CPTSD og að hjálpa

Var ekki viss hvort ég ætlaði að deila þessu, en fannst þetta mikilvæg skilaboð til að senda út í heiminn.

Það fylgir því oft mikil skömm að tala um CPTSD og PTSD, því ef ég tala útfrá sjálfri mér þá hef ég oft hugsað „þetta var ekki svona slæmt, þetta ætti ekki að valda því að ég hafi verið greind með króníska áfallastreituröskun“ og það er oft erfitt að tala um það.
Tilfinningin að hafa dregið niður samræður bara með því að segja frá því, því oft veit fólk ekki hvernig það á að bregðast við. Það myndast bara spenna og ég vil þá helst bara láta mig hverfa.

Mikilvægasta sem ég veit er einfaldlega að koma ekkert öðruvísi fram við viðkomandi. Því um leið og maður finnur vorkunn þá finnst manni maður bara vera smár. Eða þannig er það allavegna hjá mér.

Og PTSD einhvers annars er ekki það sama og PTSD hins, sama á við um CPTSD. Það birtist mismunandi hjá hverjum og einum. Sumir fúnkera með því betur en aðrir og aðrir ekki. En við erum öll jafn verðug fyrir því.
Það á líka við allt annað andlegt, tilfinningalegt og líkamlegt sem við erum að glíma við frá degi til dags.

Verum til staðar, hlustum, tölum, án þess að dæma og án þess að finnast við þurfa að koma með ráð, því stundum þarf fólk bara að tala. Spyrjum fyrst hvort viðkomandi sé að leitast eftir ráðum.

Því ráð eins og „vertu bara jákvæð“
„Þú verður bara að sleppa tökum á fortíðinni“
„Farðu bara í göngutúr“

O.s.frv. eru hlutir sem við erum oft með sjálf á heilanum allan liðlangan daginn:

„vertu bara jákvæð, vertu bara jákvæð, mundu eftir því að vera jákvæð, nei við neikvæðar hugsanir, finna birtuna, vera jákvæð, þú ert awesome og þú getur þetta, það er einhvað að, nei ég vel að finna birtuna, ég er hrædd, það er einhvað að, nei manstu þú verður að finna birtuna“

„Afhverju get ég ekki bara sleppt, ég verð að sleppa, hvernig sleppi ég, afhverju get ég ekki sleppt, ég er að æfa mig að sleppa, ég þarf að sleppa, ég vil ekki hugsa um þetta, ekki hugsa um þetta, bara fókus á núna, bara sleppa, ég er hrædd, ég vil ekki hugsa um þetta, afhverju er ég að hugsa um þetta, ég þarf að sleppa“

„Ég þarf að fara í göngutúr í dag, afhverju er ég ekki farin í göngutúr, ég veit að það er gott fyrir mig að fara í göngutúr, ég get ekki staðið á fætur, ég þarf að fara í göngutúr, það et hættulegt að fara í göngutúr, en það er gott að fara í göngutúr, ég er hrædd en ég verð að fara í göngutúr, það mun einhvað gerast ef ég fer í göngutúr, hættu að hugsa um það sem gæti gerst og farðu bara í göngutúr, en ég get ekki hreyft líkamann af hræðslu, hvernig á ég að fara í göngutúr“

Stundum er bara nóg að vera til staðar, ekkert meira.
Því þegar þessi ráð koma þá eru sömu skilaboð að endurtakast í ytra umhverfi og eru að endurtakast í innra umhverfi. Og þau skilaboð sem ég sjálf heyri oftast eru að ég sé ekki að gera nóg, sem getur svo filterast í gegnum hulu skammarinnar yfir í að ég sé sjálf ekki nóg, sem getur svo filterast yfir í að ég sé verri en allar manneskjur í heiminum og ég eigi engan samastað.

En það er mitt, það eru mín innri skilaboð og sár sem ég þarf og vel að hlúa að. Það ber enginn annar ábyrgð á því nema ég sjálf. Vandamálið er að ég vildi að ég gæti bara lagað þetta með því að hugsa jákvætt, fara í göngutúr og sleppa fortíðinni. Ég skildi sjálf ekki lengi afhverju það virkaði ekki þannig. Ég upplifði og upplifi oft skömm yfir því að geta ekki bara lagað þetta og gert það sem mér er sagt að sé hjálplegt, skömm yfir því að vera hrædd við heiminn, hrædd við að hreyfa líkamann, hrædd við minningarnar mínar, hrædd við hugsanir og tilfinningar mínar þegar allt rökrétt segir mér að það meikar ekki sens, ekki núna, ekki í dag.

Grátköst upp úr þurru sem kalla fram ólýsanlega skömm, sérstaklega þegar ég reyni að útskýra afhverju, þá skammast ég mín ennþá meira. Þetta er flókið og þetta meikar oft engan sens og ég skil þetta ekki sjálf, sérstaklega tilfinningarnar. En þetta ER og ég þarf að hlúa að þessu. Ég vil hlúa að þessu. Öll sár eiga sér uppruna og ég þarf að hlúa að þeim uppruna. Ég sjálf.

En á meðan ég er að jafna út innri skilaboðin frá nánast alfarið neikvæðum skilaboðum um mitt eigið virði yfir í uppbyggilegum og jákvæðum skilaboðum um mitt eigið virði, að þá ef þú vilt hjálpa, þá er ég ekki að byðja um neitt annað en að vera til staðar. Ef ég vil ráð þá byð ég um þau, en ég á nóg um mín eigin ráð sem ég reyni að lifa eftir á hverjum degi. Þannig hef ég komið mér á fætur á hverjum degi, þannig hef ég náð að hafa samskipti, þannig hef ég náð að stunda nám við það sem skiptir mig máli. Með mínum eigin verkfærum.

Þegar ég á slæman dag, þá á ég erfitt með að nýta mér verkfærin mín, þá þarfnast ég ekki frekari verkfæra. Þá þarfnast ég að ná mér í ró og öryggi.

Þegar ég fæ svona ráð þá upplifi ég það oft sem vantraust og þá líður mér eins og það sé þá horft yfir alla þá vinnu sem ég hef laggt á mig til þess að byggja sjálfa mig upp, frá því að vera gjörsamlega örmagna og vonlaus og yfir í að upplifa von og eftirvæntingu yfir framtíðinni. Bara því þennan eina dag gat ég ekki meira. Bara því þennan eina dag var það besta sem ég gat gert miðað við líðan, einfaldlega það að hvíla mig, því vaka kallaði bara fram aftengingu við umhverfið eða sjálfa mig. Eða því þennan dag gat ég ekki hlúið að hugrofseinkennunum og var í endurupplifun minninga eða tilfinninga meirihluta dagsins og gat varla talað eða hreyft mig af hræðslu. Við eigum öll slæma daga. Stundum er það eina sem við getum gert, einfaldlega það að anda. Og það er nóg. Og það er bara allt í lagi. Og stundum þörfnumst við þess ekki að heyra hvað annað við „ættum“ að geta gert. Því ég get næstum lofað því að það er rödd þarna innra með að segja okkur það nákvæmlega sama. En þetta er dagurinn sem við höfum í dag, orkan sem við höfum í dag, plássið sem við höfum í dag.

En ég get auðvitað bara talað útfrá sjálfri mér og ég veit líka sjálf að það meinar enginn neitt illt með því að bjóða fram ráð. Það er fallega hugsað. Þannig fúnkerum við sem manneskjur, við sjáum vandamál, við finnum ráð sem hefur virkað fyrir okkur sjálf til að laga vandamálið. Það er það sem við gerum fyrir fólkið sem okkur þykir vænt um. Ég hef sjálf gert það og það er bara æfing að stoppa sig af og reyna setja sig í spor viðkomandi, með það í huga að maður getur aldrei alveg sett sig í spor viðkomandi. Málið er að við erum svo ótrúlega mismunandi og hvernig einn tæklar hlutina er ekki endilega eins og annar tæklar þá.

Við höfum öll mismunandi fortíð, reynslur, uppeldi, áföll, tilfinningar, hugsanir, minningar, lærdóm… osfrv. Og við bregðumst öll við útfrá því hvernig við höfum og erum sjálf að upplifa heiminn, okkur sjálf, hvað við þörfnumst og hvað við viljum. Og við þurfum öll mismunandi nálgun.

Það vill enginn líða illa, það vill enginn líkamlega verki, yfirþyrmandi tilfinningar og andlega erfiðleika. Það velur það enginn.

Til þess að hjálpa,

Í staðinn fyrir að telja okkur trú um að við vitum nákvæmlega hvað fólk þarf að gera til að hlúa að sér og að það sé ekkert mál því það var ekkert mál fyrir okkur sjálf einhvern tímann, að þá er oft það eina sem þarf er að hlusta, vera til staðar, í skilning, í samkennd og kærleika. Bara það. Ekkert meira. Það er nóg.

Við þurfum sjálf að hlúa að okkur fyrst og fremst, aðrir geta einfaldlega bara verið til staðar ef þeir velja og vilja það. Við þurfum að finna fyrir trausti frá þeim sem okkur þykir vænt um yfir því að við getum gert hlutina sjálf, erum að gera eins vel og við getum sjálf og vita að við getum leitað til þeirra ef við þurfum hjálp. En við verðum sjálf að velja að hlúa að okkur sjálf, það getur enginn gert það fyrir okkur. Við verðum sjálf að fá að stýra þeirri vegferð.

 

//m.youtube.com/watch?v=XdFDryTn0Pw&fbclid=IwAR27aAWmPBt1r4IMVEvP4TgA5XYu4PJCKXNTCxjX1EcLN-7ntP8ejF6yO4k&feature=youtu.be

 

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.