Afhverju skrifa ég um tilfinningar?

Þetta er færsla sem ég hef alltaf þráð og alltaf hræðst að skrifa.

Ég skrifa þetta  með það í huga að fræða, því ég vil forðast það að fleiri upplifi þessa hluti og eina leiðin sem ég hef til að gera það er að skrifa frá eigin reynslu og vonast eftir að einhver hlusti sem þarf á því að halda.

Ég hef skrifað færslu um það hversu erfitt það var að vera „dramadrottning“ en hún sagði ekki allt og ég vil nota þennan platform til þess að koma röddinni minni út með því sem ég hef að segja um þessa hluti.

Ég tala um mikið tráma frá barnæsku og upp í fullorðinsár en ég tala ekki um hvað gerðist raunverulega og mun líklegast ekki gera það, því sagan mín er ekki bara sagan mín og sumt er ekki mitt að segja frá. En ég hef rödd fyrir sjálfa mig og hér er hún á blaði (eða í raun á tölvuformi eða hreinlega word skjali).

Ég fæddist inn í þennan heim viðkvæm. Ég hef alltaf haft óbeit á þessu orði þar til ég varð aðeins eldri og fór að sjá fegurðina í því. Því viðkvæmni er falleg, hún þýðir bara að þú finnur meira fyrir heiminum. Afhverju ætti það að vera vont?

Til margra ára var ekki pláss fyrir að tala um tilfinningar. Fólk varð að sjá um heimilið og vinna daginn út og daginn inn og erfiðar tilfinningar þýddu hreinlega erfiðara vinnuafl og meiri óvissa um það hvernig fólk gæti hreinlega lifað af. Því í mörg ár var lítið pláss fyrir annað en að hreinlega lifa af. Það var ekki hægt að taka pásu og tala um erfiðu tilfinningarnar því það þýddi bara meira erfiði. Það er ekki slæmur hlutur eða einhvað sem við eigum að dæma fyrir, því allir eru alltaf að gera sitt besta með það sem þeir hafa á hverjum tíma og við endurtökum það sem við lærum. En þetta er það sem ég hef heyrt og lært um gamla tíma, en ég lifði þá ekki svo ég get ekki mikið annað sagt.

En ég held við getum flest öll verið sammála um að það er ekki svo langt síðan tilfinningar fóru að mega taka pláss. Að við fórum að skoða þær aðeins dýpra. Að við fórum að hlusta og reyna að skilja hvað þær hefðu að segja og mörg okkar lærðum að tengja tilfinningar við sjálfvirði. Því í erfiðum tilfinningum var oft erfiðara að gera hlutina, að framkvæma. En vandamálið var í rauninni ekki það að tilfinningin kom, heldur að hún fékk ekki að vera upplifuð í fyrsta lagi, hvenær sem það gerðist fyrst, stundum munum við hreinlega ekki eftir því. Tilfinningar sem fá ekki pláss, þær stækka.

Ég fæddist viðkvæm inn í heiminn og tilfinningum mínum var hafnað. Ekki af öllum, ekki alltaf, en þeim var hafnað. Svo þær stækkuðu og ég fór að verða hrædd við þær. En svo gerist það, að þegar umhverfið okkar er ekki tilbúið eða hefur jafnvel ekki færnina í að horfast í augu við sínar eigin tilfinningar að þá geta tilfinningar verið upplifaðar sem ógn. Því margir eins og ég sagði tengja tilfinningar við sitt eigið virði. Sársaukafull eða óþæginleg tilfinning = það er einhvað AÐ mér, eða það er einhver að segja að það sé einhvað AÐ mér, Gleðitilfinning = ég er frábær. Þannig ef barn er í umhverfi þar sem stórar tilfinningar vekja upp ótta frá þeim sem á að vernda það, þá verður árekstur.

Ég lærði mjög snemma að tilfinningar mínar væru vondar, að þær myndu persónulega meiða fólkið mitt (þrátt fyrir enga hegðun sem beindist persónulega að einhverjum öðrum). Það kom frá einum hluta af því hver ég er. Einu öryggi, en ég vil ekki færa fókusinn þangað, því ég veit að þrátt fyrir allt þá var það öryggi líka að gera sitt besta með það sem það hafði. En það þýðir samt ekki að ég hafi ekki meitt mig á því. Hitt öryggið mitt var tilbúnara að taka við tilfinningunum mínum og minnti mig á ljósið innra með mér, aftur og aftur, en það var aldrei nóg.

Þegar ég upplifði mjög sterkar tilfinningar átti ég erfitt með að gera hluti, og það hefur oft verið horft á slíka hluti líkt og barn vilji ekki gera hlutinn, að það sé latt, að það sé frekt, að það sé að velja það. En í raunveruleikanum leið mér eins og óttinn væri að gleypa mig. Ég réð ekki við hann. Líkaminn þorði ekki að starfa eins og ég vildi að hann myndi starfa. Ég fókusaði á allt sem gæti farið úrskeiðis, hvað ég væri skemmd og gæti ekki gert neitt, hvað það var of mikið að vera með sjálfri mér. Ég vildi trufla mig, leika mér, svo ég þyrfti ekki að upplifa þennan ótta, þessa skömm, þessa ljótu mynd sem ég hafði af sjálfri mér.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég var svona 8 ára og leit í spegil. Mér fannst ég afmynduð í andlitinu, ég sá andlitið mitt í bútum og fannst ég öðruvísi en annað fólk. Mér leið eins og ég væri einhvað skrímsli.

Ég fór oft grátandi til þess öryggis sem skildi mig betur og leyfði mér að gráta án þess að það þyrfti að þýða einhvað ljótt um mig. Ég var spurð „afhverju ertu að gráta ástin mín?“ og ég gat ekki svarað. Ég grét og grét yfir einhverju sem ég skildi ekki, ég var bara svo leið. Mér fannst ég ekki eiga samastað í þessum heimi. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir tilfinningarnar mínar. Mér leið eins og partur af mér myndi meiða fólk bara með því að vera til, meiða mig sjálfa. Mér fannst ég skemmd og ég var bara lítil stelpa sem skildi ekki hvers vegna henni leið svona illa, hvers vegna tilfinningarnar hennar væru svona stórar og sterkar og hvers vegna hún grét yfir minnstu hlutum. En ég fann höfnun í öllu, öllum smæstu hlutum, því ég var búin að læra að hafna sjálfri mér fyrir einhvað sem ég hafði enga stjórn á, því börn læra af umhverfinu hvernig þau eiga að ráða við tilfinningar og hvort þær séu slæmar og hvort þær mega koma.

Ég upplifði annað öryggið mitt sjá illt í öllu sem ég var og er. Allt sem ég gerði hefði illa orsök, allt sem ég sagði, allar tilfinningarnar mínar. Svo þegar tilfinningarnar voru orðnar það stórar að mér fannst ég ekki geta gert minnstu hluti og hitt öryggið skildi ekki að það lá sársauki á bakvið það og sá bara að ég var ekki að gera það sem það vildi að ég myndi gera, að þá snerist ég ennþá meira gegn sjálfri mér, því þarna voru sönnunargögn fyrir því að ég væri skemmd og ekki eins og aðrir, því ég gat ekki gert „litlu“ hlutina sem mörgum öðrum þótti ekkert mál að gera. Ég hafði staðfestingu á þeirri hugmynd að ég væri skrímsli sem sáði bara ljótum og illum hlutum inn í þennan heim.

Aumingjaskapur, frekja og leti er ekki til í minni bók. Það eru alltaf rætur að öllu og það velur enginn að kalla á neikvæða athygli frá sínu nærumhverfi eða reyna að taka meira pláss. Við erum öll alltaf bara að reyna að vera séð. Stundum er fólk ekki séð fyrr en það öskrar á hjálp, stundum fær það bara samþykki ef það lærir að fela sig. Það skiptir svo miklu máli að hlusta. Því tilfinningar koma bara, þrátt fyrir hvað er oft sagt, þá höfum við enga stjórn á því hvort og hvenær þær koma. Það eina sem við höfum stjórn á er hvernig við bregðumst við þeim. Ef við lærum að þær eru vondar þá búum við til togstreitu og festum þær inni í líkamanum í stað þess að hleypa þeim í gegn. Þannig leggst tilfinning ofan á tilfinningu ofan á tilfinningu ofan á tilfinningu. Sorg = skömm = reiði = höfnun = ótti. Í stað þess að hún fái bara að koma, sé ekkert tengd við okkar virði, fái að segja það sem hún þarf að segja því hún er bara úrvinnsla, og svo kveður hún.

Það eru rætur á bakvið allt, hjá öllum og hver og einn einstaklingur þarf að fá rými þegar kemur að tilfinningum. Því án þess, þá beinast tilfinningarnar að virði annara eða okkar eigin virði. En virði hefur ekkert með það að gera. Bara nákvæmlega ekki neitt. En við lærum hvað hefur virði sem börn og hvað ekki. Hvað gefur okkur meira eða minna virði í augum þeirra sem spegla okkur í kringum okkur. Hjá flestum eru „neikvæðar“ tilfinningar dæmdar sem einhvað vont. En hvað liggur að baki? Hvað eru tilfinningarnar raunverulega  að segja?

Ég lærði frá mínu nærumhverfi að tilfinningarnar mínar þýddu einhvað vont um mig, ég væri frekja, vond, eigingjörn, sjálfselsk, löt, alveg sama um aðra, grenjuskjóða, dramatísk, of viðkvæm, tæki hlutunum of nærri mér. Ég var í sorg og það sá það enginn. Ekki í stóra samhenginu, ekki stærsta rótin. Ekki í hversu miklum sársauka ég var raunverulega, hversu mikið mér fannst ég ekki eiga skilið að vera til, og þetta hugsaði ég mjög ung.

En það var alltaf baráttukraftur í mér, ég hugsaði alltaf „ef ég sýni þeim það nógu skýrt, þá munu þau sjá mig“. En það er erfitt að skilja „viðkvæmt barn“ sem reynir að hafa hátt. Ég skil það, því eins og ég segi þá hefur ekki alltaf verið pláss fyrir tilfinningar og að það að þær komu þýddi að það væri einhvað AÐ. Hegðunin mín sýndi það skýrt að það var einhvað AÐ, en það var bara stimplað sem hegðunarvandi og það er hægt að skamma börn fyrir það sem þau gera vitlaust í hegðun. Það er engum að kenna, að hafa ekki séð hvað var raunverulega að gerast. Eins og ég segi þá veit fólk oft ekki betur.

Eitt öryggið reyndi að skilja mig, en dæmdi þó hegðun, sem er skiljanlegt, því það er það sem við sjáum. Við sjáum ekki það ósýnilega, það ónefnda og ég hafði ekki orð til að útskýra hvað var að gerast. Hitt öryggið mitt dæmdi mig og tók tilfinningum mínum sem perónulegum árásum á sig. Það var ekki tilbúið að sjá sínar eigin tilfinningar og hvernig var þá pláss fyrir mínar. Ég skil það vel, þó það sé auðvitað sárt. Ég skil líka að þessi upplifun verði líklegast aldrei tekin sem raunveruleg, því það er erfitt að sjá spegla. Ég veit hversu sárt það hefur verið fyrir mig og stundum er spegilmyndin of langt grafin til þess að það sé einusinni hægt að nálgast hana. Ég skil það líka.

Mér leið eins og ég væri að búa til sama sársauka og lifði í mér, í því öryggi sem ég þráði mest samþykki frá. Ég yfirfærði mínar eigin tilfinningar á aðra og hræddist ekkert meira en að valda því að einhver upplifði þennan sársauka, án þess að gera mér grein fyrir því að hann var minn eigin.

Svo gerist það að öryggin mín tvístrast og fara í sitthvora áttina. Ég upplifi það í fyrsta skiptið hvernig það er að vera ein með örygginu sem sá mig ekki og án þess möguleika að hafa öryggið sem reyndi að sjá mig hjá mér. Þá fyrst byrjar rof að eiga sér stað. Öryggið sem speglaði mig á þann hátt að ég upplifði allt sem ég var sem einhvað ljótt, það reyndi að sannfæra mig um að öryggið sem sá mig ekki þannig, væri falskt, ekki raunverulegt, vont, ekki til staðar. Ég var 10-11 ára gömul.

Svo gerðust ýmis áföll sem urðu til þess að auðveldara var að trúa því að öryggið sem sá mig sem einhvað ljótt hefði haft rétt fyrir sér og ég gæti ekki lengur treyst á það sem öryggið sem reyndi að sjá mig speglaði mig sem. Ég hætti að geta séð hvað væri rétt og hvað væri rangt, hvað væri raunverulegt og hvað væri falskt, hvað væri öryggi og hvað ekki. En ég barðist áfram og neitaði að kyngja því að það væri einhvað AÐ mér og ég byrjaði að stinga af.

Ég vildi vera séð og þráði að sjá að einhver kæmi á eftir mér, þráði að sjá að örygginu væri ekki sama. Að ég skipti máli. Að ég væri velkomin, að ég væri elskuð, að ég væri nóg. Svo var ég dæmd fyrir það. Auðvitað, því við sjáum oft bara hegðun og ekkert á bakvið. En þetta var neyðarrúrræði. Því ég tjáði mig, það var ekki hlustað. Ég grét, það var ekki hlustað. Ég fór inní herbergi, það var ekki hlustað. Það var frekar látið eins og ég væri ekki til. Haldið áfram að hafa gaman. Án mín, og ég fékk að heyra hvernig það væri fyrir öryggið mitt að vera til með þeim sem voru ekki „skemmdir“ án mín. Hvað allt virtist vera betra án mín og enginn kom.

Ég leitaði í hitt öryggið, en það týndi sér sjálfu í eigin sársauka, og þá þurfti ég að leita aftur til baka, en það var ekki pláss fyrir mig. Orð pössuðu ekki við gjörðir og tilfinningar. Mér fannst ég ekki elskuð. Og þegar tárin mín voru hunsuð, dæmd sem dramatík og allt ljótt sem ég get hugsað um, fjarlægðin mín var hunsuð, að þá tók ég upp á því að láta í mér heyra. Ég vildi bara að einhver sæi mig.

Ég man eftir því þegar ég stakk af og enginn kom. Enginn leitaði. Allt sem ég gerði til þess að grátbiðja um ást var horft á sem einhvað vont. Ég man hvað ég bjóst bara við því að jörðin myndi gleypa mig, þetta væri bara búið. Ég átti ekki heima í þessum heimi. Ég var allt illt og vont í heiminum og hafði ekkert nema sársauka upp á að bjóða. Ég gerði hlutina verri fyrir alla aðra. Ég man eftir óttanum við þessa hugsun. Óttinn fékk mig til þess að snúa við og læra að hafna mér alveg. Ég hætti að leyfa mér að gráta, ég hætti að tjá mig, ég hætti að vera ég. Ég breytti mér í kamelljón fyrir hverjar aðstæður, lærði hvað viðkomandi þurfti að ég væri og reyndi að vera það.

Ég lærði að brjóta mig niður sjálf, taka þátt, niðurlægja mig, bara til þess að mega vera með. Ég lærði að hlusta á alla aðra, heyra þeirra sársauka, á meðan ég kyngdi öllu sjálf. Brosti. Þvingaði mig í einhvað hlutverk sem var ekki ég, því án þess bjóst ég hreinlega við því að ég myndi bara hverfa. Því án þess var ég allt illt á þessari jörð, allt það ljóta og vonda og smitaði því öllu frá mér. Ég bjóst við risastórri flóðbylgju ef ég vogaði mér að tala frá hjartanu, segja satt og vera.

Hitt öryggið mitt sem reyndi alltaf að sjá mig, gat það ekki lengur og þessi hugmynd sem ég bjó til þjónaði betur. Ég gat passað upp á alla aðra en sjálfa mig. Ef ég gerði mistök þá hraunaði ég yfir mig. Ef ég var dæmd, varði ég mig því ég var búin að „laga“ mig, en um leið og ég var ein þá trúði ég því öllu og leitaði að fleyri leiðum til þess að „laga“ mig. Ég vildi vera  til staðar fyrir alla, því ég mátti ekki vera til staðar fyrir mig, og vegna þess að ég mátti ekki vera til staðar fyrir mig þurfti ég að ríghalda í fólk og óska eftir fyrirgefningu, samþykki fyrir því hreinlega að vera til.

„Má ég vera til?“ er í raun og veru spurningin sem ég hef verið að spurja alla að síðan ég var barn. Svo þegar svarið er nei, í mínum huga, þá reyni ég að „laga“, er stöðugt á varðbergi. Þori ekki að trúa því að fólk segi það sem það meinar, sérstaklega ef það er einhvað gott um mig. Fæ alltaf hugsunina „ef þau bara vissu hvað ég er vond og ill fyrir þennan heim“. Svo ég reyni að hjálpa, vera til staðar, leitandi að plássi fyrir mig í þessum heimi, skíthrædd við að gera mistök og býst við því að ef ég næ ég ekki að vera til staðar að þá muni ég valda fólki þeim sársauka sem ég varð fyrir, að viðkomandi ætti hreinlega bara ekki tilverurétt á þessari plánetu, að ég baði einhvern óvart í það mikilli skömm að hann geti ekki meira.

En þetta er svo skrítið því ég veit að fólk horfir ekki svona á mig, og ég hef aldrei valdið einhverjum þessum sársauka, ég hef aldrei meitt einhvern það mikið að hann vill hreinlega ekki vera til lengur. Ég hef það ekki í mér og ef mér er sagt að ég hafi sært einhvern þá ræðst ég á mig, reyni að finna leiðir til að laga og bæta og fer hreinlega  í þráhyggju yfir því hvernig ég geti hjálpað einhverjum betur. Ég hugsa alltaf um gjörðir sem endurspeglun um það hver ég er. Ef ég særi einhvern óvart = ég er vond og ætti helst bara  að láta mig hverfa. En þess vegna skrifa ég, og meiri hlutinn eru í raun og veru bara orð frá mér til mín. Ég deili því svo með öðrum, því ég vil ekki að neinn fari í sömu hringrás og ég með þessa hluti, en ég set oft allt of mikla ábyrgð á mig og býst við að skrifin mín hafi einhver hræðileg flóðbylgjuáhrif ef ég skrifa einhvað vitlaust eða segi ekki rétt frá eða nota ekki rétt orð, hvort sem það þýði að bylgjan falli yfir á mig, eða einhvern annan.

Þetta er rosalega óheilbrigð meðvirkni, sérstaklega þegar það kemur að því að forða fólki frá því að upplifa afleiðingar eigin mistaka. Þá hoppa ég inní og í raun ríf í burtu lærdómstækifæri frá viðkomandi. Því allt kennir okkur einhvað, allt, og ég trúi því að allt gerist af ástæðu og gerist nákvæmlega þegar það á að gerast. Ég vil ekki hugsa öðruvísi, ég verð að finna ljós í öllum sársaukanum. Allt færði mig hingað, í að skrifa þessi orð, og núna veit ég hvað ég þarf að gera.

Ég treysti ekki minningum, hugsunum og tilfinningum mínum því mér var kennt að þeim væri ekki treystandi. Að það sem ég trúði að væri rétt, bjart og öruggt, væri það ekki, væri falskt og vont. Svo það er einhver hluti af huganum mínum sem trúir því ekki að núverandi veruleiki minn sé raunverulegur og ég þarf að læra að minna mig á að hann er það. Að núna er raunverulegt og að það sem er að gerast í huganum er það ekki. Að aftengingin er ekki það sem er að gerast, ég er að upplifa ótta og afþví óttinn kemur þá býst ég við því að það sé einhvað AÐ og hlusta á það sem hugurinn segir. Hann segir „þú ert ekki hér“, því hann treystir ekki mínum eigin veruleika. En ég þarf að segja við mig meðvitað „þetta, núna, allt sem þú finnur í líkamanum, allt sem þú sérð, allt í augunum á fólki, þetta  er raunverulegt“.

En þetta er það sem getur gerst þegar maður lærir að tengja tilfinningar við einhvað ljótt og einhvað sem sé ekki hægt að treysta. Því við getum alltaf treyst tilfinningum, og þegar þær virðast ekki eiga við augnablikið, þá er einhvað gamalt sem er að koma upp, sem hugurinn yfirfærir á það sem er núna. Þá þurfum við bara að leyfa þeim að koma, án þess að tengja þær við okkar eigið virði, eða virði annara eða umhverfisins.

Ég lærði að allt sem ég get treyst, sé falskt, sé illt, sé einhvað sem ég þarf að hræðast og ég þarf að aflæra það. Ég fæ oft neikvæðar og rangar hugsanir um það sem er gott í lífinu mínu og hugurinn reynir að sannfæra mig um það að þær hugsanir séu sannar, en ég er þó komin það langt að ég næ að snúa því. Ég veit núna merkin, ég veit núna hvað bendir til þess að ég sé að fara í öfuga átt. Ef hugsanir snúast um virði, þá er þeim ekki treystandi. Því virði er alltaf og hefur ekkert með gjörðir að gera.

Ég fattaði ekki hversu langt leidd ég var í þessa öfugu átt fyrr en fór að upplifa mig umvafða í stöðugri ást  hvern einasta dag, og það á ég að þakka manninum mínum. Ég hef aldrei verið jafn örugg. Sem betur fer var mér aldrei snúið í þá átt að ég gæti ekki treyst því öryggi. En mér sárnar oft yfir öllum þeim sem ég hræddist að væru falskir, og þá sérstaklega því öryggi sem reyndi alltaf að sjá mig. En ég get ekki dæmt mig fyrir það. Ég vissi ekki betur og ég var alltaf að gera mitt besta.

En núna í fyrsta skiptið í mörg ár er ég að sjá hvað er raunverulegt, allt hér, akkúrat núna, allar tilfinningarnar, allt í kringum mig, öll ástin, allt fallega fólkið sem ég hef fengið inn í líf mitt. Ég get loksins farið að treysta því að það er raunverulegt. Ég get loksins lært að treysta mér og þegar ég geri það ekki, þá veit ég leiðina til baka og ég veit að líkaminn man og veit best hvað er gott fyrir mig. Ég er ólýsanlega þakklát fyrir að fá að upplifa það og ég á það öllu því að þakka sem hefur gerst bara þetta ár og síðan ég fór að átta mig á því að ég varð að finna ástina í sjálfri mér, eftir að ég kynntist manninum mínum.

Takk allir sem hafa átt þátt í sögunni minni, líka þeir sem hafa  sært mig, allt sem hefur gerst færði mig hingað og við erum öll alltaf að gera okkar besta, alltaf. En auðvitað þurfum við samt að muna að allir sem við viljum hafa í kringum okkur eiga skilið pláss og rými, alltaf (svo lengi sem það er öruggt og fer ekki yfir okkar eigin mörk, því stundum þurfum við hreinlega að vernda okkur sjálf og það er líka allt í lagi og hreinlega  nauðsynlegt. Við skuldum ekki öllum rými, við megum velja þá sem við höfum í kringum okkur). Rætur og afsakanir og ástæður mínusa ekki burt sársaukann sem átti sér stað. Ef við getum gefið rými og sett stolt og varnarviðbrögð á hliðarlínuna, þá er hægt að tala saman. Ef það er ekki hægt, þá kannski er ekki rými fyrir alla, en það er þá bara  þannig og við getum fært rýmið okkar annað.

Við megum taka pláss, alltaf. Allir. Við megum finna, allt, alltaf. Allir. Við megum vera, alltaf. Allir. Við höfum öll virði og ljós og ást og hlýju innra með okkur og við megum öll vita það.

 

Ástarkveðjur og berskjöldunarhangoverkveðjur frá Karen

 

 

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.