Ég treysti því og trúi ♡

Ég treysti því og trúi
Að allt ER eins og það á að VERA.
Að orkan fer þangað sem hún þarf að fara.
Að allt gerist þegar það þarf að gerast.
Að allt kemur í ljós þegar það þarf að koma í ljós.
Að allt gerist raunverulega FYRIR mig, svo ég geti séð, lært og hlúið að því sem þarf að hlúa að, sama hversu sárt það er.
Að það er ljós í öllu, ef við getum, lærum og veljum að sjá það.

Þó svo leiðin geti verið sársaukafull og full af efa, ruglingi, vonbrigðum, tómleika, vanmáttarkennd, syrgð og sorg.
Þó sumir dagar séu þannig dagar að ég veit ekki hvort ég geti stigið inn í þá.
Þá vel ég að treysta því að allt gerist af ástæðu, allt kennir mér einhvað og reynir að færa mig nær því að vaxa í ást og kærleika.

Tilfinningarnar sem virðast yfirþyrmandi hafa visku innra með sér og þær þarfnast þess að ég ýti þeim ekki frá mér, telji þær ekki segja einhvað um það hver eg ER, hafni þeim eða vilji að þær séu einhverjar aðrar.
Þær eru partur af því hver ég ER, öllu flæði þess hvernig það er að VERA manneskja og ef ég hafna þeim, þá hafna ég pörtum af sjálfri mér.
Þær þarfnast þess að ég taki utan um þær. Sitji hjá þeim í söguleysi þess hvað þær hljóti að þýða, hvaðan þær koma og hvað þær segi um það hver ég ER.

Þetta augnablik þarfnast ekki sögunnar og þarfnast ekki útskýringa. Þetta augnablik þarfnast þess að fá að VERA. Að ég kynnist tilfinningunum án orða. Að ég sendi þeim kærleika. Að ég horfi á þær með forvitni. Að ég taki eftir því þegar hugurinn reynir að skapa sögur sem færa mig frá þeim, því á einhverjum tímapunkti hjálpaði það mér að lifa af, að hafna þessum parti af sjálfri mér, að forðast hann með öllum þeim leiðum sem ég fann.
Það er það sem hugurinn þekkir og það virkaði á þeim tíma, svo ég sendi því kærleika en vel að færa mig í burtu frá sögum, í burtu frá útskýringum og leyfi mér að finna. Hér er partur af mér sem ég vil kynnast. Sögurnar um hann sem ég lærði að eigna mér eru bara sögur, ekkert meira, enginn sannleikur. Bara orð.

Þegar ég stíg inn í tilfinningarnar með kærleikan að leiðarljósi og í söguleysi, þá eftir smá tíma og æfingu verður dimman ekki eins dimm, þunginn ekki eins þungur.. og þó ég veit að ég hef ekki annað val en að vona að þetta sé allt að færa mig áfram og leiða mig aftur til mín, að þá er það samt sem áður það sem býr til traust til þess að ég sé örugg í þessum heimi. Innra sem og ytra.
Að ég ER meira en það sem hugurinn flokkar mig í. Að við ERUM það öll.

Flokkunin er verkfæri sem ég get nýtt mér til að forðast það sem er raunverulega hættulegt og vont fyrir mig. En flokkunin er ekki gleraugun sem ég vel að sjá heiminn með, ekki lengur. Því hann er meira en svart og hvítt, dimmt og bjart, vont og gott og allar andstæðurnar sem ég hef lært að nota til að flokka. Heimurinn er miklu flóknari en það. Hann er einhvers staðar þarna í miðjunni. Og hver við sjálf ERUM er alveg jafn flókið og yndislegt.

En gömul mynstur er grafin djúpt inn í líkama, hug, hjarta og sál og ég þarf stöðugt að taka þessi skref aftur og aftur, læra að treysta aftur og aftur, kynnast sjálfri mér aftur og aftur.

Í söguleysinu er það sem ég þekki ekki, óvissan, engar staðreyndir, engar útskýringar og engin kunnuleg stjórn, en þar ER ég.

Á meðan ég læri að treysta því, þá minni ég mig á:

Að ég má taka pláss.
Að ég skipti máli.
Að ég er nóg alveg eins og ég ER.
Að ég ER akkúrat þar sem ég á að vera, akkúrat núna.
Að kærleikurinn er alltaf að reyna að finna leiðir til þess að vekja athygli á mikilvægi sínu í lífi okkar allra. Hvort sem það er mikilvægi þess að hlúa að því hver við sjálf ERUM, eða það hvernig við hlúum að öðrum.

Við höfum öll jafnt virði, þó svo við sjáum það ekki alltaf.

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.