Sögur og hugmyndir um sjálf

Sögur.
Eitthvað sem hefur verið að vefjast fyrir mér hvern einasta dag.

Sögur um það hver ég er, hvað gerðist, hvað það þýðir, hvað það segir um mig í dag og hver ég er, hvað það segir um heiminn og hver hann er, hvað það segir um annað fólk og hvert það er?

En ég hef áttað mig á því að þessar sögur þjóna tilgangi sem átti einfaldlega bara að vera leiðarvísir, en með tíð og tíma hafa þær orðið að því hvernig ég lifi lífinu og hvernig ég horfi á lífið. Þær hafa tekið miklu stærri sess í mínu lífi en þeirra upprunalegi tilgangur er.

Líkt og tilfinningar segja þær mér hvað og hvern ég þarf að forðast, hvað og hvern ég þarf að nálgast og hvernig ég ætti að fara að því.
Þær segja mér líka hvar sagan um mig, hver ég er, er örugg. Þessi hugmynd um það hver ég er og hvernig ég get viðhaldið henni og hvað ber að varast svo hún verði ekki særð eða misskilin.

En þessi hugmynd sem ég hef um það hver ég er, er ekki sú sem ég er.

Allt það jákvæða sem skilgreinir hana kemur frá því hvernig hver ég er var endurspeglað til mín frá mínu nánasta umhverfi og því broti af heiminum sem ég hef upplifað hingað til. Allt það neikvæða sem skilgreinir hana kemur frá því sama.

Svo kemur það í ljós fyrir unga sál hvort hugmyndin af því sem ég er, það hlutverk sem ég hef tekið að mér til að geta tekið pláss og verið samþykkt í þessum heimi, hvort hún sé nóg, eða hvort hún þurfi sífellt að lagfæra sig til þess að vera nóg.

Það er óhjákvæmilegt fyrir okkur að móta með okkur mynd og sögu um það hver við erum. Því við vitum ekki hvert hlutverk okkar er þegar við fæðumst og stólum á allar upplýsingar um okkar virði frá því hvað er endurspeglað til okkar.

Hugmyndin mín um það hver ég er hefur látið mér líða öryggri, en hún hefur líka fyllt mig af ótta og öryggisleysi. Það fer bara eftir því hvaða endurspeglun ómar hærra.

En ég er ekki þessi hugmynd.
Þessi hugmynd spyr stöðugt um leyfi til þess að taka pláss. En við fæðumst til þess að taka pláss, til þess að anda, upplifa, læra, vaxa, vera og gefa af okkur til annara, frá kærleika.
Við erum skilyrðislaus ást og kærleikur.

Með því að halda fókusnum stöðugt á hugmyndinni af því hver ég er og þeim sögum sem liggja í kringum hana, þá færi ég mig frá augnablikinu, þá færi ég mig frá því að upplifa hlutina eins og þeir eru.

Við byrjum strax að búa til sögur um fólk í höfðinu á okkur við fyrstu kynni, svo sjáum við það aftur og þá horfum við á viðkomandi í gegnum þá hugmynd og þá sögu sem við upplifðum áður og það getur fært okkur frá því að sjá hlutina eins og þeir ERU raunverulega. Hið sama gerist ef fókusinn er allur á þeirri hugmynd sem við höfum um okkur sjálf og að reyna að viðhalda henni og vernda hana.

Ég er því að æfa mig að sleppa sögum, sleppa hugmyndum um sjálfa mig, augnablikið og aðra.

Ég vel að hlusta á innsæið sem segir mér hvort einhvað sé gott eða vont fyrir mig, en ég er að æfa mig að stoppa mig af í því að búa til sögu eða hugmynd um það, því þær eru bara það sem ég sé og upplifi, en það er bara brotabrot af því sem raunverulega ER.

Ég get ekki séð og upplifað umfram sjálfa mig.

Þess vegna vel ég að upplifa heiminn meira í söguleysi og taka augnablikinu eins og það ER.

Hugmyndir mínar um fólk eru bara hugmyndir, hugmyndir mínar um heiminn eru bara hugmyndir, hugmyndir mínar um mig sjálfa eru bara hugmyndir.

Hið sama á ekki við um gjörðir, en þær eru ekki hver við erum, heldur endurspegla það sem er hjálplegt/gott fyrir okkur og það sem er óhjálplegt/vont fyrir okkur.

Gjörðir fólks eru ekki hver við erum, en þær geta endurspeglað hvernig við veljum að hlúa að okkur sjálfum og öðrum.

Það gefur okkur vísbendingar um það hvort við viljum vera nálægt viðkomandi, setja viðkomandi mörk og viðhalda þeim eða hvort við viljum alveg forðast viðkomandi. Það hefur ekkert að gera með virði, því við erum öll verðug.

En ég vel að horfa á þetta svona: allar hugmyndir um það hvað fólk ER, eru eins og yfirhafnir, við sjáum þær og upplifum, en við höfum ekki hugmynd um hvað leynist undir. Þar er kjarninn, þar er ljósið.

En það er óvissa í söguleysi. Því hver erum við þá? Núna. Hér. Upplifun. Ást og kærleikur.

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.