Ábyrgð

Mér hefur fundist erfitt að horfast í augu við það að þetta sé partur af mér sem ég þarf að heila.

Ég hef átt erfitt með að finna línuna yfir allt mitt líf, hvað ég á og hvað ég á ekki. Hvað sé á minni ábyrgð og sé mitt að bera og leysa úr.

Þetta er einhvers konar meðvirkni að telja og ná ekki að gera greinarmun yfir því hvort sársauki einhvers annars sé minn eigin. Að telja að ég megi taka pláss ef ég hlúi að honum.

Ég geymi nánast allt. Ég reyni að finna orsakir og afleiðingar, ég reyni að fara djúpt og sjá hvers vegna hegðun á sér stað og hvaða áhrif hún hefur haft. Ég geri það ekki bara fyrir mig, ég geri það fyrir aðra.

Ég reyni að sjá hlutina frá öllum sjónarhornum, passa að misskilja ekkert, vill vera alveg viss, vill skilja, vill sjá hlutina skýrt. Einhvað sem kemur mér ekki einu sinni við. Hvað liggur á bakvið einhvern annan kemur mér ekki við og ég get ekki séð það sem ég get ekki séð.

Ég hef átt erfitt með að skilja hvers vegna ég geri þetta. Ég er dauðuppgefin og finn fyrir yfirþyrmingu á því að reyna að sjá allt sem ég tel mig geta séð. Án þess að vita jafnvel nokkuð. Þetta er ruglingslegt og ég a erfitt með að skilja sjálfa mig þegar ég geri þetta.

Líkt og í meðvirkni reyni ég að hlúa að tilfinningum einhvers annars þegar ég er í nánd við hann. Passa að viðkomandi líði vel (sem sendir mig í ofhugsunarhringrás og gerir hlutina ennþá óþæginlegri því ég er að reyna að vera einu skrefi á undan sjálfri mér).

Þegar ég er ekki lengur í nánd við viðkomandi þá tek ég tilfinningarnar og upplifunina með mér. Svo skoða ég hana aftur og aftur og reyni að laga og skilja og hlúa að. Svo geymi ég allt saman og ég held áfram að reyna að vinna úr því löngu eftir að atburðurinn átti sér stað.

Ef viðkomandi var í sársauka þá geymi ég sársaukann og reyni að skoða orsakir og afleiðingar og mögulegar lausnir og fyrirbyggjandi úrræði fyrir frekari sársauka viðkomandi í framtíðinni.

Ef ég olli einhverjum óþægindum eða sársauka þá geymi ég þann sársauka og reyni að skoða orsakir og afleiðingar og mögulegar lausnir og fyrirbyggjandi úrræði fyrir frekari sársauka í framtíðinni.

Ég geymi allt og ég hef aldrei getað skilið hvers vegna.

En ég veit það núna. Ég hef ekki getað séð mörkin fyrir því hvað tilheyrir mér og hvað ekki. Hverju ég ber ábyrgð á og hverju ekki.

Mér hefur oft liðið eins og ég sé að missa vitið og ég forðast að vera í kringum fólk því ég tek allt sem ég sé og upplifi með mér heim. Ég reyni að laga það sem ég get lagað í aðstæðunum og svo tek ég það með mér heim og set það undir smásjá og geymi það í marga daga, vikur, mánuði, ár. Það fer eftir því hversu áhrifamikið atvikið eða viðkomandi er.

Þetta er partur af mér sem ég þarf að heila. Að læra að setja skýr skil fyrir það hverju ég ber raunverulega ábyrgð á.

Ég skil hvaðan þessi partur kemur og nú skil eg hversu mikil áhrif hann hefur haft á mig í gegnum lífið. Nú þarf ég að hlúa að honum og koma mér í skilning um það að ég þarfnast hans ekki lengur.

Ég ber ábyrgð á mínu lífi. Ekki lífi annara. Ekki gjörðum annara. Ekki skoðunum annara. Ekki tilfinningum annara. Listinn heldur áfram.

Ég hef þurft að taka alltof mikla ábyrgð alltof ung og þannig hef ég lært að tileinka mér ábyrgð á hlutum sem voru aldrei mín eigin ábyrgð.

Ég tek inn á mig tilfinningar annara og geymi þær með mér og reyni að hlúa að þeim innra með mér. Það er engin leið fyrir mig að lifa mínu eigin lífi.

Það tekur í burtu pláss fyrir mínar eigin tilfinningar, minn eigin sársauka og einfaldlega hver ég er.

Ég hef ekki getað vitað hver ég er, því ég hef verið of upptekin að taka til mín hverjir allir aðrir eru og hvað það segi um það hver ég er.

En ég er ekki lengur lítil og aðrir segja mér ekki hver ég er. Ég er einfaldlega hver ég er. Ég bara er.

Ég hef lifað lífinu mínu of lengi sem svampur yfir það hver ég er. Ef einhverjum líkaði illa við mig þá taldi ég mig vera illa líkandi manneskju. Ef einhverjum fannst ég skemmtileg þá taldi ég mig vera skemmtilega. Aðrir sögðu mér hver ég væri og ég tók því sem sannleika. Ég lifði í gegnum alla aðra. Í stað þess að kynnast mér sjálf.

Ég er að vinna í því núna að setjast niður með sjálfri mér og skila til baka því sem tilheyrir mér ekki og taka ábyrgð á því sem tilheyrir mér raunverulega og hlúa að því. Ég hef verið að geyma allt of mikið, án þess að nokkur hafi jafnvel beðið mig um það eða vilji að ég geri það.

En þetta er einn af veggjunum mínum, að finna virði í því að hlúa að og geyma ábyrgð fyrir aðra, án þess að hafa verið beðin um það.

Þetta var aldrei mitt að geyma, það er hvorki sanngjarnt gagnvart sjálfri mér né öðrum að ég geri það. Jafnvel þó ég hafi getað hjálpað einhverjum á sama tíma þá er ég gjörsamlega uppgefin og ég get ekki haldið svona áfram.

Eins og ég segi þá þarf maður að setja sjálfan sig í fyrsta sæti og ég get ekki hlúið að mínum eigin sárum og tilfinningum ef ég er ennþá að geyma tilfinningar og sársauka annara.

Ég þarf að læra að staldra við og stoppa mig af þegar ég finn fyrir yfirþyrmingu og segja „eru þetta mínar eigin tilfinningar og sársauki á minni eigin ábyrgð eða er ég að taka ábyrgð fyrir einhvern annan?“

Ef ég get borið kennsl á að ég er að burðast með einhvað sem er ekki mitt að burðast með þá þarf ég að minna mig á og spyrja „er þetta mitt?“ Og ef ekki þá þarf ég að skila því til baka, einfaldlega með því að afsala mér eignarréttinum á því.

Ég er að læra að bera ábyrgð á því sem ég ber ábyrgð á og skila af mér ábyrgð á því sem ég ber enga ábyrgð á.

Setjast niður, skoða hvort ég sé að burðast með einhvað sem er ekki mitt eigið, anda því frá mér, hlúa að mínum eigin tilfinningum í kjölfarið og sýna mér ást og þakklæti.

Þetta er ákveðinn partur af mér sem ég hef skammast mín fyrir, því þetta er ákveðin óumbeðin afskiptasemi. En þetta er partur af því að horfast í augu við það sem ég þarf að hlúa að og heila. Fyrsta skrefið er að viðurkenna fyrir sjálfri mér að sárið sé til staðar.

Svo þarf ég að hlúa að því með ást og þakklæti, því öll svona sár verða til, til þess að vernda mig og þau hafa öll átt þátt í því að hlúa að mér á þann hátt sem þau kunnu á þeim tíma á meðan ég var ekki tilbúin að læra nýjar leiðir.

 

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

 

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.