Fyrirgefningin

Eitt af því sem ég á erfitt með að orða rétt og útskýra.

Fyrirgefningin.. ég hef verið að ganga í kringum hana ár eftir ár. Hvað það þýðir og hvernig ég eigi að fara að því að fyrirgefa.

Að fyrirgefa er ekki það sama og að samþykkja það sem gerðist heldur gangast við því. En hvað svo?

Ég hef verið föst í hringrás ár á eftir ári. Að leyfa mér að gangast við því sem gerðist, en um leið og ég gerði það opnaðist tómið og ég hrundi niður. Ég leitaði að staðfestingu frá öllum sem vildu gefa hana. Það var ekki öruggt fyrir mig að treysta sjálfri mér og ég neyddist til að leita utan mín.

Ég sagði öllum sem vildu heyra minn sannleika, því hann var ekki öruggur hjá mér. Ég fékk staðfestingu á því að mér mætti líða eins og mér leið í gegnum aðra. Ég hlúði að sjálfri mér í gegnum aðra. Svo vaknaði ég upp úr tóminu, sá hvernig ég hafði gefið frá mér minn sannleika, án þess að vita hvort þeim sem ljáði mér eyra væri treystandi og fylltist af hræðslu og reiði gagnvart sjálfri mér.

Hvernig datt mér í hug að segja frá? Afhverju gat ég ekki hætt að segja frá? Hvað væri eiginlega að mér?

Ég skildi ekki sjálfa mig. Ég vildi komast burt frá fortíðinni en ég var sjálf stöðugt að tala um hana og opna sárið. Þetta passaði ekki. Mér leið eins og ég væri í stríði við sjálfa mig.

Sannleikurinn var ekki öruggur hjá mér og í gegnum aðra fékk hann rými og sama hve oft ég sagði frá, þá breyttist ekkert. Margir urðu þreyttir á því að hlusta á mig tala um sömu hlutina aftur og aftur og aftur. Ég var meðvituð um það, en ég gat samt ekki hætt.

Ég var sú sem ég þurfti fyrst og fremst á að halda til þess að hlusta. Án sjálfrar minnar breyttist ekkert. Ekki neitt.

Ég setti plástra á sárin og gat haldið áfram. Þar til sárið opnaðist aftur og ég neyddist til að stóla á aðra til þess að staðfesta og treysta. En traustið sem ég þurfti fyrst og fremst var mitt eigið og ég gat ekki gefið mér það. Því þá hrundi ég ofan í tómið.

Tómið er það sem ég þarf að hlúa að. Ég þarf að veita því athygli, leiðbeina mér og sýna mér ást þar. Sýna mér að ég get fyllt það, alveg sjálf. Ég er sú eina sem get fyllt það. Allt annað virkar tímabundið og verður aldrei nóg. Ég verð að gera það.

Ég er að læra að gangast við því sem gerðist og færa ábyrgðina yfir á þá sem voru ábyrgir þegar ég var barn. Þannig get ég hlúið að innra barninu og sýnt því að það hefði ekkert getað gert og að það var ekki því að kenna.

Það er mikilvægt að taka þá ábyrgð af öxlunum mínum og þá trú að ég sé ekki nóg. Ég var alltaf nóg, aðstæður gerðu mér það einfaldlega hættulegt fyrir að trúa því sjálf. Það var mínum hag fyrir bestu á þeim tíma, í þeim aðstæðum að trúa því að ég væri ekki nóg.

Það er mikilvægt að ég viti að það er ekki eitthvað sem ég valdi meðvitað að trú heldur einungis eina leiðin sem líkami, hjarta, hugur og sál hafði til þess að sýna mér ást og halda mér öruggri.

Það er mikilvægt að ég viti það og viti að partar af mér halda ennþá fast í þá gömlu leið til þess að sýna ást. Þá leið sem allt sem ég var þá vissi ekki að gæti breyst, vissi ekki að það myndi læra aðra leið eftir því sem ég yrði eldri, til þess að elska mig.

Það er mikilvægt að ég fyrirgefi sjálfri mér fyrir að gera það eina sem var í stöðunni þá til þess að sýna mér ást. Það er mikilvægt.

Sú leið var að kenna sjálfri mér um, efast um sjálfa mig og hætta að treysta sjálfri mér og stóla alfarið á aðra til þess að vita hvað var mér fyrir bestu. Tilfinningar voru dæmdar, hugsanir, minningar, að ég gæti gert mistök, að ég þyrfti að setja mörk, allt þetta kveikti á efa og ég neyddist til þess að stóla á aðra til þess að vita hvað væri best fyrir mig.

Ég lifði eftir því mynstri og er ennþá að vinna úr því. En ég gerði mér ekki grein fyrir því á þeim tíma að ég var að gera ýmsa hluti sem héldu mynstrunum við.

Að leita alfarið að staðfestingu á mínum sannleika ytra var einn af þeim. Ég vissi að það var ekki gott fyrir mig og ég vissi hve mikið ég þráði að stoppa það, en ég vissi ekki hversu alvarlegt þetta var orðið.

Bara það að ég stólaði alfarið á staðfestingu annara á því hvað ég hafði upplifað og var að upplifa var skýr vísbending um það að ég var alfarið að stóla á aðra í gegnum lífið.

Með því að segja frá því sem gerðist án þess að vilja það og hugsa um það sem ástæður fyrir því afhverju ég væri eins og ég væri í dag, þá var ég að gefa frá mér allt vald yfir sjálfri mér. Því ég festist þarna.

Þetta var ekki þannig að ég tók ábyrgðina af sjálfri mér, gekkst við því sem var og hlúði að mínum eigin sárum. Ég tók ábyrgðina af mínum eigin herðum, færði hana yfir á fortíðina, efaðist, leitaði staðfestingar ytra og festist þar.

Ég taldi mig vera að fara í gegnum sársaukann með því að tala um hann aftur og aftur og aftur. En þetta er fín lína, að tala um hlutina til þess að vinna úr þeim og geta ekki hætt að tala um hlutina og leita staðfestingar ytra vegna vantrausts til sjálfrar minnar.

Ég var ómeðvitað að segja við sjálfa mig aftur og aftur og aftur „aðrir stjórna þér“ með því að leita að staðfestingu á því að mér mætti líða eins og mér leið frá öðrum og með því að tala um fortíðina sem ástæðu þess að mér leið eins og mér leið að þá var ég ómeðvitað að segja við sjálfa mig aftur og aftur „fortíðin stjórnar þér“.

Því með því að tala aftur og aftur um fortíðina sem ástæður fyrir því hvernig mér leið án þess að raunverulega vilja það og án þess að það hjálpaði mér á einhvern hátt að þá var ég í rauninni að gefa henni vald yfir mér og gefa frá mér mitt eigið vald yfir sjálfri mér.

Ég var komin langt yfir línuna yfir því hvað var hjálplegt fyrir mig að tala um þessa hluti. Hugsanirnar voru þráhyggjukenndar og mér leið eins og ég hefði enga stjórn.

Fyrst og fremst þurfti ég að búa sjálf til rými fyrir sannleikann innra með, ég varð sjálf að gangast við honum. Ég varð sjálf að læra að treysta sjálfri mér aftur. Aðrir gátu einungis staðið við bakið á mér á meðan ég lærði að treysta sjálfri mér.

Nú er ég alls ekki að stinga upp á því að það sé best að burðast með hlutina einn og ekki leita ytra fyrir aðstoð og yfirsýn. Ég er einungis að tala um fyrir mitt tilfelli að þá hafði þetta þróast í þráhyggju og sama hver staðfesti það sem ég hafði að segja, að þá var það aldrei nóg því ég treysti ekki sjálfri mér.

Flestir vilja ekki tala um erfiða hluti, ég gat ekki hætt. Allt líf mitt snerist um að tala um þessa hluti. Aftur og aftur og aftur og ég gat ekki fengið mig til þess að hætta því. Þetta var orðið eins og einhver fíkn sem ég gat ekki gengið í burtu frá.

Leiðin sem virkaði í barnæsku var ekki að virka núna, er ekki að virka núna. Ég lærði að það væri mér fyrir bestu að trúa því að ég væri ekki nóg og taldi mér trú um að ég væri ekki nóg. En ég er núna að læra að sýna sjálfri mér að ég er nóg og ég hef alltaf verið nóg, núna er ég bara fyrst að leyfa mér að sjá það.

En aftur að fyrirgefningunni. Það er mikilvægt að ég gefi sjálfri mér rými fyrir allt sem ég upplifi vegna fortíðar og minninga hennar. Ef ég gengst við því sem gerðist þá þýðir það ekki að ég megi ekki vera reið yfir því þegar þær tilfinningar koma upp eða hvaða tilfinningar sem koma upp.

Það er mikilvægt að ég fyrirgefi sjálfri mér fyrir að halda áfram í gömul mynstur sem voru mótuð af ást en valda mér sársauka í dag. Það er mikilvægt að ég færi ábyrgðina á því sem gerðist þá þar sem hún á heima og í burtu frá sjálfri mér. Það er mikilvægt að ég færi ábyrgðina á því sem er yfir á mig því ég er sú eina sem get fyllt þetta tóm, með því að sýna mér meðvitað að ég er elskuð og ég er nóg.

Það er mikilvægt að ég sé meðvituð um að ef ég held ennþá of fast í að fortíðin stjórni því hvernig mér líður í dag, að þá er ég að gefa frá mér mitt eigið vald og gefa fortíðinni vald yfir mér. Þá er ég í raun að segja mér að ég sé að þóknast fortíðinni, að hún stýri mér.

Það sem stýrir því hvernig mér líður í dag er það sem ég er meðvituð um, þau verkfæri sem ég hef, hvernig ég hlúi að sárinu og hvernig ég leiðbeini mér þegar það opnast.

Sagan sem ég var að segja mér var að eitthvað gerðist í fortíðinni sem olli því að ég er eins og ég er.

Sagan sem ég er að segja mér er að eitthvað gerðist í fortíðinni sem skapaði sár sem skýldi mér fyrir því að sjá mig eins og ég er og að það er núna mitt hlutverk að hlúa að þessu sári. Ég er eins og ég er og ég er hægt og rólega að leyfa mér að sjá það.

 

Þetta er allt æfing. Endurtekning. Aftur og aftur og aftur ♡

 

-Allt sem ég skrifa hèr ađ ofan eru ráđleggingar og úrræđi sem ég er ađ nýta mér í mínum eigin bata. Mikilvægt er ađ vekja athygli á því ađ hvert bataferli er einstakt og mismunandi úrræđi virka fyrir mismunandi einstaklinga.

Leiđin er flókin, erfiđ, ruglingsleg, skref áfram, skref afturábak, en hún er alltaf okkar eigin.

 

– karen

 

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.