CPTSD og skilningur

Eitt í viðbót, bara því mér þykir svo vænt um orðin hennar og hún útskýrir þetta svo vel ❤

Þetta er súperflókið meirihluta tímans, en það eru góðir og slæmir dagar líkt og allir upplifa ❤

Það sem ég vildi helst koma inná með póstinum í gær var einfaldlega það að í verstu köstunum, þar sem aftengingin og óttin verða bara hálflamandi, að þá er það eina sem viðkomandi er að gera, að lifa af, að reyna að lifa af þetta augnablik. Einhvað meira en það (í verstu köstunum) verður bara of mikið. Það er erfitt að útskýra, þetta er flókið.

En meirihluta tímans hef ég föst tök á þessu og get búið til öryggi innra með mér og finn þá fyrir aðeins meira öryggi ytra við og er þá auðveldara að gera meira en bara að lifa af. Það hljómar kannski skringilega en heilinn upplifir sig í stórhættu og hefur ekkert annað í huga en að lifa ógnina af (óháð því hvort hún sé raunveruleg eða úr fortíð). Áfallastreita er nefninlega form af kvíða, en ekki kvíða fyrir það hvað gæti gerst, heldur kvíða fyrir að upplifa aftur það sem hefur þegar gerst áður og stundum líður mér eins og ég tengi ekki við líkamann minn eða umhverfið mitt, því ég er einhversstaðar allt annars staðar í yfirþyrmandi ótta.

En ég tala bara fyrir sjálfa mig. Ég hef bara mína eigin innsýn útfrá eigin reynslum og upplifunum.
En það sem ég á við varðandi það að gefa ráð eins og að fara bara út að ganga, hugsa bara jákvætt og sleppa tökum á fortíðinni, það býr til vegg. Því þær hugmyndir eru oft settar fram eins og viðkomandi hafi aldrei heyrt þær áður, sé ekki meðvitaður um þær eða sé ekki að reyna að hlúa að sér sjálfur, sem býr til tilfinningu um vantraust til þess að viðkomandi sé ekki sjálfur að velja að hlúa að sér, að hann velji meðvitað sjálfur að sleppa ekki, hugsa neikvætt og halda sig inni. Að það sé ekki afþví það er viðkomandi ofviða eins og er eða að innri öryggiskenndin sé brothætt og allt ytra filterað sem stórhættulegt.

Þegar ég sjálf er í verstu köstunum mínum, þá þarfnast ég bara að vita að ég sé örugg, að ég sé velkomin, að ég sé elskuð, að þetta sé eðlilegt, að þetta segji ekkert um það hver ég er, þetta sé bara einhvað sem ég er að upplifa og það er allt í lagi að upplifa tilfinningarnar sínar.

Fyrst og fremst þarfnast ég þess frá sjálfri mér. Það er mikilvægast.

En ef fólk vill hjálpa og velja að vera til staðar, þá er ekkert annað sem þarf en að vita að maður sé elskaður og skipti viðkomandi máli, alveg eins og maður er og það sé allt í lagi að eiga erfiða daga, við þurfum öll að hvílast og anda inn á milli.

Í verstu köstunum skil ég ekki sjálfa mig og upplifi mig ekki örugga sem ég sjálf innra með mér. Þá skil ég ekki afhverju þetta er að gerast og afhverju ég get ekki bara farið í göngutúr, sleppt takinu og verið jákvæð og þegar ég mæti skilningsleysi ytra við mig (sem er samt alveg skiljanlegt því þetta er súper flókið og ruglandi stundum) að þá líður mér bara enn verr, finn enn minna öryggi. Þá finn ég ekki öryggi fyrir því að mega vera eins og ég er, akkúrat núna, hjá mér og finn heldur ekki öryggi ytra, því það er erfitt að skilja, ég sjálf skil þetta ekki einu sinni. En það skapar fjarlægð að mæta skilningsleysi og að benda á allt það sem ég „ætti“ að geta gert þegar ég er að reyna allt sem ég get til þess að halda mér á jörðinni.

En það fer líka allt eftir því hvernig hlutirnir eru orðaðir. Það skiptir máli að það sé jafnvægi, að enginn setji sig á hærri eða lægri stall. Við þurfum að nálgast hvort annað, sýna skilning, spyrja hvað fólk þarf og hvort það þarfnist einhvers ef við viljum vera til staðar. Ég sjálf upplifi mig smáa í mínum köstum og ef einhver reynir að segja mér hvað hann á auðvelt með hlutina og afhverju geti ég ekki bara gert það líka, þá upplifi eg mig bara eins og pöddu. Því ég veit ekki svörin og ég upplifi mig oft minna virði fyrir það að geta ekki bara gert hlutina eins auðveldlega og þeir hljóma. Ég veit það er minn eigin filter og ég er að vinna í honum en það koma erfiðir dagar inn á milli rétt eins og hjá öllum en það er þá sem ég þarfnast öryggis og skilnings mest. Ekki dómhörku eða skilningsleysi eða „ef ég væri í þessari stöðu þá myndi ég..“ svörum. Því þetta er ekki svona einfalt.

Svona svör fá mig bara til að óska þess að ég væri öðruvísi og það er ekki það sem ég sjálf þarf á að halda í sárum, ef fólk vill vera til staðar.

En ég skrifa bara útfrá mér og kannski tengir enginn, kannski hjálpa svona ráð einhverjum öðrum, ég veit það ekki. Svona hlutir eru persónubundnir og svo er dagamunur á því hverju er hægt að taka við, hvað er hægt að gera.

En það sem ég vildi senda út í heiminn, var að reyna að stíga jafnt til fóta með þeim sem okkur þykir vænt um. Reyna að minna okkur á að við vitum ekki allt og við höfum ekki upplifað allt, og ekki eins og neinn annar hefur gert það. Við erum öll jafn verðug og þó svo einhver eigi erfiðara með einhvað en einhver annar, þá breytist það ekki. Við erum öll jafn awesome fyrir því.

Það er magnað að heyra orðin „ég skil, eða ég er að reyna að skilja, eða ég get aldrei skilið alveg en mig langar að læra, eða ég hef líka átt erfiða daga, það er eðlilegt og það breytir því ekki hversu miklu máli þú skiptir, mér finnst gott að gera x þegar mér líður illa en ég skil að það er erfitt núna og það er allt í lagi að taka smá stund til að hlúa að sér, það er alveg nóg“

Afhverju getur þú ekki bara
Mér finnst þú ættir bara
Það er ekkert mál að bara
Þú ættir alveg að geta bara
Mér finnst ekkert mál að bara
Þú verður bara
Gerðu bara

Tökum bara í burtu, því hlutir sem eru bara fyrir einhverjum öðrum er kannski ekkert bara fyrir hinum.
Tökum ættir að geta í burtu, því við þurfum öll að finna fyrir öryggi til að þess að þora og læra. Það tekur tíma og það er bara allt í lagi með það.

Við getum ekki upplifað líf einhvers annars eins og hann upplifir það. Reynum að staldra við áður en við förum að einfalda eða smækka einhvað sem er miklu meira en það og miklu flóknara en það. Við erum öll svo mismunandi en við eigum það öll sameiginlegt að þrá öryggi, skilning, samkennd, hlýju og ást.

Ef við skiljum ekki einhvað, veljum þá að læra, frekar en að dæma útfrá því sem við þekkjum ekki.

Spurjum okkur sjálf „er ég að hjálpa viðkomandi til þess að mér líði sjálfri/sjálfum betur eða er ég virkilega að reyna að hjálpa viðkomandi og vera til staðar“
Það er líka allt í lagi að segja bara „ég veit ekki“ eða „ég veit ekki hvað þú þarfnast en mig langar að vera til staðar fyrir þig“

Mig langaði að skrifa þennan pistil til að upplýsa, ekki dæma og ég vona að ég hafi komið því rétt frá mér. Því ég veit að öll hjálp kemur yfirleitt frá kærleika og meinar vel.

Til þess að vera til staðar fyrir okkur sjálf og aðra, æfum okkur að velja skilning umfram allt og minnum okkur á að við höfum öll virði, alltaf, í allri líðan og öllum aðstæðum.

Við erum alltaf nóg og við höfum alltaf verið nóg.

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.