frí frá þessari síðu því ég set stundum alltof mikla pressu á sjálfa mig hvað varðar mína batavinnu og það ferli sem það felur í sér.

Ég er búin að mæta sjálfri mér aftur og aftur í því að einhvað inní mér vill alltaf vita hverju ég á von á, of hrædd við að það verði komið mér á óvart og svo leitast ég að þeirri niðurstöðu aftur og aftur, öllu því sem ég býst við að muni gerast. Hvort sem það eru tár, skjálfti, kuldi.. því ég veit að það er tilfinningalosun, en ef það gerist ekki þá verð ég hrædd, held ég sé að aftra mínum bata og gera einhvað vitlaust, þó svo í rauninni sé það þá sem ég þarfnast þess mest að vera til staðar fyrir sjálfa mig.

Þetta er svo flókið ferli, ég er alltaf að læra og aflæra það sama, aftur og aftur og aftur, gleyma mildinni, gleyma að slaka á kröfunum, gleyma því að taka utan um mig og öll orðin og allar tilfinningarnar sem koma, hvort sem það er óþæginlegt eða ekki. Svo man ég það inn á milli. En þetta er stöðug hringrás. Þetta er langt frá því að vera einfalt. Sérstaklega þegar togin eru í allar áttir. Allt það sem hjálpaði mér að lifa af en er að aftra mér núna í örygginu og allt það sem hjálpaði mér ekki að lifa af þegar ég þarfnaðist þess en hjálpar mér núna þegar ég er örugg. Þetta tog virðist endalaust. En þarfnast endalausar mildi og skilnings. Að það sé pláss fyrir allt sé séð og tekið utan um.

En aftur að því að búast við niðurstöðum. Sérstaklega þegar það kemur að því að kynnast mér betur. Ég þrái minningarnar, þó svo þær séu ótrúlega sársaukafullar, en án þeirra finnst mér ég stundum ekki vita hver ég er. En ég veit að það er of mikið fyrir mig núna og það er einhvað innra með sem treystir því ekki að hlutirnir verði í lagi ef ég fæ að sjá það sem ég hef ómeðvitað grafið djúpt niður. Minningarnar eru þarna, ég veit söguna, líkaminn bregst við og verður hræddur í svipuðum aðstæðum en ég get ekki séð þær.

Ég fór í dáleiðslu til þess að kalla þær fram, en það var allt stopp. Endalus efi tók yfir og ég gat ekki svarað neinu með fullri vissu af ólýsanlegri hræðslu. Ég prófaði aftur og aftur, en efinn stoppaði allt. Ég bjóst við ákveðinni niðurstöðu, að ég myndi sjá hlutina skýrt, en það gerðist ekki.

þar sem líkaminn minn leitar frekar í freeze ástand, þá get ég ekki öskrað í mesta sársaukanum og hræðslunni, á erfitt með að gráta, á erfitt með að hleypa einhverju út um andlitið á mér og það er það slæmt að það brakar í kjálkanum mínum og mér verkjar í allt andlitið vegna þess að ég bít svo fast niður. Ég bjóst við að geta hleypt hlutunum út um líkamann en það var einhvað að toga mig til baka, halda fast í hvern vöðva.

Það var ekki fyrr en ég fór að æfa mig að leyfa að mýkt fór að taka yfir. Að ég fann fyrir smá frelsi. Því málið er að það er ekki niðurstaðan sem ég þarf. Það er bara það að kynnast mér uppá nýtt, treysta mér uppá nýtt. Horfa á allt sem gerist með forvitni og ekki búast við neinu. Þakka fyrir það sem ég fæ að sjá. Staldra við. Alveg eins og ef einhver er í sársauka sem okkur þykir vænt um, þá þarf bara að vera til staðar, ekki búast við einhverju öðru, ekki reyna að trufla viðkomandi frá því að finna það sem hann er að finna, eða dæma hann frá því að finna það. Heldur bara vera, horfa á það sem er að gerast saman. Tengjast í hráleika.

Það er það sem ég þarf að gera fyrir sjálfa mig. Bara horfa, bara hlusta, bara skoða, bara forvitnast. Ekki búast við svörum, ekki búast við einhverju öðru en er. Heldur bara vera. Og þakka fyrir allt sem kemur, líka versta sársaukann. Segja við mig aftur og aftur „takk fyrir að leyfa mér að sjá“.

Það að ég gleymi því og hræðist að fara inná við inná milli er líka partur af ferlinu, partur af því sem ég þarf að fá að kynnast, partur sem ég þarf að taka utan um. Öll hringrásin er tækifæri til þess að sýna mér einhvað.

Takk fyrir að leyfa mér að sjá.

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

-karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.