Ég elska þig

Oft geta hlutir sem virka einfaldir gleymst þegar það kemur að okkur sjálfum. Það er allavegna eitthvað sem hefur átt við mig sjálfa.

Hversu oft segjum við „ég elska þig“ við okkur sjálf án þess að fyllast af kjánahrolli eða klígju? Ég hafði ekki hugmynd um það hversu mikið ég þarfnaðist að heyra þessi orð komandi frá sjálfri mér. Ég sagði þau við þá sem ég elskaði en þegar það kom að sjálfri mér þá gat ég ekki sagt þau.
Sjálfselska hefur oft verið máluð sem einhver ljót og eigingjörn mynd. En það er samt svo skrítið því við þörfnumst þess öll að vera elskuð og alls ekki síst af okkur sjálfum. Sjálfsást er falleg, að elska okkur sjálf er fallegt. Sjálf nýt ég þess í dag að finna hvaða áhrif það hefur á líkama, hug, hjarta og sál að heyra þessi orð, ekkert endilega upphátt, bara taka við þeim og leyfa þeim að fljóta um líkamann. Það er magnað hversu áhrifamikið það getur verið. Sjálfsást er nefninlega svo náttúruleg og eðlileg því við upplifum hana öll, meðvitað eða ómeðvitað, því allt sem við erum vill halda okkur á lífi og gerir það með því formi af ást sem það þekkir eða hefur áður þekkt í gegnum tíðina. Hvað sem er til þess að vernda okkur og hlúa að okkur ♡

Í mínu bataferli legg ég megináherslu á það hjá sjálfri mér að ég er ekki að reyna að taka neitt í burtu eða eyða einhverju, heldur að leiðbeina mér í gegnum það sem ER og áfram. Svo byggi ég ofan á það.

Stundum er það það eina sem ég get gert fyrir sjálfa mig að loka augunum, færa fókusinn inn í líkamann og beina þessum örfáu og áhrifamiku orðum að sjálfri mér og leyfa þeim að veita mér hlýju. Stundum trúi ég þeim ekki, stundum er sársaukafullt að heyra þau. Oft endurtek ég þau aftur og aftur þar til ég finn að þau eru móttekin, jafnvel í fleyri mínútur, þrátt fyrir mótbárur.

Það getur verið óþæginlegt og vont en einnig svo afskaplega mikilvægt og hefur hjálpað mér ólýsanlega ♡

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

 

 

Allt er eins og það á að vera

Núna þegar ég er meðvituð um það hvernig of mikill fókus á það sem VAR færir fókusinn af því hvað ER núna, og situr eftir sem afleiðing sem ég þarf að takast á við núna, þá er auðvelt fyrir mig að hugsa um það hvað ég vildi að ég hefði lært það sem ég hef lært fyrir löngu og hvað ég hefði getað forðast mikinn sársauka og byrjað að færa mig til baka til sjálfrar mín miklu fyrr.

En þetta hefði ekki getað farið öðruvísi. Ég sé núna að of mikill fókus á fortíðina hefur hamlað mér í þeirri vinnu sem ég þurfti að gera í nútíðinni og ég er núna að læra að færa fókusinn í það sem ER með vitund um það sem VAR. Ekki öfugt. Hins vegar þá þurfti ég alltaf að fara til baka í fortíðina til þess að komast að því hvers ég raunverulega þarfnaðist til þess að ná bata og hvers vegna. Það var mikilvægt og nauðsynlegt skref til þess að taka og án þess að fókusinn færðist til baka þá hefði ég aldrei séð og raunverulega skilið að ég var alltaf nóg, því við erum öll nóg. En að það var mér „hjálplegra“ á þeim tíma, í þeim aðstæðum, að trúa því að ég væri það ekki.

Öll þessi þrep sem ég hef tekið, allar hrasanirnar, allar reynslurnar þurftu allar að eiga sér stað eins og þær áttu sér stað. Ég þurfti að öðlast færni, þekkingu, reynslu, stærri yfirsýn, endurspeglun aftur og aftur og aftur til þess að geta komist hingað þar sem ég er núna. Allt þurfti að eiga sér stað eins og það gerðist. Allt á sér sinn stað í púsluspilinu að koma mér aftur til mín.

Ég gaf frá mér vald til fortíðarinnar því ég gat ekki horfst í augu við tómið. Það var mikilvægur partur af ferlinu og ég er þakklát fyrir hann. Sama hversu mikinn sársauka ég fór í gegnum og er að fara í gegnum vegna þess. Allt á sér sinn stað í ferlinu.

Í gegnum þetta allt þá veit ég núna hvers vegna mér leið alltaf eins og ég væri ekki nóg. Í gegnum það að vita hvers vegna gat ég lært hvers ég raunverulega þarfnaðist til þess að upplifa mig meðvitað sjálfri mér nóg.

Ég horfðist í augu við að það sár var til staðar og ég hefði ekki getað komist að því nema í gegnum það að dvelja við hvað gerðist og hvers vegna og hvað það segði um mig. Svo eins sárt og það hefur verið að festast þar þá þurfti ég samt að gera það til þess að sjá sannleikann, hlúa að honum og færa svo fókusinn aftur á mig sjálfa og sárin sem áttu enn eftir að gróa.

Ég hef horfst í augu við fortíðina og ég sé og skil sjálfa mig miklu betur vegna þess og ég veit hvers ég þarfnast til þess að ná bata.

Áður var leiðin að færa fókusinn yfir á fortíðina, meðvituð um tómið og gefa frá mér allt vald til þess að þurfa ekki að horfast í augu við tómið. En núna er leiðin að færa fókusinn á núna, á tómið sem ég þarf að heila. Ég þarf að VERA með tóminu og fylla það með ljósi sama hversu sársaukafullt það er.

Ég hef verið að flýja það frá því ég man eftir mér. Flýja það sem býr innra með mér, flýja sjálfa mig og leita fyrst og fremst skjóls, leita fyrst og fremst plástra utan mín. En núna er ég að koma aftur til baka og ég leiði mig áfram og nær sjálfri mér með ást. Það er eina leiðin. Það sem skapaði tómið var sú blekking að ég væri ekki nóg. En það er undir mér komið núna að fylla það með því að sýna mér að ég er nóg. Aftur og aftur og aftur og ég hlúi að mér með ást, meðvitaðri ást, ást sem byggir mig upp og færir mig að því sem hjálpar mér að vaxa og blómstra.

Því jafnvel þó að það sem rífur mig niður og segir mér að hver ég ER sé ekki nóg sé einhvers konar form af ást, þá er það gamalt form af ást, form sem hefur ekki fengið að vaxa og blómstra. Það var eina leiðin sem innri heimurinn hafði þá til þess að vernda mig og hlúa að mér.

Á þeim tíma þurfti ég ekki lífsnauðsynlega á skilyrðislausri ást frá sjálfri mér á að halda heldur frá því sem var ytra. Skilyrðislausa ástin innra með skapaði óöryggi í því sem var ytra svo á þeim tíma var það „hjálplegast“ fyrir mig að sýna sjálfri mér ást með því að yfirgefa mig og hafna sjálfri mér þegar ég átti í hættu á að upplifa óöryggi í því sem var ytra. Ég vissi ekki betur og ég vissi ekki að það gæti breyst og að það yrði mér lífsnauðsynlegt þegar ég yrði eldri og ekki lengur háð því ytra, að ég væri sjálfri mér nóg.

En núna veit ég betur og núna þekki ég skilyrðislausa ást og hversu mikilvæg hún er gagnvart sjálfri mér. Allt niðurrif gagnvart sjálfri mér er leið til þess að vernda mig svo nú get ég valið að hlúa að því án þess að taka því persónulega, því það segir ekkert annað um mig en að það er verið að reyna að vernda mig fyrir einhverju.

Ég þarf sjálf meðvitað að velja að hlúa að sjálfri mér þegar þessar hugsanir, þessar minningar, þessar upptökur byrja að spilast. Ég tek eftir þeim og leiðbeini mér áfram með ást. Meðvitaðri ást, þeirri ást sem ég þekki núna. Ljósið, hlýjan.

Allt er eins og það á að vera.

Ég horfist í augu við sjálfa mig og tómið og allt sem ég hef stólað á til þess að forða mér frá því. Ég er hér. Ég ER með tóminu, alltaf, það er alltaf hér og getur opnast hvenær sem er. Ég þarf að VERA með því og hlúa að því og leyfa því að heilast í gegnum meðvitaða sjálfsást. Fókusinn er hér, núna. Ef hann færist í gamalt far þá hlúi ég að því og leiðbeini mér áfram með ást. Ég er að horfast í augu við tómið. Ég er að fylla tómið. Ég er sú eina sem get það.

Ég leiðbeini mér áfram með ást
Ég hlúi að hverri hrösun með ást

Þetta er allt í lagi

Ég er örugg

Ég er hér

Ég er nóg

Ég elska mig

Ég fylli tómið

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen