Að fyrirgefa of fljótt

Ég hef lært að ég hef tileinkað mér í gegnum lífið að fyrirgefa of fljótt og þá á ég ekki við litlu hlutina sem skipta litlu sem engu máli.

Í raun og veru hef ég verið að telja mig hafa fyrirgefið án þess að raunverulega hafa gert það.

Fyrir mér, eftir því sem ég læri betur á sjálfa mig felst fyrirgefningin í því ferli að fara í gegnum þær tilfinningar sem koma upp á yfirborðið þegar „atvikið“ sem ég er að fyrirgefa á sér stað. Fyrir mér þarf ég að hlúa að þeim til þess að halda áfram.

Ég taldi mig vera skilningsríka ef ég fyrirgaf strax, því ég vildi ekki valda viðkomandi þeim sársauka að leyfa honum að sjá hversu mikil áhrif „atvikið“ hafði raunverulega á mig. En með því að gera það var ég að kyngja því hvernig mér leið og bæla þær tilfinningar niður á sama tíma og ég lét eins og ekkert væri og „fyrirgaf“ viðkomandi strax.

Nú á ég ekki við litla hluti sem jafnvel meika ekki sens og koma upp í augnabliks pirringi eða einhverju álíka. Nú á ég við „atvik“ sem brjóta traust og öryggistilfinningu gagnvart viðkomandi eða heiminum.

Þegar öryggiskennd og traust er brotið þarf að byggja það upp á nýtt og hlúa að því og á sama tíma tel ég að það þurfi einnig að syrgja það sem gerðist sem varð til þess að það brotnaði í fyrsta lagi.

En ég hafði bannað sjálfri mér að fara í gegnum það ferli, jafnvel þó að „atvikið“ hafði enn haft áhrif á mig til dagsins í dag.

En það er einmitt málið, að jafnvel þó ég hafi látið sem ég hafi fyrirgefið viðkomandi nánast um leið og atvikið átti sér stað, þá leyfði ég mér aldrei að syrgja og gefa mér rými til að hlúa að því trausti og þeirri öryggiskennd sem var brotin.

Ég leyfði mér aldrei að taka skref til baka og búa til smá fjarlægð á meðan ég hlúði að sjálfri mér og lærði í framhaldinu smám saman að treysta viðkomandi á ný og finna fyrir öryggiskennd þar aftur.

Ég gaf mér aldrei tíma og ef ég gerði það á einhvern hátt þá reif ég mig niður fyrir það, því ég taldi mig ábyrga fyrir því hvernig áhrif fjarlægðin myndi hafa á viðkomandi fremur en ábyrga fyrir því að hlúa að mínum eigin sársauka vegna „gjörða“ viðkomandi og áhrifum þeirra á mig.

Í stað þess að gefa sjálfri mér rými þá „fyrirgaf“ ég strax án þess að raunverulega fyrirgefa því allur sársaukinn sat eftir og ef hann braust upp á yfirborðið reif ég mig niður fyrir það því ég var jú búin að fyrirgefa og átti engan rétt á því að líða illa núna, í mínum augum.

Þetta er einhver vörn sem ég hef tamið mér sem er hvorki sanngjörn gagnvart sjálfri mér né þeim sem ég hef „fyrirgefið“ án þess að fyrirgefa.

Ég setti einhvers staðar samasem merki á milli þess að ef einhver gerði einhvað vont og myndi horfast í augu við það, að þá myndi hann horfa á sig sem vonda manneskju.

Þannig horfði ég á sjálfa mig og ég vildi forða öðrum frá þeim sársauka, sem er engan veginn á minni ábyrgð og er engan veginn víst að viðkomandi hafi upplifað það þannig. Stundum skil ég hreinlega ekki sjálfa mig. En það augnablik sem ég þurfti að taka ákvörðun um að fela sársaukann eða leyfa honum að sjást, að þá fannst mér ég verða að velja fyrri kostinn, ég var of hrædd við mögulegar afleiðingar þess síðari.

Ég taldi mig vera ábyrga fyrir því að hlífa viðkomandi fyrir þeim sársauka að horfast í augu við áhrif eigin gjörða. Svo ég lokaði fyrir allt, geymdi ábyrgðina hjá mér, lét eins og ekkert væri og tilfinningarnar geymdust í líkamanum.

En þegar ég fór smám saman að átta mig á því að meirihlutinn af þessum „atvikum“ voru bara alls ekki í lagi, þá átti ég erfitt með að gefa tilfinningum mínum rými, því þetta var allt liðið og ég hafði þegar verið búin að „fyrirgefa“.

Mér fannst eins og ég þyrfti að fá staðfestingu ytra við mig á því að þetta gerðist (því ég geymdi ábyrgðina og var á sama tíma stöðugt að reyna að réttlæta þetta fyrir sjálfri mér) og að þetta var ekki í lagi, en jafnvel þá átti ég erfitt með að gefa tilfinningum mínum rými.

Svona hélt þetta áfram og ég reiddist sjálfri mér fyrir að tala um minningarnar mínar og var komin í einhverja mjög skrítna hringrás þar sem ég reiddist sjálfri mér fyrir hvert skref sem ég tók til að reyna að hlúa að þessum minningum en án þess að raunverulega hlúa að þeim. Ekkert meikaði sens.

Fókusinn var á gjörðum, ekki líðan, ekki sjálfmynd, ekki sýnilegu broti á trausti og öryggiskennd, ekki því hvernig ég hlúði að því, bara gjörðum og þeim sem áttu sök.

Ég fór í gegnum allt án þess að fara raunverulega í gegnum neitt.

Hvernig leið mér? Hvernig horfði ég á sjálfa mig? Hvernig horfði ég á viðkomandi? Hvernig sá ég traustið fara? Hvernig sá ég öryggið fara? Hvernig hlúði ég að því? Hvernig leið mér í kjölfarið? Hvar fann ég og finn ég fyrir því í líkamanum?

Nefna tilfinninguna, fara inn í minninguna og sjá fyrir mér fjarlægðina sem myndaðist milli mín og viðkomandi þegar „atvikið“ átti sér stað og leyfa henni að vera, með það í huga að það verði allt í lagi með viðkomandi (því þetta er liðið) þó ég sé ekki að hlúa að honum núna og sé að gefa mér tíma og rými til að vinna úr þessu með því að hlúa að sjálfri mér fyrst og fremst. Sjá fyrir mér traust og öryggi byggjast aftur upp, leyfa mér að gefa því tíma, óháð því hversu óþæginlegt og sársaukafullt það er að horfast í augu við að hlutirnir séu breyttir. Í stað þess að láta sem ekkert hafi skeð og það hafi engin áhrif haft. Hlúa að því sem ER og VAR og leyfa því að vera eins og það er, eins og ég sé það núna.

Syrgja, hlúa að öllu því sem kemur.

Brotið traust og öryggi er ákveðinn missir og ég þarf að leyfa mér að syrgja það.

Ef ég hlúi ekki að stóru hlutunum og gef ekki tilfinningum mínum yfir þeim rými, þá tel ég að tilfinningar mínar muni þá einfaldlega halda áfram að smitast yfir í litlu hlutina og ég mun brotna niður yfir hlutum sem meika jafnvel ekki einu sinni sens fyrir mér, bara augnabliks pirringur eða einhvað álíka, sem breytist í ýktar tilfinningar sem ég skil ekki hvaðan koma því þær virðast ekki „eiga við“ augnablikið.

Ég get einungis talað fyrir sjálfa mig þegar það kemur að tilfinningum sem virðast ekki „passa“ við augnablikið, en í flestum tilfellum sem einhvað er að angra mig og ýktar tilfinningar koma upp á yfirborðið yfir einhverju smáu sem meikar ekki einu sinni sens fyrir mér, þá þegar ég raunverulega veiti þeim athygli þá færa þær mig aftur til baka í það „stóra“ sem ég náði aldrei að syrgja áður.

Það er erfitt að útskýra þetta án þess að skýra betur hvað ég á við með stóru hlutina. Ég held að besta útskýringin væri áföll. Það sem breytir eigin sýn á heiminn á augnabliki og það verður aldrei eins frá því augnabliki. Öryggi og traust er ekki eins frá því augnabliki. Það er hægt að hlúa að því og byggja það upp, en það verður aldrei eins.

En það sem ég er þá að vinna í því að gera núna er að fara til baka og leyfa mér að syrgja stóru hlutina, hlúa að þeim sársauka og gefa mér rými svo ég geti fyrirgefið, raunverulega fyrirgefið, fyrir fullt og allt.

Frá hjartanu, í fullri einlægni.

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.