Erfitt

Það er erfitt að deila þegar það kemur að sýnilegum tilfinningum. Því ég er ennþá hrædd við að leyfa þeim að sjást. Sárið er djúpt en það er að gróa hægt og rólega. Eitt lag af lauknum í einu eins og við segjum hérna heima ❤

Ég er manneskja í endurhæfingu samhliða tónlistarnámi og ég er búin að vera að vinna í sjálfri mér og leita sjálf að leiðum og lausnum síðan ég var í um 10unda bekk. Í dag er ég að gera hluti sem ég hélt ég gæti aldrei gert. Að fara útfyrir rúmið mitt hvað þá íbúðina var of mikið fyrir mig á sumum köflum þessarar vegferðar. Ég er sjúklega stolt af mér og ég er nokkuð „fúnkerandi“ í dag. En ég vil samt tala um þessa hluti líka, því þetta er alls ekki auðvelt og hefur einkennst af alls konar.

Fyrir þá sem tengja. Ég er ekki fullkomin. Ekkert okkar er það. Það er ekki hægt. Ég er nemandi í minni eigin vegferð, ég er tilraunadýrið fyrir eigin verkfæri og það sem ég hef lært frá öðrum, eigin leiðir, eigin leitun að lausnum að lífi sem gefur mér frelsi til að vera sú sem ég er.

Það er ekki alltaf einhvað sem er þæginlegt að lesa um, tala um eða sjá,
Það er hrátt, það er ófínpússað og það er ófullkomið. Við erum bara manneskjur. Ég særi mig óvart, ég hlúi að mér, ég kenni mér, ég læri, ég vel að breyta hegðun og æfa mig að gera betur .. og ég verð að trúa því að allt gerist eins og það á að gerast þegar það á að gerast. Þetta er bara mín vegferð. Hún er algjör steik og samtímis er hún yndisleg.

Ég er alltaf að gera mitt besta með þá orku, þau verkfæri og þá færni sem ég hef þann daginn. Hvernig sem það lítur út. Vegferðin mín er langt frá því að vera fullkomin. En ég er stöðugt að reyna, stöðugt að leita, stöðugt að æfa mig að komast aftur til mín.

Suma daga upplifi ég það að horfa í augun á fólki eins og ég sé á hættusvæði. Það eina sem ég get gert er að lifa af í gegnum það. Labba á eggjaskurnum. Það sést ekki, varnarviðbrögðin mín fela það í sér að ég verði að fela það til að lifa af. Kerfið tekur yfir og ég hugsa í þoku.

Aðra daga er það auðveldara með því að endurtaka aftur og aftur „þetta er allt í lagi“ þannig ég svari hverri hugsun, tilfinningu og áreiti með „þetta er allt í lagi“ innra með mér. Jafnvel reyni að fá heilahvelin til að tala saman með því að gera hreyfingar frá vinstri til hægri til skiptis, í von um að það rói kerfið.

Suma daga upplifi ég það að gera hluti sem mér finnst erfitt að gera eins og ég sé að labba inn í próf sem er bara til þess gert að niðurlægja mig og brjóta mig niður. Ég skelf og nötra og líkaminn vill ekki halda áfram. Hugarjórtrið og verndarinn innra með mér er stigið inn í óttann við tilfinningar og vill að ég stoppi þær, því það að þær komi þýði hætta samkvæmt gömlum skilaboðum, sögum og sárum sem endurspilast í undirmeðvitund því einu sinni hjálpaði það mér að lifa af.

Aðra daga man ég að ég þarf að sýna mér að ég geti tekist á við einhvað nýtt, sama hvaða tilfinning kemur upp og ég næ að stíga inn í það rými og sýna mér að ég get það. Einhvern veginn. Mótstaðan þýði að ég sé að pota í sár, það að ég stíg inn í það og leyfi mér að finna án þess að leyfa því að skilgreina mig hjálpar mér að fara í gegnum það, allan tilfinningaskalann, allt velkomið. Ég get og þetta er allt í lagi. Ég næ að minna mig á að allt gerist til að sýna mér hvað er gott fyrir mig og hvað er vont fyrir mig, ekki til að refsa eða verðlauna það hver ég er. Ekki til að endurspegla mitt eigið virði. Allt úr fortíð sem gaf það í skyn var skekkja sem ég er núna að aflæra. Skref fyrir skref.

Suma daga upplifi ég mig gjörsamlega ófæra um að vernda sjálfa mig og standa við mörk, ég upplifi mig brotna og að molna niður, ófær um að setja mig aftur saman. Græt ef ég get og reyni eins og ég get að komast aftur í ró.

Aðra daga þori ég að tjá mig, þori að leyfa mér að hafa skoðanir, þori að leyfa mér að standa með mér, held utan um mig, sama hvað gerist og knúsa mig fast. Ég fæ að vera.

Suma daga bregður mér við minnstu hljóð og upplifi mig þurfa að leggjast í gólfið af yfirþyrmingu. Það sé einhvað hræðilegt að fara að gerast. Mig langar að öskra en ég get það ekki.

Aðra daga er ég forvitin og spennt fyrir því að upplifa heiminn og leyfi áreitunum að koma, því ég veit að það eru tilfinningar sem ég þarf að finna þarna undir og ég vil finna þær og heila. Ég vil elska og samþykkja allt sem ég er.

Suma daga hræðist ég að rekast á fólk sem ég upplifi mig smáa í kringum, ég geng með veggjum og ég vona það besta, fel mig, geri mig eins ósýnilega og ég get. Ég er hokin, anda grunnt og mér líður eins og ég sé á jarðsprengjusvæði.

Aðra daga man ég eftir ljósinu innra með mér og að allar hugsanir sem setja mig á stærri eða minni stall en einhvern annan þýða að ég er ekki í jafnvæginu, að ég er ekki að sjá mig í mennskunni, í miðjunni, í fullkomlegri ófullkomnun. Að ég þarf að sýna mér extra mildi, skilning og hlýju þegar þær hugsanir koma upp og finna, vera hér núna.

Suma daga er líkaminn svo stífur og mig verkjar svo í líkamann að það brakar í kjálkanum mínum, að það er vont að hreyfa mig, að það brakar í mér allri og ég er stíf eins og staur. Þá koma engin tár. Ég er frosin inni í sjálfri mér.

Aðra daga er ég spennt fyrir að fara í göngutúra og skoða náttúruna, skora á mig að fara á spinninghjólið heima, get gert trauma tengdar æfingar og næ aðeins að sleppa tökunum.

Þetta er flókið, þetta er alls konar… en þetta er einhvern veginn alveg eins og það á að vera. Ég held alltaf áfram og reyni að finna mínar eigin leiðir.. en guð minn almáttugur hvað þetta getur verið erfitt, sársaukafullt og óttavekjandi ferli… Ég varð bara að leyfa mér að tala líka um það… þó svo dagurinn í dag sé ágætur.

En ég vil líka minna á að hver vegferð er einstök og við gerum eins vel og við getum. Mín litlu verkefni voru einusinni risastór fyrir mér. Svo ég verð að hafa það með að ef það eina sem þú gerðir í dag var að anda, að þá er það líka alveg nóg ❤ ekki bera ykkar eigin vegferð saman við vegferð einhvers annars, og þau skilaboð eru líka til mín og ef þú (jebb ég líka) gerir það, reyndu þá að dæma það ekki og sýndu þér mildi og hlýju og skilning. Eitt skref áfram, stopp í stað, taka hringtorgið og u beygjuna, taka skref aftur og áfram og alls konar. Allar vegferðir eru nóg ❤

Við veljum að halda áfram og minna okkur á ljósið innra með okkur. Það er það sem skiptir mestu máli. Allar aðrar áskoranir leggjast ofan á það. Fyrst ró og ást til þín, hvernig sem það lítur út fyrir þig, restin kemur á eftir.

Ást og hlýja til ykkar allra ❤
– berskjöldunarhangoverkveðjur frá karen

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.