Hrædd

Ég sit á einhverjum bekk og hef verið hérna í rúmlega 2 tíma að reyna að koma þessu almennilega í orð a meðan hausinn a mér flýgur í allar áttir og ég er nokkuð viss um að ég sé með köngulóavef í hárinu 🤷‍♀️

Ég er svo hrædd við að deila því sem ég deili.
Ég er svo hrædd við að vera misskilin.
Ég er svo hrædd við að tjá mig.
Ég er svo hrædd við að sýna veikleika.
Ég er svo hrædd við að tala um þá varnarhætti sem ég er ennþá að sættast við.
Ég er svo hrædd við að vera hafnað
Ég er svo hrædd við að vera of einlæg, of viðkvæm, of..

Þess vegna skrifa ég.

Því ég er að æfa mig að stíga inn í þessa hræðslu og hlúa að þeim sárum sem halda henni gangandi.

Ég vil ekki lengur fela mig á bakvið veggi.

Lífið er alltof stutt til þess að ég lifi því án þess að VERA sönn sjálfri mér.

Þessi hræðsla byggist svo mikið á þeim pörtum af mér sem ég á erfitt með að horfast í augu við. Þess vegna hræðist ég að horfast í augu við þessa hluti. En ég er að vinna í því að taka á móti öllu, horfast í augu við allt, allt það sem er erfitt, allt sem ég merkti sem ljótt og allt sem vekur skömm. Ég er að læra að horfa á sjálfa mig eins og ég ER og elska hvern einasta part af mér sem ég sé. Ég er að læra að leyfa mér að sjá og hlúa að því sem ER, öllu sem ER. Því þetta eru allt partar af mér. Ég er að læra að elska mig skilyrðislaust.

Í gegnum skrifin hef ég rödd.
Í gegnum skrifin leyfi ég mér að vera séð, alveg eins og ég er, ekki í gegnum grímu sem lét mér líða eins og ég væri ein, sama með hverjum ég var.

Ég skrifa því ég þarfnaðist þess sjálf á mínum verstu dögum að vita að ég væri ekki ein.

Ég tala útfrá mér því ég hef bara aðgang að mér og mínu hugsanaferli og mínum tilfinningum og reynslum og hvað hefur hjálpað mér að finna leið til baka til mín.

Ég vil gefa rými fyrir að tala um það sem er vandræðalegt, erfitt, viðkvæmt, það sem við erum ekki 100 % sátt við við okkur sjálf, tilfinningar, sársaukafullar eða skrýtnar hugsanir og bara það að VERA, eins ófullkomin og við ERUM. Ásamt því að geta gengist við mistökum og sett okkur mörk fyrir hvað við viljum og hvað við viljum ekki, hvað við þurfum og hvað við þurfum ekki.

Því við getum ekki hlúið að og byggt ofan á það sem ER og fært okkur í átt að meiri visku, skilning, vexti og kærleika til hvors annars ef við tölum ekki um það.

ERUM bara í þessu rými saman og leyfum hverjum og einum að VERA eins og hann ER (óháð gjörðum) hverju sinni. VERA bara hér. Núna.

Þetta er mín rödd í því rými.

Við erum öll nóg.
Við höfum öll virði.
Við erum öll mikilvæg.

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.