Velkomin?

Ég hef unnið í því í langan tíma að leyfa mér að sjá að ég er nóg, alveg eins og ég er, að allt sem ég er er nóg. Ég minni mig stöðugt á að ég elska mig, að ég skipti máli, að ég má taka pláss í þessum og heimi og ég hef smám saman leyft mér að búa til rými fyrir það hver ég ER.

En ég hef ennþá átt erfitt með finnast ég örugg að stíga út fyrir það rými sem býr innra með mér, að stíga inn í allt það sem er ytra. Að þora að VERA með sjálfri mér og vera séð ytra við mig sjálfa.

Í gegnum lífið hef ég horft á sjálfa mig og mitt eigið virði í gegnum augu annara en ég hef smám saman síðustu ár verið að læra að þó ég sé ekki nóg fyrir einhverjum öðrum að þá þýði það ekki að ég sé ekki nóg.

Stundum passar fólk ekki saman, stundum passar það ekki akkúrat núna, stundum eru tilfinningarnar ólíkar eða missterkar, stundum eru þarfir ólíkar og hvernig eða hvort þeim er mætt, stundum er vilji ólíkur og hvort eða hvernig honum er mætt, stundum eru óunnin sár.. það eru ótal ástæður fyrir því að stundum bara passa hlutirnir ekki, eða passa ekki núna. Það hefur ekkert með virði að gera, því við erum öll verðug.

Höfnun er alltaf sársaukafull og það er erfitt að sannfæra sjálfa mig um að ég sé nóg í þeim augnablikum þegar ég finn það ekki hjá öðrum, hvort sem það er raunin eða endurspeglun útfrá mínum eigin sárum höfnunar.

Sama hvað ég veit mikið um það að aðrir endurspegla ekki hver ég er og að ég elska mig eins og ég er og að við erum öll svo fallega mismunandi, að þá er það erfitt að minna mig á þegar ég er lítil í mér, við það að brotna niður og full af sorg.

Það er mikil sorg sem býr innra með mér, því líkaminn er fullur af sorg sem ég hef bælt niður og ekki unnið úr en vegna þess að ég hef sjálf valið að leita eftir tilfinningum, vinna úr þeim og hlúa að þeim, að þá er ansi stutt í þær.

Þegar ég finn því fyrir miklum tilfinningum og ef ég er ekki í rými sem ég get treyst fyrir tilfinningalegri úrvinnslu þeirra, að þá fæ ég sterka tilfinningu fyrir að fela mig, því ég treysti ekki rýminu og sjálfri mér í því.

Þegar það gerist þá fer ég yfirleitt utan við sjálfa mig, loka fyrir allt og líður eins og ég sé ekki á staðnum. En ég vil það ekki svo ég reyni yfirleitt að tala hlýlega til sjálfrar mín til að róa mig niður og á sama tíma endurtaka nokkra frasa til þess að hjálpa mér að taka þátt í augnablikinu.

Svo gerðist það í matarboði bara nýlega, að þá tók þetta yfir, einhvern vegin sama hvað ég sagði eða gerði þá leið mér áfram eins og ég ætti ekki heima í þessu rými, að það væri bara einhvað að núna og ég gæti ekki verið þarna. Passaði ekki

Ég fattaði svo allt í einu hvers ég þarfnaðist og ég færði fókusinn í líkamann og veitti tilfinningunum athygli og sagði við sjálfa mig „þú ert velkomin“. Sama hvort ég væri ekki nóg fyrir einhvern annan þarna (óháð því hvort það væri raunin eða endurspeglun) þá var ég samt sem áður velkomin í þessu rými.

Ég var búin vera að minna mig á að ég mátti taka pláss í þessum heimi, en það sem vantaði var að ég finndi það með sjálfri mér að ég var velkomin í þetta pláss sem ég mátti og má taka. Ég er sjálfri mér nóg og ég er velkomin í þennan heim, í það pláss sem hjálpar mér að læra og halda áfram að vaxa og dafna.

Tómið sem ég hef oft talað um á sérstaklega við hér. Því partur af því var sú gryfja að ég væri ekki nóg, að ég þyrfti að vera minni eða meiri en ég er og hafna pörtum af mér og breyta því hver ég er til þess að vera nóg. Sá partur á við að vera ekki nóg.

En það var dýpri og sársaukafyllri partur þarna líka og það var sú gryfja að ég yrði aldrei nóg og að ég væri yfir höfuð ekki velkomin. Að það væri allt að mér, ekkert sem ég gæti gert. Þess vegna þurfti ég að heyra það frá sjálfri mér að ég væri velkomin, í þessum sársauka, í þessu ástandi, í þessum tilfinningum, þessu hugsanarástandi, að ég elskaði mig og ég var velkomin hér, alveg eins og ég er.

Ég er velkomin hér, sama hvaða tilfinningu ég er að upplifa og sama hversu sterk hún er, sama hvaða skilaboð hún segir mér um sjálfa mig, sama hvernig ég horfi á sjálfa mig, heiminn og aðra þegar ég er að upplifa hana, sama hvaða minningar hún vekur upp, sem er yfirleitt, þegar tilfinningin er yfirþyrmandi, sársaukafull minning um djúpstæða höfnun.

Ég er í flestum tilfellum að upplifa endurminningar um djúpstæða höfnun, þess vegna er svo mikilvægt að ég viti og endurtaki og segi við sjálfa mig að ég er velkomin, akkúrat núna þegar mér líður sem verst, ég er velkomin.

Þannig hlúi ég að sjálfri mér, með því að vera til staðar fyrir mig, veita mér athygli, bjóða mig velkomna, elska mig, samþykkja mig, sýna mér samkennd og skilning og búa til rými fyrir mig í öllum tilfinningalegum litum. Það skiptir svo ótrúlega miklu máli.

Með tilfinningar endurtek ég því þegar ég man eftir því „ég finn þig, takk fyrir að tala við mig“ og ef ég er í aðstæðum með einstaklingum sem ég veit ekki hvort hafi pláss í sýnu eigin rými fyrir tilfinningalega úrvinnslu að þá er það allt í lagi og ég segi þá við sjálfa mig „ég finn þig, við förum í gegnum þessar tilfinningar á eftir“ og ég fer til þeirra einstaklinga sem vilja og hafa getu og pláss til að búa til rými fyrir mig eða ég bý sjálf til það rými fyrir mig til að fara í gegnum þessar tilfinningar.

Svo veiti ég líkamanum mínum athygli í eins langan tíma og ég hef til að gefa mér, engin pressa, bara athygli, stend við orðin mín um að fara í gegnum þessar tilfinningar. Stundum tala ég upphátt við sjálfa mig, stundum græt ég með eða án tára, stundum sit ég bara þarna og anda, stundum titra ég, stundum fæ ég kuldahroll eða svitna, tilfinningaleg úrvinnsla gerist á margvíslegan hátt og ég segi á sama tíma stöðugt við sjálfa mig „ég finn tilfinningarnar þínar og ég elska þig“ og svo kemur það sem kemur.

En mikilvægasti parturinn er hvernig mér líður (nefna tilfinninguna) og hvernig það lætur mér líða með sjálfa mig. Mestur fókus á tilfinningarnar sjálfar og hvernig mér líður með þær.

 

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.