Vitsugur og þunglyndi

Ég var búin að segja við sjálfa mig að ég ætlaði ekki að skrifa meira í dag.

En svo þegar hugurinn fer á flug þá verð ég bara að skrifa.

Ég fór að hugsa um það hvernig J.K. Rowling lýsti vitsugum (dementors) í Harry Potter.

Vitsuga: eitthver sem sýgur úr þer allt vit.

Ég var aldrei nógu sátt við það íslenska orð, fannst það ekki nógu ógnvekjandi.
Þeim mun skárra þó en þegar ég las í fyrsta skiptið Trevor Delgome, svo það kæmi út „eg er voldemort“ ef maður raðaði stöfunum saman (sem ég varð að gera, til að skilja).
Í bíó skildi ég ekkert hver Tom Riddle væri. Tom Marvolo Riddle. Hvaða gæji var það? Og hvar er Trevor? Og afhverju heitir hann það sama og kartan hans Neville?
Ruglingslegar þýðingar, en nóg um það.

(Ef þú veist ekkert um Harry Potter, þá er þetta eflaust mjög ruglandi fyrir þér. Ég útskýri betur á eftir).

Eitthver sem sýgur úr þér allt vit, var ég að segja.

Ég var ósátt við orðið vit, því ég horfði á það sem gáfur. En í raun er verið að meina hugur.

Hugurinn okkar gerir okkur fært um að meðtaka og vinna úr upplýsingum. Án hans meðtökum við ekkert, við vinnum úr engu.

Ég hef oft lesið um það hvernig J.K. Rowling hafi notað vitsugur sem ákveðna myndlíkingu fyrir þunglyndi.

Ég vildi skoða það betur.

Hvernig lýsa vitsugur sér:
Þær eru dökkar verur, allt verður kalt og þær láta þér líða eins og öll von og gleði og hamingja hverfi úr heiminum.

Ég vona að þú sért að fylgja.

Eins og ég upplifi þunglyndi lýsir það sér sem þungi. Það er þungt yfir mér allri. Eins og ég sé undir gráu skýji og finni ekki stað minn í tilverunni lengur.

Hvað getum við þá lært um baráttuna við þunglyndi í gegnum baráttuna við vitsugur?

Til þess að að yfirbuga þær (hér og nú, þetta augnablik) þarf viðkomandi galdramaður eða norn að hugsa um sterkustu, hamingjusömustu, hlýjustu, kraftmiklustu minningu sem hann býr yfir. Allar jákvæðar tilfinningar vonar og hamingju á einu bretti. Hann/hún þarf að einbeita sér af öllum kröftum að henni, beita sprotanum, segja orðin „expecto patronum“ og kalla fram verndarann sinn.

Minningin sjálf sigrar ekki vitsugurnar.
Það að galdramaðurinn/nornin hugsi um minninguna, beiti sprotanum, segi orðin og einbeiti sér af öllum kröftum til þess að kalla fram verndarann sinn. Það sigrar vitsugurnar.

Ekki bara það að galdra. Hann/hún verður að geta kallað fram minninguna og einbeita sér að henni af fullum krafti, til þess að galdurinn virki.

Ekki bara minningin. Hann/hún verður að geta beitt sprotanum, notað minninguna og sagt orðin, til þess að galdurinn virki.

Minningin án galdursins gengur ekki
Galdurinn án minningunnar gengur ekki.

Gjörðir einar sigra ekki, við verðum einnig að kalla fram verndarann.

Verndararnir einir sigra ekki, við verðum að gera eitthvað, framkvæma hegðun.

Það er eitthvað sérstakt sem gerist þegar mér tekst að komast upp úr þunglyndi.

Það er hálfóútskýranlegt, það er bara eins og allt í einu passi eitthvað.

Það er eitthvað annað að gerast á bakvið (í undirmeðvitundinni) sem fær mig til þess að trúa, bara smá, bara nóg til þess að grýpa í reipið sem liggur eftir klettarsillunni sem ég hangi af og halda mér uppi. Næsta skrefi væri náð, þegar mér myndi takast að reyna að byrja að klifra upp.

Ég veit að ég þarf að kalla fram minninguna, beita sprotanum, segja orðin, halda athyglinni og kalla fram verndarann .

En þegar eitthvað í bakgrunninum kemur í veg fyrir að ég trúi minningunni (hugsun), þá lendi ég í vandræðum.

Þegar eitthvað í bakgrunninum kemur í veg fyrir að ég trúi því að galdurinn virki (hegðun), þá lendi ég í vandræðum.

Það er ótrúlega erfitt að sigra vitsuguna, þegar eitthvað í bakgrunninum kemur í veg fyrir að ég trúi því að ég geti það.

Hvað er í bakgrunninum (undirmeðvitundinni)?
Það er þar sem vandinn liggur.

Afhverju getum við stundum yfirgnæft bakgrunns-skilaboðin og stundum ekki?

Hvað veldur því?

Það er eitt quote sem ég held mikið uppá, sem eg ætla að enda þetta á. Ég veit ekki eftir hvern það er.

„Breyting gerist þegar sársauki þess að vera sá hinn sami yfirgnæfir sársaukann sem fylgir því að breytast“.

Það er eitthvað sem gerist í undirmeðvitund, þegar innra sjálfið er gjörsamlega búið að fá nóg, og öskrar af öllum lífskröftum að það sé hlustað á það.

Hvað er innra sjálfið að segja þér?

Hvað er að gerast í bakrunninum?

Það er það sem þarf að vinna með.

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Ein athugasemd við “Vitsugur og þunglyndi”

  1. Elsku Karen mín,
    Það er frábært að lesa bloggið þitt, þú ert einstaklega góður penni og nærð að skrifa svo flott um tilfinningar. Margir geta örugglega samsamað sig í því sem þú skrifar 🙂 Haltu áfram á sömu braut. Áfram þú. Jeg heier på deg 😊
    Knús og klem frá tengdó ❤️

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.