Hvað býr bakvið sársaukann?

Hvað býr bakvið tilfinningarnar? Hvað býr bakvið það hvernig ég túlka þær? Hvað býr bakvið það hvað ég tel þær segja um mitt virði?

Hver er rótin? Hvaða tilfinning er sterkust?

Ég veit ég þarf að hlúa að þessum tilfinningum, horfast í augu við þær og vera með þeim.. en hvernig?

Ég upplifi ótta þegar kemur að því að hleypa fólki að mér, einhvern veginn á ég auðveldara með að tala um það sem kom fyrir mig heldur en það hver ég er. Jafnvel bara að segja frá því hvað er uppáhaldsliturinn minn.. hrædd við að vera dæmd óháð því hvort það sé raunhæft. En það hefur verið raunverulegt fyrir mér.. í langan tíma.

Hvað býr bakvið óttan? Sorg.. vanmáttarkennd..óöryggi.. reiði?.. minnimáttarkennd.. efi.. einsemd.. vonleysi.. stjórnleysi.. stress.. kvíði.. og sú sársaukafullasta.. höfnun.

Ég skrifa tilfinningarnar mínar niður á næstum hverjum degi (ef ég man eftir því). Þær fá staðfestingu á því að þær eru þarna og að þær hafa virði og ég finn fyrir þeim.

Ég skrifa niður a.m.k. 3 atburði, stóra eða smáa eða hvorki né, sem vöktu upp tilfinningar. Svo fyrir neðan hvern og einn skrifa ég tilfinninguna sem ég fann sterkast fyrir og þar fyrir neðan allar aðrar tilfinningar sem ég tengi við sem búa á bakvið þessa stærstu.

Þær eru allar að reyna að segja mér einhvað og með því að gera þessa æfingu hef ég lært að skilja þær betur. Höfnun er yfirleitt sterkust.

Sorgin kemur upp yfir því að ég upplifði djúpstæða höfnun og er hrædd við að treysta, upplifi einsemd, vanmáttarkennd og áfram má telja.

Reiðin kemur upp yfir því að þetta hafi gerst og sem skjöldur til þess að vernda mig frá því að það gerist ekki aftur, ýtir mér burtu frá þeim sem gætu meitt mig (eins ólíklegar aðstæður og það eru) og vill að ég verndi mig betur.. en ég hef grafið reiði djúpt niður og á oft erfitt með að leyfa mér að vera með henni þegar hún kemur.

En það er hægt að fara í gegnum reiði á heilbrigðan hátt, án þess að taka pláss frá öðrum og ég er hægt og rólega að leyfa mér að fara í gegnum það.

Svo spyr ég mig: hvers þarfnaðist ég/þarfnast ég er ég upplifi þessa tilfinningu og þau skilaboð sem ég tel hana senda mér um mitt eigið virði.

Sorg: einsemd. Ég æfi mig að segja við sjálfa mig aftur og aftur á meðan ég tek utan um mig sjálfa „þú ert ekki ein, ég er hér, ég er hjá þér“. Undirmeðvitundin, barnið innra með hefur þá meðvitundina hjá sér og er ekki ein að fara í gegnum sársaukan. „Þú ert ekki ein, ég er hjá þér, þetta er allt í lagi, þú ert allt í lagi, ég elska þig“.

Reiði: varnarleysi. Ég æfi mig að segja við sjálfa mig aftur og aftur „þú ert örugg, ég vernda þig, ég er hjá þér, ég mun passa upp á þig, með því að gera þessa vinnu er ég að læra að vernda þig sjálf, ég er að læra að búa til öryggi fyrir þig sjálf“.

Höfnunin: Höfnunin er samblanda af öllum þessum tilfinningum, yfirþyrming, að tilheyra ekki, að mega ekki taka pláss í heiminum, að vera ýtt út í horn í einsemd og varnarleysi, það er dýpsta tegund af höfnun og sú höfnun sem ég finn sterkast fyrir. Sú trú að það sé einhvað að mér, að ég sé skemmd, að ég sé yfirgefin og að allt í kringum mig vilji að ég láti mig hverfa.

Þetta er erfiðast en þegar þetta tekur yfir þá endurtek ég aftur og aftur „þú ert velkomin, skilaboð annara gefa þér ekki virði, þú ert nóg alveg eins og þú ert“ og ég reyni að setja sjálfri mér mörk með því að segja nei við niðurbrjótandi skilaboðum um mitt virði, segja nei við þörfinni að eltast við að sjá mitt virði í augum annara, segja nei takk, því ég hef nóg með að hlúa að þeim skilaboðum sem eru innra með mér og það er ekki pláss fyrir meira. Ég hef lært það að ég brotna bara niður ef ég tek of mikið inn á mig, því sárin innra með mér eru svo sterk og svo djúpstæð og áhrifamikil.

Svo ég reyni meðvitað yfir daginn að minna mig á að ég er velkomin og ég segi nei takk við þann part af sjálfri mér sem reynir að brjóta mig niður, ég brosi til hans innra með mér því ég skil að hann er bara að reyna að vernda mig, en þetta eru gömul skilaboð og þau vernda mig ekki lengur. Núna er ég fær um að vernda mig sjálf því ég er fullorðin og ég er ekki lengur þessi litla stelpa, á þessum stað, í kringum sama fólk, í kringum sömu aðstæður og nú get ég lært að vera til staðar fyrir mig sjálf.

Ég endurtek þessi skilaboð aftur og aftur „ég elska þig, þú ert velkomin“ og ég minni mig á að segja takk við sjálfa mig fyrir að velja meðvitað að senda mér uppbyggileg skilaboð og hlúa að þeim skilaboðum sem brjóta mig niður. Ég endurtek þessi orð aftur og aftur, þegar ég þarfnast þeirra ekki, þegar það er þreytandi, þegar ég trúi þeim ekki en þá þarf ég mest á þeim að halda. Ég held áfram aftur og aftur, reyni að gefa sjálfri mér það sem ég þarfnaðist og það sem ég þarfnast núna og ég held áfram að segja takk, aftur og aftur takk.

Þetta eru þau verkfæri sem ég nýti mér mest megnis í dag og ég er innilega þakklát fyrir að hafa leitað þau uppi því ég er ómeðvitað farin að tala fallegra til sjálfrar mín heldur en áður fyrr, bara með því að minna mig á að þetta eru sár, ekki mitt eigið virði, heldur sár sem ég þarf að hlúa að, sár sem munu ekki gróa nema ég hlúi að þeim, sár sem völdu ekki að verða til en þurfa núna mína hjálp til þess að gróa.

 

En eins og ég segi alltaf, þá er þetta allt æfing og ég er stöðugt sjálf að æfa mig og mun eflaust gera alla mína ævi.

Þetta er ævilangt ferli, að hlúa að því hver ég ER og passa upp á eigið rými með því að setja mörk og æfa samkennd og skilning á hverjum degi ♡

 

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin. ♡

Mikilvægasta sambandið sem við ræktum er sambandið við okkur sjálf. Það er erfiðara að búa til rými fyrir aðra þegar við búum ekki til rými fyrir okkur sjálf.

Við getum ekki hellt úr tómum bolla ♡

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.