Tvær áttir ♡

 

Ég er að læra að segja nei (ég hef lært að ég svík mig ekki um frjálsa hugsun þegar ég segi nei við vissar hugsanir, svo lengi sem ég tek utan um tilfinninguna sem kemur upp þegar ég segi nei) við þann part af mér sem telur sig þurfa að VERA meiri eða minni en ég ER til þess að mega taka pláss í þessum heimi.

Ég tek á móti tilfinningunni sem kemur þegar ég segi nei við þær hugmyndir sem hann hefur um það hver ég ER, því sá partur af mér er bara hræddur og er að reyna að vernda mig fyrir því að verða mögulega hafnað, en þetta ERU bara hugmyndir og endurspegla ekki hver ég ER.

Þessi partur segir mér sögur um mitt virði útfrá skoðunum/hugmyndum sem ég hef lært að samþykkja um sjálfa mig til að reyna að vernda mig, til að mega taka pláss í þessum heimi.

Þessi partur af mér hræðist að sögurnar verði óundirbúið samþykktar og endurspeglaðar af mínu ytra umhverfi, hann reynir að bera kennsl á mögulegar „ógnir“ til að undirbúa sig. Ef hann brýtur sjálfan sig niður fyrst, þá er hann í sama liði og þeir sem gætu mögulega brotið hann niður. Þá er hann ekki einn. Þá er hann með.

Í dag er ég sú sem trúi þessum hugmyndum um sjálfa mig, eða þessi partur af mér. Í dag endurtek ég skilaboðin, í dag samþykki ég skilaboðin. Þess vegna hræðist ég að heyra þau frá öðrum, því ég trúi þeim, ég tek við sársaukanum sem fylgir þeim því hann býr ennþá innra með mér.

Það ERU tveir partar að togast í sitthvora áttina:

Sá sem þráir að heila sárin, vaxa og vill stíga í það sem hann þekkir ekki til að hlúa að sér og læra að hann sé nóg.

Og sá sem hræðist að heila sárin, hræðist að samþykkja sig af ótta við að verða hafnað og hræðist að stíga í átt að meiri sjálfsást því það kallar á meiri berskjöldun, meira stjórnleysi, meiri möguleika á höfnun því hann tekur við gagnrýni sem höfnun.

Ég skil þá báða og ég elska þá báða. Sá síðari mótaðist til að halda mér öruggri, til að taka einhverja stjórn í aðstæðum sem ég hafði enga stjórn á. Það er ljós í því sem hann er að gera, hann setur virði í það sem hann lærði að setja virði í og hafnar því sem hann lærði að hafna til að veita sér öryggi.

En sá partur á ekki við í dag. Í dag er ég örugg í því að læra að elska sjálfa mig. Í dag er ég örugg í því að VERA ég sjálf, allt sem fylgir því.

Allt sem ég lærði að væri sannleikur voru bara hugmyndir, því við ERUM öll nóg, við ERUM öll alveg nóg alveg eins og við ERUM.

Við getum flokkað hegðun í óhjálplega og hjálplega hegðun en við ERUM ekki hegðun.
Við veljum hegðun eða veljum/veljum ekki að hlúa að og læra af ákveðinni hegðun og vaxa. Það getur sagt okkur til um það hvort nærvera viðkomandi sé hjálpleg okkur í að vaxa áfram og hlúa að okkur sjálfum eða ekki og þá koma mörk til sögunnar, eða einfaldlega kveðja því við þurfum að hlúa að okkur sjálfum fyrst og fremst.

En það hefur ekkert með virði viðkomandi að gera. Við höfum öll jafnt virði. Við fæddumst öll nóg. En svo fáum við ekki öll að vita það sjálf og við bendlum EF við það að vera nóg, ekki bara ER.

Það er einmitt þessi partur sem við þurfum að hlúa að, þessi sem hugsar EF og tengir það við virði.

Þegar við erum ekki séð, þegar við fáum ekki að taka pláss eða þegar það einfaldlega gleymist að hlúa að öllu sem við ERUM, ekki bara pörtum af því hver við ERUM. Þá lærum við að hafna okkur sjálfum, hafna þeim pörtum sem eru ekki séðir og fá ekki pláss.

Það er ekki raunverulegur vilji neins, en það getur gerst og er mjög algengt. Skilaboðin geta komið úr öllum áttum, frá fjölskyldu, vinum, kennurum, ókunnugum, samfélagsmiðlum, auglýsingum, bíómyndum, þáttum, lögum, bókum, blöðum, í því að sjá og heyra aðra dæma og flokka hver einhver ER í vonda/góða kassann.. osfrv.

Í gegnum allt þetta lærum við að flokka parta af okkur sjálfum í góða og fallega/vonda og ljóta kassann.

-Það að ég svaraði vitlaust í tíma fékk alla til að hlæja og mér leið eins og það væri einhvað að mér -> ef ég svara spurningum í tíma upplifi ég höfnun, mér finnst ég asnaleg ef ég svara spurningum -> frjáls tjáning fer í vonda og ljóta kassann

Viðkomandi hafði kannski nú þegar lært að brjóta sig niður, eða sami atburður endurtók sig aftur og aftur, en einhvern veginn lærir viðkomandi annaðhvort:

1) Ég verð alltaf að hafa öll svör rétt í öllum tilfellum, alltaf (að finna virði í því að þurfa að vera meiri)

2) Það er best að þegja og láta alla aðra um að svara því ég á bara eftir að niðurlægja mig aftur (að finna virði í því að þurfa að vera minni)

En þetta eru bara hugmyndir sem við lærum til að reyna að forðast höfnun. En á sama tíma lærum við að hafna okkur sjálf. Við lærum að eltast við samþykki ytra við okkur í stað þess að gefa okkur það sjálf.

Þegar við erum ekki mannGERA, að eltast við að passa í rétta kassa, þá upplifum við djúpstæðu höfnunina, teljum okkur vera í hættu og byrjum að brjóta okkur niður til að reyna að fá okkur til að móta okkur aftur inní kassana sem við teljum okkur þurfa að tilheyra til þess að fá og finna virði.

Djúpstæða höfnunin er sársaukafull en við þurfum, ef við ætlum að læra að elska okkur eins og við ERUM, að taka utan um hana, VERA með henni samtímis þess að segja nei við hugmyndirnar/sögurnar sem hún kemur með um virðið okkar og að það sé afhverju við upplifum þennan sársauka, að við séum ekki nóg og þess vegna finnum við sársauka.

En það er ekki satt, við finnum sársaukann því okkur var hafnað á einhvern hátt og við lærðum að hafna okkur sjálfum. Líkami, hugur, hjarta og sál syrgir það. Líkaminn þurfti að geyma svo margar tilfinningar sem við lærðum að ríghalda fast inní líkamanum og þær mynduðu spennu, jafnvel mjög sársaukafulla spennu. Líkaminn þarf að vera í flæði, en þegar við höfnum pörtum af okkur búum við til stíflur inní líkamanum.

Frjáls tjáning er ein af stíflunum mínum, ég get skrifað að vild, en þegar ég vil tjá mig á ég erfitt með andardrátt og fæ kökk í hálsinn. Stundum líður mér eins og ég geti bara ekki talað. Á tímabili fékk ég stöðugar hálssýkingar sem voru hryllingur að eiga við, en þær eru hættar að koma. Þegar ég tjái mig heyri ég þennan part af mér dæma mig fyrir að tjá mig, dæma mig fyrir röddina mína, dæma mig fyrir að segja ekki alltaf alla „réttu“ hlutina og stundum veldur það því að ég þori ekki að tala.

En líkaminn er svo magnaður og fallegur og hann kallar okkur heim. Hann vekur athygli á þeim svæðum þar sem er spenna, þar sem einhvað þarf að heila. Ég vel að trúa því sjálf.
Magasvæðið var annað ákall frá líkamanum, en ég fékk lengi vel mikinn magasviða, bólgur og sár og meltingarkerfið mitt var alveg á hvolfi, það var annað virkilega sársaukafullt tímabil. En ég er mun betri í dag.

Ég legg mikla áherslu á tilfinningalega heilun hjá sjálfri mér, en við geymum svo mikið af tilfinningum inní líkamanum. Ég finn það þegar ég anda djúpt, það er eins og ég sé að kafna. Hálsinn byrjar að lokast, maginn og bringan verða stíf. Stundum vakna ég svo stíf að það hálf brakar í mér þegar ég reyni að hreyfa mig. Það er einhvað innra með mér sem rígheldur í einhvað, of hrætt til að sleppa, að opna, að finna ró.

Ég er því að reyna að koma líkamanum aftur í flæði með öllum þeim ráðum sem ég finn. Stundum vel ég einfaldlega að VERA með andardrættinum, VERA með óþægindunum í líkamanum og halda áfram að fylgjast með önduninni þegar ég þrái ekkert annað en að flýja það.

En til þess að gera það þarf ég að halda áfram að segja nei við þann part af mér sem þorir ekki að leyfa, þorir ekki að vaxa og þorir ekki að senda ljós.

Í dag er ég að velja að hlúa að mér sjálf á þann hátt sem ég hef rými/orku fyrir í dag ♡

Í dag er ég að gera það besta sem ég get gert með það sem ég hef að gefa í dag ♡

Í dag er ég að nýta þá orku sem ég hef á þann hátt sem leiðir mig áfram, leiðir mig að því að hlúa að mér, leiðir mig að meiri vexti og kærleika.

♡ Á hverjum degi vel ég að velja mér eitt loforð gagnvart sjálfri mér og efni það. Hjá mér eru það öndunaræfingar, en það gæti líka verið: að vakna fyrr, að fara á fætur, að tannbursta þig, að fara í sturtu, að borða, að drekka nóg vatn, að hugleiða, að fara út, að skrifa, að dansa, að syngja… osfrv. Og velja eitt af þessu til að standa við. Það hjálpar að byggja upp traust milli þín og þín ♡

Við gerum það sem við getum með það sem við höfum hvern dag ♡

Tökum utan um okkur sjálf og þökkum okkur fyrir allt það sem við höfum gert og erum að gera til þess að hlúa að okkur sjálfum ♡

Við ERUM öll ljós, ást og kærleikur og við getum sent það til okkar sjálfra ♡ svo smitast það yfir á aðra ♡

 

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

– karen

 

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.