Að gera óvin úr grímunni

Ég hef verið að hugsa undanfarið um það hvernig ég hef gert óvin úr svokallaðri „grímu“ sem ég set upp. Ég hef verið að passa svo mikið uppá að reyna að æfa mig að leyfa tilfinningum og hugsunum að vera, að ég hef gleymt stóru verkfæri sem átti alltaf bara að vera verkfæri en varð lifnaðarháttur sem vörn og á endanum óvinur.

Það að gríman komi upp er einhvað sem hjálpar okkur að vernda okkur í aðstæðum sem við erum ókunnug. Þetta er vernd, sem við höfum lært að beita frá barnsaldri. En ég lærði að gríman mín gæti skaðað frá sér. Í gegnum grímuna var ég næstum búin að aðskilja mig frá þeim sem skiptu mig mestu máli í heiminum og voru mitt öryggi og skjól í lífinu.

Svo þá kom svarti og hvíti hugsanarhátturinn. Ég vil ekki þetta, aldrei, þetta er vont, þetta meiðir, þetta er mér jafnvel hættulegt. En þetta átti alltaf bara að vera verkfæri til að hjálpa mér að lifa af, ekki eina hugmyndin um það hver ég ER.

Ég hef verið svo föst í því að forðast grímuna mína eins og heitan eldinn, að ég skapaði stríð innra með mér.
Í aðstæðum þar sem ég upplifi mig óörugga (þó svo raunin sé ekki sú), þá kemur hún upp. Í stað þess að sýna innra barninu skilning og kærleika fyrir að velja að vernda mig og finna ró, til þess að ég geti brugðist við á annan hátt þegar ég hef náð að taka djúpan andardrátt, þá hrópar einhvað inn í mér „NEI, NEI, EKKI GRÍMAN, ÉG VIL EKKI AFTENGJAST“ Og þannig sýni ég sjálfri mér að það sé einhvað að. Ég bý til meiri ótta, í þegar óttafullum aðstæðum.

Því hugurinn leitar að orsökum, hann er lausnamiðaður og ég hef núna fært fókusinn á að vandamálið sé það að ég sé ótengd öðru fólki, vegna grímunnar. Hlutverk heilans er að bera kennsl á það, en málið er að nú gerir hann það í öllum aðstæðum, ekki bara þegar gríman kemur í veg fyrir mörk og annað slíkt sem setur mig í hættu, líka í þeim aðstæðum þar sem hún birtist sem verkfæri.

Því traust er einhvað sem vex og gríman kemur upp í aðstæðum þar sem við höfum bremsuna á og sýnum ekki allt sem við ERUM, ekki strax, traust mætir ekki bara á svæðið um leið og við komum í óþekktar aðstæður, það þarf að kynnast því fyrst hvort það sé öruggt, hvort það sé pláss fyrir það hér, hvort það þurfi að leita annað.

Ég heyrði einhvern tíman þessi orð: að allt sem við gerum, segjum og hugsum sendum við út í heiminn og búum til meira af því sem sendist svo til baka. Ég man ekkert hver sagði þetta en ég mundi eftir þessu í sturtunni í morgun. Ég fókusa stöðugt á það að ég sé aftengd og hvernig ég komi í veg fyrir það og bý þannig til brú í átt að meiri aftengingu, því þangað leitar hugurinn, að vísbendingum, líkt og ég hafi sjálfa mig undir smásjá.

Það er enginn alltaf 100 % hann sjálfur, og það tekur tíma að leyfa hugmyndinni sem var samofin við grímuna að falla burt. En til þess þarf ég líka að vingast við hana, skilja og elska. Því með því að búa til meira öryggi innra með mér, í öllu því formi sem ég birtist hvern dag, þannig, í ró, get ég hægt og rólega tekið skref í aðra átt. Þetta er ekki eins og ég geti bara tekið af mér gleraugun. Þetta gerist með trausti og það er byggt, líka frá mér til mín.

Því með því að elska sjálfa mig og styrkja, þannig bý ég líka til þá trú að ég verðskuldi ekkert minna en að mörk mín séu virt og er líklegri til þess að leyfa mér að velja meðvitað að standa með sjálfri mér. En fyrst þarf ég að vingast við allt og læra að það að gríman komi upp, þýði ekki að það sé einhvað að og ég sé að leggja mig í hættu. Hún er verkfæri og hún átti alltaf bara að vera verkfæri, til að vernda mig.

Það var aldrei neitt að mér, líkt og það er ekkert að þér, ef þú tengir við þessi orð. Það eina sem var raunverulega að, var það að ég og jafnvel þú, trúði/r því að það væri einhvað að því hver ég ER/þú ERT. Þetta var aldrei svona svart og hvítt, illur og góður, gríma og heiðarleiki. Við erum svo miklu meira og mannlegri en þessar tvær flokkanir. Við erum allt og ekkert. Við erum fullkomlega ófullkomin og alltaf að læra. Alltaf. Allt er lærdómstækifæri og allt gerist þegar það á að gerast. Ég vel að trúa því.

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.