Hugmyndin um mig?

Hugmyndin um mig er ekki til. Ég er fær um að gera mistök, ég missi sjónar af nóginu og ljósinu innra með mér og öðrum.. aftur og aftur og stíg til baka.

Ég geri hluti sem ég get séð eftir og langar að læra af, stundum er erfitt að sjá þá.. aftur og aftur og stíg til baka. En ég er hvorki hugmyndirnar sem gera mig smærri en aðra né hugmyndirnar sem gera mig stærri en aðra. Ég er bara ég. Fullkomið work in progress, alveg eins og ég á að vera, sem æfir sig í að velja aftur og aftur að heila sárin og breyta óhjálplegum hegðunarmynstrum í hjálpleg.

En það er ekkert alltaf eða aldrei þar. Það er bara það sem er. Það sem ég þarf að læra hverju sinni og hvort ég velji að læra af því eða ekki, hvort ég velji að finna eða flýja, hvort ég velji að horfa inná við eða deifa sársaukann á einhvern hátt. Hvað hef ég af orku í dag? Er pláss fyrir að læra eða þarf ég að melta það? Þarf ég að hvíla? Þarf ég að leyfa mér að týnast í smástund því hugurinn er á yfirsnúningi? Það er aldrei aldrei og það er aldrei alltaf. Það er allt inn á milli. Mennskan, hvað við sjáum, hvað við lærum og hvað við veljum hverju sinni. Hin hugmyndin er ekki til.

En við megum ekki dæma okkur fyrir að eltast við hugmyndina, það er líka partur af því að vera, að reyna að lifa af, að óttast að vera séð, og við þurfum að æfa okkur að sýna því skilning hvernig við verndum okkur á sama tíma og við æfum okkur að stíga skref í átt að því að vernda okkur með því að leyfa okkur að vera, sýna okkur okkar eigið virði og byggja upp þá trú að við sjálf séum þess verðug að vernda, ekki bara hugmyndin.

Það getur búið til enn meiri sársauka að fela mennskuna af ótta við að önnur hugmyndin komi í ljós og hin brotni ef við festumst þar. Hún er ekki til og við erum ekki fullkomin. Því við erum miklu meira en það, miklu flóknara en það.

Það er enginn alltaf eins. Við erum viðkvæm, við erum mörg hrædd við berskjöldun, við erum fær um að missa sjónar af því sem skiptir máli. En við veljum að læra af því þegar við þorum að horfast í augu við það að við erum ekki fullkomin, vitum ekki allt, þurfum hjálp stundum og erum mannleg.

Við setjum mörk fyrir aðra og okkur sjálf og pössum uppá okkur því við vitum að hegðun er ekki það sama og hver við erum, heldur vísbending um það hvort við sjáum það eða bara hugmyndina sem við höldum að við þurfum að vera og aðrir þurfi að vera. Við förum öll þangað, gleymum því að við erum öll dýrmæt. Það er eðlilegt. En við höfum val um að æfa okkur að sjá það, minna okkur á það og horfast í augu við það sem hindrar okkur frá því að sjá það.

Við höfum val um að stíga til baka og horfa betur á hugmyndirnar sem við höfum um það hver við höldum að við þurfum að vera og hverjir við höldum að aðrir þurfi að vera og virkilega horfa. Er þetta raunverulegt? Er hægt að smækka okkur svona inní einhvern kassa og gleyma öllu hinu sem gerir okkur einstök? Ég hef lært og finnst sjálfri það bjóða uppá meiri sársauka. Að eltast við hugmynd af sjálfri mér sem ég mun aldrei ná að keppast við, í sitthvora áttina og gleyma sjálfri mér. Ég finn hversu sárt það er þegar ég týni mennskunni og skilningnum sem fylgir því gagnvart sjálfri mér og öðrum.

Hugmyndin sjálf er eins og mynd sem er ekki í fókus. Hún er þarna en við sjáum ekki skýrt öll smáatriðin sem gerir hana einstaka. Við sjáum ekki hvað er raunverulega á myndinni, í hverjum krók og kima. Við getum bara giskað. Þess vegna er hún ekki raunverulega til. Því við höfum öll okkar eigið gisk á því hver hún er.

Er það þá myndin? Þegar við sjáum hana ekki og getum einfaldlega metið hana hvert og eitt? Hún mun alltaf vera miklu meira en hvert svar. Hugmyndin um hana er ekki það sem hún er.
Hið sama á við mig, þig, þau og hvern og einn. Hugmyndin er ekki til. Hversu mikið frelsi liggur í því að fá bara að vera og þurfa ekki að eltast bara við það hver við höldum að við þurfum að vera eða ættum að vera til þess að vera nóg, í stað þess að sjá okkur líka nóg og æfa okkur að leyfa okkur að vera alveg séð í berskjöldun? Það er svo fallegt.

Við erum ekki hegðun og við erum ekki hugmynd. Við erum miklu meira, flóknara og dýrmætara en það.

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.