Ítarlegra, tilfinningalæsisæfing

Fyrir þá sem vilja skilja sínar eigin tilfinningar betur mæli ég með að skoða þetta 🙂

//www.instagram.com/richardgrannon/

Ég fylgist mikið með Richard Grannon, en ég vel og hafna því sem á við fyrir mig og það sem á ekki við.

Hann fjallar mikið um mikilvægi þess að þekkja inná eigin tilfinningar og hvernig það hjálpar okkur að hlúa betur að okkur sjálfum.

Hér á þessum link (ekkert annað þarna inni en þessi æfing) er hann búinn að búa til æfingu þar sem hægt er að velja myndir af tilfinningum sem þú finnur og leiðir til þess að skilja þær betur. Einnig er hægt að ýta á mynd sem á stendur somatic access to emotions, en þar er hægt að ýta ef við erum ekki alveg viss hvaða tilfinningu við finnum. Svo er það bara að fletta.

Hann gerir myndböndin í æfingunum viljandi smá silly, því markmiðið er ekki að þetta sé íþyngjandi æfing ♡

En auðvitað geta tilfinningar verið mjög sársaukafullar og ég enda oft í tárum eftir að gera svona æfingu.

En það er heilandi og markmiðið er ekki að það meiði heldur veiti úrvinnslu, skilning og samkennd gagnvart okkur sjálfum.

Að við gefum tilfinningum virði og pláss og staðfestingu á því að þær eru þarna, sama hve vandræðalegt, skömmustulegt, hallærislegt, sársaukafullt eða hlægilegt við upplifum það að þær séu þarna. Þær eru þarna og það er allt í lagi.

Við höfum enga stjórn á því, einungis því hvernig við hlúum að þeim. Þær eru ekki þarna til að meiða, þær eru úrvinnsla, skilaboð, reynsla, leiðarvísar og á sinn hátt, verndarar.

Þær eru partur af okkur sem þarf að fá pláss, þær segja ekkert um okkar virði, en að gefa þeim pláss hjálpar okkur að leyfa okkur sjálfum og þeirri upplifun sem við erum í að fá pláss, alveg eins það er, alveg eins og okkur líður, akkúrat núna, alveg nóg.

Það hefur hjálpað mér ólýsanlega að kynnast betur tilfinningaheiminum innra með mér, að finna sárin, hvað þau þarfnast og hvernig ég get hlúið að þeim.

**

Eitt samt sem ég verð að bæta við er að oft finnum við tilfinningar sem virðast ekki passa við augnablikið, eru ýktar eða yfirþyrmandi. Þær tilfinningar (ýktar tilfinningar eru tilfinningar sem hafa ekki fengið pláss) koma líklegast frá einhverju sári úr fortíð sem hefur ekki verið heilað.

Í þessari æfingu mælir Richard með því að skrifa niður 3 reglur fyrir það hvernig við forðumst að upplifa x tilfinningu aftur: ég mun aldrei gera x/ég mun alltaf gera x til að koma í veg fyrir að upplifa x tilfinningu. Það á alls ekki alltaf við og ég myndi persónulega ekki fylgja þeim parti æfingarinnar sjálf.

Það setur alltof mikið álag á að stýra einhverju sem við höfum enga stjórn á.

Sem dæmi: tilfinningin skömm getur komið því við virkilega gerðum einhvað sem við skömmumst okkar fyrir og viljum alls ekki gera það aftur því það hafði vondar afleiðingar og meiddi okkur sem og aðra.

Tilfinningin skömm getur líka komið útaf einhverju sem er ekkert skammarvert og kemur upp til að forðast höfnun og heldur aftur af okkur þar sem er engin þörf á því að haldið sé aftur af okkur. Jafnvel bara í eðlilegum samskiptum við fólk.

Ýktar tilfinningar eru sár og við getum ekki sett reglur fyrir okkur til að forðast þær, einungis hlúið að þeim. Það er t.d. alltof mikið álag að setja þá reglu að ég muni aldrei segja neitt vandræðalegt aftur því það olli mér skömm einu sinni.

Reglurnar eiga mun meira við það sem er raunverulega skammarvert en línan er örþunn varðandi það sem við upplifum sem x og hvað er raunverulega x. Svo persónulega myndi ég einungis einblína á þá parta æfingarinnar sem snýr ekki að því að skapa reglur og einblína fremur á úrvinnslu ♡

Allavegna á meðan það er óvíst hvort tilfinningin eigi raunverulega við aðstæðurnar og hvort það sé þá raunveruleg þörf fyrir breytt hegðunarmynstur fyrir eigið öryggi og öryggi annara.

Aldrei og alltaf (burtséð frá siðferðislegum gildum) fyrir gjörðir eru orð sem hafa ekki hjálpað mér í minni batavinnu.

Við gerum bara það besta sem við getum gert á hverjum degi og lærum og vöxum með hverjum mistökum með því að horfast í augu við þau. Því það er enginn fullkominn og það meiðir okkur bara að reyna að hlutgera okkur á þann hátt ♡

Við erum flóknari en alltaf og aldrei. Við erum fullkomlega ófullkomin og það er alveg nóg.

Í stað þess að nota alltaf og aldrei myndi ég frekar velja að segja: ég er að læra/ég er að æfa mig að velja að í stað þess að bregðast við tilfinningu með hegðun, að velja fremur að hlúa að henni og því sem hún þarfnast ♡

♡♡

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.