Aftur til mín

Þessi skrif fóru í svo allt aðra átt en ég ætlaði mér.. en ég er þakklát fyrir það að velja einlægnina og rjúfa þetta mynstur ♡

Vöxtur er ekki línulegur og oftast líður okkur verr áður en okkur líður betur.
Það er sárt að horfast í augu við gömul sár og vera hjá þeim. Að vera hjá þeim þýðir að upplifa sársaukann og ekki flýja þær tilfinningar sem við finnum. Það er sárt.

En það verður allt þess virði, þegar við getum verið með sjálfum okkur sama hvernig okkur líður og við þurfum ekki lengur að hafna pörtum af því hvernig það er að vera við sjálf sem manneskja ♡

En þangað til er meira en að segja það að þora að horfa á það sem við tengjum við höfnun við okkur sjálf og höfum jafnan hafnað okkur sjálf fyrir til þess að upplifa öryggi og samþykki í þessum heimi. Að þora að sjá það, vera með því og leyfa því að vera séð af okkur sjálfum og svo öðrum. Höfnunartilfinningin mun koma upp aftur og aftur þar til við lærum að hafna okkur ekki og yfirgefa það sem er raunverulega að eiga sér stað innra með okkur.

Ég hélt að ég hefði gengist við því hver væri raunveruleikinn minn og leitaði verkfæra til þess að hjálpa mér að leyfa tilfinningarnar mínar til að heila þær. En samtímis var ég föst í því að afneita mínum eigin veruleika. Ég beið eftir því að vakna einn daginn og þá væri allur sársaukinn farinn. En það mun aldrei gerast. Ég verð að velja að vera hjá honum, án þess að leyfa honum að segja mér einhvað um mitt virði. Bara upplifa hann án þess að þurfa að finna ástæðu fyrir því að hann megi taka pláss og hvað það þýði um það hver ég er.

Hvað sem við finnum þarf að fá að taka pláss, að vera upplifað, ekki kastað frá okkur eða ýtt niður. En það er erfitt, ég tek ekkert frá því.

Ég hef verið föst í sömu hringrás í mörg ár að tala um það hvað hlutirnir hefðu ekki átt að vera svona og hinseginn, sem var vissulega rétt, en gaf mér samt sem áður leyfi til þess að halda áfram að ýta mínum eigin tilfinningum í burtu. Því fyrst þetta átti ekki að gerast þá átti ég ekki skilið að líða svona og átti ekki að þurfa að upplifa þær tilfinningar sem komu upp í kjölfarið.

Ég hélt að með því að geta tjáð mig um atburðina að þá væri ég ekki að afneita þeim, en ég var löngu búin að átta mig á því hvað gerðist, en leyfði mér aldrei að raunverulega upplifa tilfinningarnar sem fylgdu því. Svo ég festist í þeirri hringrás að tala í kringum það hvernig mér leið og tjáði mig um hvernig mér leið, því ég vildi ekki leyfa neinum að sjá hvernig mér líður. Hvað væri núna að gerast innra með mér.

Ég hafði fest mig við tvær mismunandi hugmyndir um sjálfa mig. A) Að ég væri ófær um að hugga sjálfa mig en fyrst ég hafði ástæður fyrir því að ég átti sársaukann ekki skilið þá gat ég leitað huggunar mest megnis utan sjálfrar mín án þess að leyfa neinum að sjá sársaukann allann, bara það sem mér fannst í lagi. Ég leyfði mér að skilgreina mig sem bjarglaust fórnarlamb sem þurfti að sjá um og hugga, því ég gæti það ekki sjálf (það er erfitt að viðurkenna það, því ég hræddist það mest að það væri það sem væri að gerast) B) Að ég varð að hjálpa öllum sem ég gat hjálpað, annars myndi einhvað hræðilegt gerast.

En ég hafði enga orku eftir fyrir sjálfa mig og oft var það óumbeðin hjálp sem kom frá mér sjálfri, og jafnan meðvirkni gagnvart óhjálplegri hegðun sem gerði jafnvel illt í verra.

En án þessa hugmynda þá hef ég ennþá ekki hugmynd um það hver ég er. Þessar grímur sem ég hef reynt að skilja við en koma upp þegar mér líður sem verst og sérstaklega í skömm. Ég þekki ekki sjálfa mig því ég hef ekki leyft mér að kynnast því hvernig mér líður á hverju augnabliki, frekar flý ég og vona að enginn sjá í gegnum grímuna sem kemur á, því ég er svo hrædd við mínar eigin tilfinningar.

Það er svo mikil sorg að ég hræðist að það verði bara eins og flóð sem tekur yfir mig og hvað þá í kringum fólk. En ég hef lært að þetta er ferli sem á sér stað, skref fyrir skref. Ég er að læra að horfast í augu við mína eigin afneitun og þær leiðir sem ég fer ómeðvitað til þess að viðhalda henni.

Ég vil taka það fram að það er fallegt að rjúfa þögnina og þora að berskjalda sig. Ég tek ekkert frá því. En ég sjálf var komin langt fram yfir þá línu og sagði söguna mína í von um leyfi til þess að þurfa ekki að líða eins og mér leið.

Ég elska mig fyrir það og vel að sýna því samkennd að það er ennþá partur af mér skíthræddur við höfnun fyrir tilfinningar sem ég finn og hann gerði bara það sem hann þurfti að gera til að forðast höfnun og óöryggi.

En samtímis hélt ég sjálf bara áfram að hafna sjálfri mér, og það er sú höfnun sem ég finn sterkast fyrir.

Í fullri einlægni þá hefur mér ekki liðið vel í langan tíma og það er það sem er að gerast núna. Því ég er ennþá hrædd við að leyfa öllu að sjást. Öllu óörygginu sem ég finn fyrir í kringum annað fólk, hræðslunni, höfnuninni því ég áfram hafna sjálfri mér í hræðslu við að aðrir hafni mér því mínar tilfinningar gætu gert andrúmsloftið þungt, fólk er mis tilbúið til þess að geta horft á tilfinningar útfrá eigin sambandi við sínar eigin tilfinningar og svo vil ég aldrei taka of mikið pláss og á það til að finna skömm ef ég leyfi mér að gera það. Held jafnvel að ef ég leyfi mér að upplifa sorg að þá meiði það einhvern annan, að það að sjá mig leiða valdi sorg innra með einhverjum öðrum. Þó svo ég viti að það sé ekki rétt og ekki á minni ábyrgð að vernda aðra fyrir sínum eigin tilfinningum þá er ég ennþá hrædd við það.

Ég þekki hvaðan sárin koma og skil allt í kringum það, en þegar það kemur að því að raunverulega upplifa þau, þá er ég ennþá hrædd lítil stelpa. Þó svo ég sé búin að taka fullt af skrefum í átt að frekara sjálfstæði, að finna tilfinningarnar mínar og byggja mig upp.

En ég vil taka fleiri skref í átt að því horfast í augu við veruleikann eins og hann er, ekki eins og hann ætti að vera, hefði átt að vera, eða einhvað slíkt. Með því að leyfa því að vera séð að verkfærin mín eru bara einn hluti af leiðinni og að ég er ennþá að æfa mig í að nota þau og horfast í augu við allan sársaukann, þá vona ég að það taki í burtu þá grímu sem ég hef enn haldið fast í. Ég er ennþá að læra að leyfa mér að vera og ég vil ekki velja áfram að afneita mínum veruleika. Allt sem ég er að upplifa í dag er allt það sem ég þarf að upplifa, allt sem ég hafnaði áður fyrr og vildi ekki sjá.

En ég vil sjá og vel að sjá og ég vona að þessi skrif séu enn eitt skref í átt því.
Ég vil ekki lengur yfirgefa sjálfa mig og það þýðir að þora að horfa í spegilinn og þora að leyfa mér að vera. Ég veit að það verður vont, það er alltaf vont þegar ég hleypi einhverju að, en það verður ekki alltaf þannig. Ég þarf bara að halda áfram og áður en ég veit af þá umbreytist sársaukinn í einhvað annað. Því ég er að labba aftur til baka, aftur til mín.

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.