Að segja nei og setja mörk

„Mörk þýða ekki: ég elska þig ekki.

Mörk þýða: ég ætla að elska þig og ég ætla að elska mig samtímis“

– Cleo Wade

Að þora að segja nei og setja mörk.
Lengi vel taldi ég mig vera að gera einhverjum illt með því að segja nei. Ég hræddist að sjá vonbrigðin í augum einhvers annars ef ég myndi segja nei. Fyrir mér voru vonbrigði það sama og að valda einhverjum sársauka. Ég taldi það vera hættulegt gagnvart sjálfri mér eða öðrum. Það passaði oft ekki við þáverandi aðstæður en tilfinningin var svo sterk.

Ef ég svo treysti mér í að segja nei þá leið mér hræðilega og ég eyddi löngum tíma í að dvelja í því hvernig ég gæti bætt upp fyrir nei-ið. Ég kom mér oft í vandræði með því að segja já, þegar ég vildi ekkert annað en að segja nei.
Ég treysti ekki, taldi mig þurfa að bæta upp fyrir það hver ég væri og að ég væri kannski ekki að gera nóg til þess að öllum liði vel í kringum mig.

En með tíma og uppbyggingu trausts lærði ég smám saman að nei er líka form af ást, nei er líka einhvað til þess að byggja á og nei hjálpar okkur að vernda eigið rými og setur mörk fyrir það hverjum við hleypum inn í það. Nei kennir okkur hvernig samskipti við viljum eiga. Nei er gjöf, hvort sem hún er til okkar sjálfra eða annara.

Nei tekur ekki í burtu virði eða ást. Að segja nei fyrir okkur sjálf er ást, til okkar sjálfra fyrst og fremst, en það tekur ekki frá því að hvert og eitt okkar hefur virði. Virði okkar sjálfra og annara verður aldrei tekið í burtu, það er ekkert til þess að semja um, það bara ER. Að fá nei er lærdómur. Hvert við getum farið með okkar eigið rými og hvernig.

Með því að leyfa okkur að segja nei og setja mörk þá sköpum við innra öryggi og traust til okkar sjálfra. Með því að gefa öðrum nei (og virða nei sem okkur er gefið, því okkur ber að virða mörk annara) þá búum við til og lærum vegvísi fyrir það hvernig við getum átt virðingarfull, skilningsrík og heilbrigð samskipti á jöfnum grundvelli. Það býr til stöðugleika og traust að vita hvar allar línurnar eru.

Að hleypa hvort öðru að því að læra á það sem við viljum og þurfum og hvað ekki. Að elska og virða hvort annað sem mannverur í öllu því virði sem við ERUM, hvert og eitt okkar. Það er form af ást.

Ég hef því áttað mig á því hversu mikilvægt það er að ég hræðist ekki óttann. Þá á ég við að æfa mig að velja meðvitað að leiðbeina mér frá því að óttinn sjálfur, einn og sér, sé hættulegur. Því óttinn er ekki „vandamálið“ heldur hvernig ég bregst við honum og tekst á við hann meðvitað í líkamanum, innra með.

Ég reyni því í dag að vera með honum, veita honum athygli, finna einn stað í líkamanum þar sem er pínu meiri ró og öryggi og færa allan fókus þangað á meðan ég er hjá óttanum.

Það hjálpar líkamanum að muna hvernig það er að vera í ró og öryggi ef það er einhver partur af líkamanum, hvort sem það er bara ein tá eða hvað sem er, sem ég upplifi pínu minni sársauka, pínu minni spennu, pínu minna eirðarleysi en í meirihluta líkamans sem ég get fært athyglina að og haldið henni þar. Ég get jafnvel reynt að ímynda mér þennan stað/punkt/blett á líkamanum eins og risastórt fjall, stöðugt og ég get stutt mig við það.

Ég reyni að fela óttann ekki eða bæta upp fyrir hann, sama hvaða ytri skilaboð eru að berast til mín eða eru túlkuð í huganum. Ég bara ER. Í þessari tilfinningu, hún er ekki hver ég ER, en hún er partur af mér núna. Ég flý hana ekki. Ég ER í líkamanum og ég hef virði, akkúrat núna, alveg eins og mér líður, óháð öllu öðru.

Að segja nei er ógnvekjandi, en ég er að læra að vera hjá óttanum og byggja öryggi innra með svo ég geti byggt öryggi sjálf ytra.

Ég vel að finna fyrir því að ég er núna að upplifa ótta. Ég skanna umhverfið og tek eftir því að það er engin raunveruleg ógn eða hætta í kring og þess vegna er öruggt fyrir mig að vera hjá óttanum, að berjast ekki á móti honum, að deifa mig frá honum eða flýja hann. Ég er að æfa mig að vera hjá honum.

En það sem er svo mikilvægt er að ég er í öruggu umhverfi í dag en ég þarf einnig að skapa öryggi innra með mér, minna mig stöðugt á eigið virði, hlúa að sjálfri mér, finna að ég er velkomin inní þessum fallega og hlýja líkama. Það er allt æfing. Sem krefst þess að ég sýni lærðum leiðum til þess að verja mig skilning á meðan ég leiðbeini þeim í aðra átt.

Ég er að læra að búa til innra öryggi með öllu því sem ég er að gera til að hlúa að sjálfri mér. Fyrsta skrefið var að setja mörk og standa við mörkin, fyrir sjálfa mig, ekki til að meiða neinn annann. Því með því að setja mörk bý ég til nauðsynlegt rými og öryggi fyrir mig til að vaxa og dafna og hlúa að sjálfri mér. Ég þarfnast ytra og innra öryggi til þess að treysta mér í að fara áfram.

Þess vegna er svo mikilvægt að setja mörk og standa með sjálfri mér og segja nei. Fyrir sjálfa mig og fyrir aðra. Því þegar ég hlúi að sjálfri mér er ég einnig betur í stakk búin til þess að hlúa að öðrum ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

 

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.