Bæld reiði

Ég hef verið að skoða tengsl mín við reiði upp á síðkastið. Ég hef alltaf verið hrædd við þessa tilfinningu, hrædd við afleiðingarnar af því að leyfa mér að upplifa hana, því ég hef séð hversu skemmandi hún getur verið þegar hún verður stór og er beint persónulega að einhverjum með hegðun.

Ég frýs þegar ég sé reiði eða þegar ég upplifi reiði. Ef ég frýs ekki þá brotna ég niður.

Tilfinningar stækka þegar þeim er hafnað, þess vegna verða þær svo stórar og það eru tvær hliðar á skyldingnum við það að hafna reiði.

Ég fór í þá átt að ýta sjálfri mér í burtu og gefast upp, yfirgefa mig með þá trú að ég gæti ekki verndað mig, því ég mátti ekki finna reiði. Ég varð að stóla á að umhverfið mitt myndi vernda mig, ekki ég sjálf. Ég fann ekki styrkinn í reiðinni, að geta verndað mig, staðið með sjálfri mér, geta tekist á við ytri heiminn og þora að takast á við nýja hluti alveg sjálf (work in progress).
Hin hliðin á skyldingnum snýr að því að tengja orsök tilfinningunnar við aðra sem fær okkur til ýta öðrum burt til þess að vernda okkur sjálf (líka í huganum).

Þegar tilfinningu er hafnað þá hræðumst við að upplifa hana, búumst við sársauka og þess í stað reynum við að finna orsök og stoppa hana af.

Ef ég læri að ég er vandamálið fyrir því að tilfinningin sé að koma (líkt og ég geti stýrt því) og að ég get ekki þolað við í þessari tilfinningu þá ýti ég mér frá mér/ríf mig niður þar til ég finn leið til að deifa hana og forðast aðstæður í framtíðinni sem gætu kallað hana fram.

Þetta er leið hugans til að reyna að ná stjórn á tilfinningunni, því þegar tilfinningum er hafnað þá erum við neydd til að reyna að stýra því hvort og hvenær þær komi. En við getum það ekki og þess vegna myndast togstreita og tilfinningar virðast leka út þegar við viljum það síst og það virðist ekki passa við aðstæðurnar.
Því það er einmitt þegar tilfinningum er hafnað sem þær ýta undir óhjálplega hegðun og þær stækka.

Reiði er nefninlega ekki bara það sem við horfum á sem neikvæð viðbrögð, hún er svo margt annað. Reiði, hrein og tær, sem beinist ekki persónulega að neinum heldur er þarna til að vernda okkur frá ytra áreiti/hegðun, það er mikilvæg tilfinning. Reiði hjálpar okkur að finna styrk í líkamanum, að setja mörk og standa við þau, hún ýtir okkur í átt að því sem er hjálplegt fyrir okkar öryggi og burt frá því sem er það ekki.

En þegar henni er hafnað þá hegðum við okkur á þann hátt að við bælum hana, deifum hana eða ofhugsum til að trufla okkur frá henni eða við köstum henni frá okkur með hegðun yfir á aðra.

Reiði hjálpar okkur að standa með okkur sjálfum, í jafnvægi, án þess að neinn sé minni eða stærri en annar og án þess að neinn verðskuldi hana meira eða minna en annar ef við horfum bara a hana sem úrvinnslu.

Allar tilfinningar eru hjálplegar, þær hafa alla einhvað að segja og þær þurfa að fá að flæða til að sýna okkur hvað er gott/vont fyrir okkur.

Reiði er verndunartilfinning. Við upplifum reiði þegar okkur líður eins og einhver hafi tekið einhvað frá okkur og við viljum stoppa það af og passa uppá okkur sjálf og okkar virði.
Við getum nefninlega verið reið án þess að það þurfi að hafa neikvæð áhrif á okkur sjálf eða aðra.

Reiðin verður nefninlega stór þegar markmið hennar og upplifun hennar er hundsuð, yfirgefin eða dæmd. Hún heldur áfram að vekja athygli á sér þar til við hlustum.

Ég var sú sem hélt áfram að hafna mér, flúði sjálfa mig og leitaði að verndun utan sjálfrar mín. Hugurinn minn málaði mig sem sökudólginn fyrir því að þurfa að upplifa reiði, því reiði þýddi höfnun og það þýddi sannleikur á þeim tíma.

En ég þurfti alltaf að læra að taka á móti henni og halda ekki áfram að hafna henni, leyfa mér að upplifa hana. Því án hennar skil ég mig eftir varnarlausa í algjöru hjálparleysi. Ég veit það núna.

Það er erfitt. Því ég er ennþá hrædd við reiði. En ég þarf að leyfa mér að finna hana, án þess að hlusta á sögur hugans til að reyna að benda á orsakir til að forða mér frá því að upplifa hana. Bara finna, vera með henni, finna styrkinn, jarðtenginguna, alla sorgina sem liggur á bakvið það að hafa ekki leyft mér, talið mig ekki færa um að vernda mig sjálf.

Málið er að þó svo það liggi rætur að uppsprettu þess að ég byrjaði að bæla reiðina, að þá er enginn ábyrgur fyrir því að hún sé svona yfirþyrmandi í dag. Allt sem „triggerar“ hana eru bara speglar á það sem ER ennþá fast innra með mér, þessi stífla, að leyfa mér ekki að VERA.

Ég er því hægt og rólega að leyfa henni að koma og leyfa öllu undirliggjandi að koma, því það styrkir mig sem manneskju, sem einstakling, að þora að vera í líkamanum mínum, þora að upplifa, þora að hreyfa líkamann og kynnast heiminum betur með þá trú að ég sé þess virði að vernda.

 

 

 

Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

 

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.