Óhjálpleg hjálp

Ef allir eru sáttir og segja ekkert, þó þú takir slæmar ákvarðanir sem særa þig og aðra og sért ekki raunverulega á leiðinni að gera betur.

Þá mun partur af heilanum hvetja þig til að halda áfram að taka slæmar ákvarðanir, í stað þess að reyna að breyta rétt.

Við þurfum að minna hvort annað á að halda áfram að betrumbæta okkur, halda áfram að æfa okkur. Ekki festast í eitthverju sem þjónar okkur ekki og neita því að við getum gert betur. Að við ætlum okkur ekki raunverulega að gera betur. Að við viljum það ekki.

Við erum alltaf nóg, þrátt fyrir allt.

En það er partur af lífinu að læra hvað virkar og hvað virkar ekki og taka ákvarðanir í framhaldi af því. Við hættum að lifa, hér og nú, ef við hættum að æfa okkur. Við festumst.

Við hættum að taka betri ákvarðanir. Hjálplegar ákvarðanir. Óhjálplegar ákvarðanir. Sem við lærum af.

Við sættum okkur í lífinu. Leyfum okkur ekki að upplifa nýjar leiðir. Festumst í eigin líkama. Hættum að æfa okkur. Hættum að læra. Hættum að þroskast.

Óhjálpleg hjálpsemi eða óhreinskilin hjálpsemi getur jafnvel orðið verri en engin hjálpsemi.

Við þurfum að gefa hvort öðru upplýsingar og sannleikskorn um það hvort ákvarðanirnar okkar séu að leiða okkur á réttan veg eða ekki.

Ef við gerum það ekki, því við teljum raunverulegan sársauka hreinskilni vera of erfiða fyrir viðkomandi. Þá erum við í raun að segja að fölsk vellíðan eða falskur sársauki lyginnar, sé betri fyrir viðkomandi heldur en það sem raunverulega er.

Sýndarveruleiki.
Í stað raunveruleika.
Í stað hreinskilni.
Í stað leiðarvísa.

Án leiðarvísa getum við ekki vitað hvað er gott fyrir okkur og hvað er vont fyrir okkur. Hvað er gott fyrir aðra og hvað er vont fyrir aðra.

Falskir leiðarvísar halda okkur í blekkingu.

Við ættum aldrei að loka á alla aðra og sannfæra okkur um að við vitum alltaf best, í öllum aðstæðum. Það sé ekkert rými fyrir neitt annað.
Þá lokum við á nýjar upplýsingar, nýja færni, tækifæri til að læra.

Við, líkt og allir aðrir, erum ennþá að læra.

Lífið sjálft er lærdómur og við ættum að grípa hvert tækifæri sem okkur gefst, til þess að læra eitthvað nýtt um okkur sjálf, aðra og heiminn.

Það breytist ekkert, ef ekkert breytist.

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.