Óheilbrigð jákvæðni ♡

Mikilvægt.

Við getum öll dottið inn í það hugsanamynstur að festast í óheilbrigðari jákvæðni, oft er það vani og lærð hegðun, og oft höldum við að þetta hjálpi og erum að reyna að miðla því áfram ♡

Þó þessi jákvæðni sé ekki illa meint, þá getur það óvart gerst að við búum ekki til pláss fyrir sársaukann sem er raunverulegur og viðkomandi/við sjálf erum að ganga í gegnum þetta tiltekna augnablik. Líkaminn er að vinna úr einhverju og það er raunverulegt og það þarf pláss svo hægt sé að hlúa að því.

Stundum er það sem við þurfum mest á að halda, einfaldlega það að vera heyrð og séð af hvoru öðru, sérstaklega þegar við erum berskjölduð í eigin sársauka. Því það er erfitt að leyfa sér að vera séð/ur og heyrð/ur þegar manni líður ekki uppá sitt besta ♡

Við þurfum að vita að við séum elskuð og að við séum ekki ein, líka þegar hlutirnir eru erfiðir og ekki bara þegar allt er einfalt. Hið sama á við þegar við tölum við okkur sjálf ♡

Að segja t.d. svona svona, þetta er ekki svona mikið mál, tekur frá því að viðkomandi raunverulega líður þannig akkúrat núna og er að reyna að vinna úr eigin sársauka og nú er jafnvel ekki pláss fyrir að opna sig því viðkomandi líður ekki eins og hann sé séður eða heyrður. Hann finnur ekki skilning og sýnir sér jafnvel ekki skilning sjálfur í kjölfarið. Þannig er tilfinningin yfirgefin, því við viljum samþykki frá okkar nánasta umhverfi. Þar finnum við oftast virði. Þar til við lærum að gefa okkur það sjálf.

Allar tilfinningar eru jafn mikilvægar og það býr ljós, vöxtur og lærdómur í þeim öllum ♡

Að leyfa þeim að koma, líka þegar þær virðast ekki „passa“ við aðstæður, líka þegar við vildum helst ekki að þær kæmu, líka þegar við vitum ekki afhverju þær eru að koma og án þess að telja þær segja einhvað um að virði okkar sé meira eða minna þegar þær koma (en sýna því skilning ef við byrjum að endurtaka gömul hugsanamynstur, senda þeim ljós og kærleika, en segja nei og taka utan um allt sem kemur þegar við segjum nei) Það er úrvinnslan. Að leyfa. Að VERA. Að sýna öllu því sem kemur upp skilning, ást og hlýju ♡

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.