Tilfinningaleiðir

Ég er stöðugt að reyna að leita að leiðum til að brjóta niður flókin og djúp og sársaukafull sár sem þarf að heila, niður í einfaldari brot til þess að hlúa að í litlum skrefum á viðráðanlegri og minna yfirþyrmandi hátt.

En þetta er afar flókið og alls ekki einfalt að reyna að einfalda eitthvað sem er svo miklu stærra og einstaklingsbundnara og flóknara en hvernig ég reyni að koma því í orð útfrá því hvernig ég upplifi það í mínu eigin lífi, því við upplifum hlutina svo mismunandi, hvert og eitt okkar.

Ég get einungis talað fyrir sjálfa mig og sagt frá því hvað virðist smella við mig í mínu bataferli. Það er hugarfarið sem ég hef einnig þegar ég er að lesa mér til, ég tek til mín það sem smellur fyrir mig og nýtist mér og skil eftir það sem passar ekki fyrir mig eða hjálpar mér ekki. Kannski gerir það það seinna en ekki líðandi augnablik.

Ég reyni þess vegna að passa mig þegar ég fjalla um þessa batavinnu því það sem ég vil alls alls ekki gera er að gera lítið úr erfiðleikum eða ofur einfalda eitthvað sem er mun flóknara en hvernig ég set það í orð eða hvernig ég upplifi það og vinn úr því sjálf.

Það eina sem ég hef er minn eigin hugur, mín eigin reynsla, minn eigin lærdómur, mínar eigin tilfinningar og mínar eigin trúir og skoðanir útfrá upplifunum og lærdóm frá mínu eigin lífi og upplýsingum um úrvinnslu sem ég hef tileinkað mér í gegnum allt sem ég hef fundið um mín eigin sár og bataleiðir síðustu 10-11 ár.

En í allri þeirri leit að skilja og finna leiðir til þess að vinna úr sársaukanum sem ég upplifði mig umvafða í þá var eitt sem allar leiðirnar áttu sameiginlegt og ég var alltaf að rekast aftur og aftur á.

Ég varð að upplifa tilfinningar þess sem gerðist. Virkilega upplifa þær og hlúa að þeim, veita þeim athygli, staldra við hjá þeim, gefa þeim rými og vera með þeim.

Ef ég fann fyrir þörf fyrir að ýta þeim í burtu þurfti ég að hlúa að því, upplifa það, veita því athygli, staldra við hjá því, gefa því rými og vera með því. Vera með öllu. Vera í líkamanum.

Þetta var eitthvað sem ég hræddist mest og hugurinn leitaði stöðugt í truflanir til að forðast þetta.

Samkvæmt meirihluta þess sem ég las þá var þetta mikilvægasta skrefið sem ég varð að taka.

Ég gat sagt frá reynslu þess sem gerðist og ég gerði það aftur og aftur, orðin runnu bara út og ég skildi ekki hvað væri að gerast.

Ég vildi innst ekki tala um þessa hluti en samt gat ég ekki hætt og það meikaði engan sens. Ég reiddist sjálfri mér fyrir að gera sjálfri mér þetta. Þetta passaði ekki.

Ég lærði að hluti af mér var í afneitun og sannleikurinn og sársaukinn fékk ekki pláss innra með mér, svo hann lak bara út. Hann fékk samþykki ytra. Innra vildi ég ómeðvitað ekki sjá hann. Ég vildi ekki gangast við honum.

Ég vildi ekki fara í gegnum tilfinningarnar og leyfa þeim að vera, ekki þessum, ekki þeim sem voru yfirþyrmandi.

En eftir því sem ég las meira þá skildist mér að tilfinningarnar lokast inni í líkamanum ef þær fá ekki pláss. Því þær munu alltaf koma sama hvað ég segi um það og þegar ég hafna þeim þá geymast þær innra með.

Því meira sem ég geymdi, þeim mun meira yfirþyrmandi voru tilfinningarnar þegar ég upplifði þær (sem var oftast þegar ég vildi alls ekki fara í gegnum þær, eins og í matarboði eða einhverju álíka).

Ég varð að fara í gegnum stóru tilfinningarnar. Eitthvað sem ég vildi ekki. Allt sem ég vildi ekki. Að virkilega upplifa þær.

Ég var líka hrædd við að valda re-traumatization í líkama og hug með því að fara óvart aftur í gegnum allar tilfinningarnar og minningarnar án þess að hlúa að þeim og hafna þeim aftur.

En ég hef gert nógu mikla vinnu í því hvernig ég hlúi að sjálfri mér að ég taldi það öruggt fyrir mig núna. Ég vissi hvað ég þurfti að heyra til þess að upplifa öryggi hjá sjálfri mér og ég var í öruggu umhverfi. Ég taldi mig loksins vera tilbúna.

-En það er áhætta að taka ef svo er ekki, svo ég myndi alls ekki fara í gegnum átakanlegar minningar og ekki gera þetta ein/nn og alltaf með einhverjum stuðning og leiðsögn.

En byrja frekar þá bara á því að taka eftir líðan hér og nú og staldra við þar, hlúa að því sem er þar og sýna því ást og samkennd. Líka því sem er dæmandi og sárt, það þarf líka ást og samkennd.

Ég er ennþá á þessari vegferð. Ég sagði áður að fyrsta skrefið aftur til mín væri að færa fókusinn aftur í líkamann, en það felur líka skrefafjölda í sjálfu sér.

Sitja með sjálfri mér
Færa fókusinn á öndunina
Taka eftir því hvar ég finn þrýsting og halda fókusnum þar
Taka eftir því hvar ég upplifi tilfinninguna, því eftir því sem ég best veit þá eru alltaf einhverjar tilfinningar (ró, kyrrð, afslöppun,dofi.. allt tilfinningar) og tilfinniningar eru hreyfanleg orka, energy in motion.
Taka eftir því hvort ég finni hvernig hún hreyfist
Taka eftir því hvort hún sé stór, lítil, þung, létt, hvort hún flakki á milli þess að vera stór eða lítil, hvort hún færist.
Leyfa ímyndunaraflinu að taka við og spyrja mig hvort hún hafi form, lit, hvort hún sýni mér einhverja ímynd og sýna öllu því sem kemur upp ást, ekkert af því segir mér hver ég er, einungis hvað ég hef upplifað og er að upplifa og ég þarf að æfa mig að hlúa að því með ást.
Allir partarnir, allar minningar (fara varlega og leita leiðsagnar með átakanlegar minningar), allar hugsanir, allar tilfinningar sem ég dæmi sem slæmar og óvelkomnar eru bara óheiluð sár sem ég þarf að hlúa að með ást, aftur og aftur og aftur.

En ég hafði líka þróað með mér hugrofseinkenni. Stundum upplifði ég mig ekki tengda við sjálfa mig, ekki tengda við umhverfið mitt og ég var dofin. Mér leið eins ég væri ekki á staðnum, bara karakter í bíómynd, áhorfandi í mínu eigin lífi og fann ekkert nema dofa. Þekkti ekki minn eigin líkama sem minn eigin.

Umhverfið mitt ávarpaði mig og ég gat svarað en ég heyrði ekki almennilega og ég tengdi ekki við neitt, eina sem ég gat gert var að brosa og kinka kolli því hræðslan var það mikil að ég upplifði mig í hættu ef aðrir sæu að ég var ekki þarna, ekki raunverulega.

Verst var þegar þeir sem þekktu mig reyndu að ná til mín en ég var bara frosin, að reyna eins og ég gat að ná aftur tengingu við umhverfið mitt. Yfirleitt hágrét ég þegar ég komst til baka. Ég fann ekkert.

Ég las og las og las um leiðir til að komast úr þessu og aftur var ég komin á sama stað. Ég varð að upplifa stóru tilfinningarnar.

Samkvæmt því sem ég las var dofinn sem ég fann hugurinn að reyna að vernda mig fyrir tilfinningum sem hann taldi of yfirþyrmandi fyrir mig. Hann sannfærði mig um að ég fann ekkert.

Ég byrjaði að reyna að færa fókusinn í dofann og segja við sjálfa mig að þetta voru tilfinningar, aftur og aftur og halda fókusinum og því sem ég fann fyrir í líkamanum.

Ég held að það hafi hjálpað eitthvað en ég var aldrei viss um það hvort ég væri á réttri leið. Ég hélt áfram að leita. Þetta eru ansi flókin einkenni að eiga við og ég vissi ekkert hvernig ég ætti að fara að þessu.

Ég opnaði hug og hjarta fyrir meira óhefðbundnum leiðum.

Fyrst fann ég leiðirnar sem ég skrifaði fyrir ofan. Ég prófaði svo að fara í gegnum öndunaræfingar þar sem ég lá á gólfinu í 20 mínútur í krossfiskastellingu að ofanda allan tíman og þegar ég hætti fann ég dofa um allan líkamann og staldraði við þar og leyfði honum að koma. Mjög skrítin tilfinning.

Þessi æfing á að hjálpa tilfinningum að streyma um líkamann. Ég veit ekki hvort það hafi hjálpað en ég er ennþá að prófa mig áfram.

Ég fann TRE sem eru æfingar sem kallast trauma release exercise þar sem ég geri æfingar og leggst svo á bakið til þess að kalla fram ósjálfráðu skjálftaviðbrögðin í líkamanum til þess að hreyfa við tilfinningum. Það er hægt að lesa um það á netinu og svo eru til myndbönd á youtube.

Sú æfing hefur hjálpað mér töluvert að leysa spennu, ég hef átt augnablik þar sem ég er að öskurgráta án þess að nein hljóð komi frá mér því ég loka alltaf ósjálfrátt fyrir. En þetta virðist koma einhverju af stað.

Þegar tilfinningarnar voru yfirþyrmandi og dofi tók yfir allan líkamann þá prófaði ég að tala við tilfinningarnar, einfaldlega segja „hæ, ég sé þig, þú ert velkomin, takk fyrir að tala við mig, er hægt að sleppa smá?“.

Því eftir því sem ég best veit að þá þegar ég upplifi dofann að þá er líkaminn að halda fast í tilfinningarnar því hugurinn er að reyna að taka stjórn og sannfæra mig um að þær eru ekki þarna.

Svo þegar ég spurði líkamann „er hægt að sleppa smá?“ Og þá á ég við sleppa smá taki á því að reyna að stjórna tilfinningunum og halda þeim frá því að færast um líkamann. Þessi leið hefur líka gagnast mér. Halda bara áfram að spyrja hlýlega án þess að dæma, bara einfaldlega spyrja og færa fókusinn á hvar tilfinningin er í líkamanum og fylgjast með hvernig spennan losnar pínulítið. „Er hægt að sleppa smá?“.

Ég þráði svo heitt að finna leið til þess að komast inn á við og í betri tengl við allar tilfinningarnar sem ég átti eftir að heila.

Ég var komin það langt í flatneskju og dofa að ég var stöðugt googlandi „how to feel your feelings“ í von um að einhvað gæti hjálpað mér að komast í gegnum varnarveggina sem ég hafði ómeðvitað byggt í gegnum árin. Alltaf þegar ég þurfti að gráta hætti ég bara að anda og tilfinningin fór. Stundum gat ég grátið en það komu engin tár, líkaminn engdist bara um. Ég vissi hvað ég þurfti að gera en ég vissi ekki hvernig ég átti að komast þangað, hvernig gat ég hjálpað mér að leyfa mér að upplifa það sem ég var hrædd við innra með?

Ég er að vinna mig áfram að finna leiðir til þess að vinna úr öllum þessum tilfinningum en það mikilvægasta sem ég hef lært eins og ég hef oft talað um áður er einfaldlega að veita líkamanum athygli og staldra við þar. Vera.

Einhvers konar hreyfing á líkamanum virðist líka hjálpa, þá á ég einnig við örlitla hreyfingu eins og að rugga efri líkama, tromma með fingrunum, bara hreyfa líkamann eins lítið eða mikið og ég þarfnast. Finna hvernig jörðin ýtir á móti líkamanum og taka eftir því og staldra við þar.

Þetta er ennþá ferli og ég á fullt eftir.
En þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir mér því tilfinningar eru partur af því hver ég er og ég þarf að hlúa að þeim parti rétt eins og öllum hinum sem þarfnast þess að fá rými.

Þetta ferli er búið að vera steikt, yfirþyrmandi, ruglingslegt, hræðilegt, óttavekjandi, sársaukafullt, yndislegt, léttandi, róandi, hlýjandi og allir regnbogans litir.

Allt sem vekur hjá mér skömm, hræðslu, niðurlægingu, reiði, sorg o.s frv við sjálfa mig eru allt upplifanir og partar af mér sem ég þarf að heila og sýna ást. Þeir eru stöðugt að minna á sig og vekja upp sársaukafullar tilfinningar því þeir hafa ekki fengið ást frá mér.

Ég er að læra að hlúa að þeim öllum. Þeir segja ekkert um það hver ég er, þeir eru bara að reyna að hjálpa mér að vinna úr einhverju. Því það er það sem tilfinningar eru. Leiðarvísar. „Þetta er gott fyrir mig og ég ætti að nálgast þetta en þetta er vont fyrir mig og ég ætti að forðast þetta“. Þetta segir ekkert um það hver ég er, bara það sem ég er að upplifa eða hef upplifað áður.

Ég er líka að æfa mig að spyrja mig „hvers vegna líður mér svona?“ Og finna svarið sem útskýrir hvernig mér líður, ekki fókus á það sem gerðist heldur hvernig mér leið þegar það gerðist og hvernig mér leið eftir það og hvernig mér líður yfir því núna í kjölfarið. Fara inn á við. Hverju fann ég fyrir eða finn eg fyrir í líkamanum og hvernig leið mér eða líður mér í sjálfri mér þegar og eftir að það gerðist. Og vera með því. Elska það allt. Hlúa að því öllu. Allt er nóg. Líka það sem er sárt.

Ég held áfram að vinna að því að hlúa að hrösunum með ást og er stöðugt að æfa mig í því að sýna þeim samkennd og skilning.

Þetta er erfitt og virkilega virkilega sársaukafullt ferli að fara í gegnum, því þessi leið felur í sér að finna dýpstu rótina, innra barnið og hlúa að öllum þeim sárum sem búa með því. Ef það er leið sem þú, kæri lesandi, velur að fara þá myndi ég hiklaust leita leiðsagnar í því ferli ef þú hefur valkost á því.

Þessi leið er fjall sem ég þarf að klífa og skrifin mín eru ákveðin heilun fyrir mig, ákveðin úrvinnsla á meðan ég klíf fjallið. Fyrir þá sem eru á sömu slóðum sendi ég ljós og ég vona að það færi þeim einhverja birtu að lesa um mína vegferð. Þú ert ekki ein/nn.

Við erum öll á okkar eigin vegferð og mismunandi leiðir virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Við erum öll ljós
Við megum öll vita það
Við megum öll sjá það
Og þó svo við gerum það ekki
Þá erum við ljós

Það er það sem ER

Nokkur orð sem ég æfi mig að endurtaka og leyfi að streyma um líkamann:

Ég er nóg og ég hef alltaf verið nóg, nú má ég loksins sjá það.

Ég hef valdið yfir mér.

Ég elska mig.

Tilfinningar eru ekki hver ég er, þær ERU það sem ég er að upplifa eða hef áður upplifað.

Ég er hér, núna, ég ER.

Þetta er allt í lagi, ég er örugg.

Takk.

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.