Ekki þú, partar af þér

Ef ég held áfram með umræðuna um partana og þá sem við göngum í burtu frá og mikilvægi þess að bera kennsl á þá.

Ef þú lærðir að hata parta af sjálfri/sjálfum þér sem voru eðlilegir og partur af þroskaferlinu. Ef það gerðist, þá geta gerst tveir hlutir.

Ef mesta athyglin sem þér var gefin sem barn, var í gegnum neikvæðu partana, sama þó hún væri í formi refsingar eða ekki. Þá ómeðvitað ýkjast þeir partar af þér. Þó þú vitir að þér verði refsað, þá er það samt athygli. Þá er það samt mikilvægi.

Ef mesta athyglin sem þér var gefin sem barn, var í gegnum deifingu neikvæðu partana, með áherslu á jákvæðu partana. Þá ómeðvitað ýkjast jákvæðu partarnir. Þó þú þurfir að loka á hluta af þér, þá er það samt athygli. Þá er það samt mikilvægi.

Báðar útgafur eru ýktar. Báðar útgáfur benda til þess að allir partarnir eru ekki eðlilegir/mikilvægir.

Nú er ég ekki að tala um jákvæða og neikvæða hegðun og segja að við eigum að verðlauna bæði. Það er ekki það sem ég meina með þessu.

Þegar við fáum ekki skilning á því að við erum að læra, sem börn, og að það er eðlilegt að upplifa tilfinningar/viðbrögð/hugsanir, þá teljum við okkur óeðlileg.

Umhverfið segir/sýnir okkur hvernig við eigum að tækla tilfinningar/viðbrögð og hugsanir okkar. Hvernig við vinnum úr þeim, á uppbyggilegan hátt.

En ef umhverfið telur okkur trú um það að það sé óeðlilegt að upplifa þessa og hina tilfinningu, að bregðast svona eða hinsegin við eða fá þessa eða hina hugsun, það kennir okkur ekki að læra um hana eða af henni. Það kennir okkur ekki að gera það sem við getum hvert augnablik. Læra. Horfast í augu við afleiðingar. Gera betur næst.

Ef umhverfið telur okkur trú um að það sem eðlilegt er, sé óeðlilegt, þá lærum við að kæfa það, hafna því. Afneita. Hylma yfir. Berjast á móti.

Þá lærum við aldrei að við erum bara stöðugt að æfa okkur í gegnum lífið. Við erum stöðugt að læra. Við erum stöðugt að finna nýjar leiðir til þess að takast á við lífið.

Við lærum ekki að taka ábyrgð á eigin gjörðum því við erum of upptekin að reyna að fela okkur. Það má enginn sjá partana sem við vorum ekki „samþykkt“ fyrir, sem börn.

Við reynum að beina athyglinni að því sem við erum „samþykkt“ fyrir. Hvort sem það var í formi refsingar eða verðlauna. Bæði veitir athygli. Bæði leyfir okkur að tilheyra. Bæði mótar tengingu. Bæði gerir okkur „nóg“.

En það er ekkert sem gerir okkur nóg, við erum það bara. Tilfinningar/hugsanir og viðbrögð okkar eru ekki það sem við erum, einungis partar af okkur, sem eru einfaldlega bara að reyna að lifa af.

Sem börn höfum við aðeins eitt sjónarhorn, okkar eigið. Það segir okkur að við erum tilfinningar okkar. Við erum hugsanir okkar. Við erum viðbrögðin okkar. Ef við lærum að þær og þau eru óeðlileg. Þá lærum við að við erum óeðlileg.

Við lærum aldrei að takast á við tilfinningar/hugsanir og viðbrögð okkar á uppbyggilegan hátt ef við erum sannfærð um það að það að hafa þessar og hinar tilfinningar/hugsanir og viðbrögð sé óeðlilegt, að við séum óeðlileg. Þá reynum við stöðugt að leitast eftir því að vera „eðlileg“

Umhverfið á að leiðbeina okkur hvernig við getum lært af mistökum. Gert betur næst.

Það getum við bara gert með því að að læra hvað er hjálplegt og óhjálplegt. Hvað þjónar okkur og öðrum í lífinu. En við getum ekki gert það þegar okkur er kennt að horfa á tilfinningar/hugsanir/viðbrögð sem óvelkomin, óeðlileg, utanaðkomandi öfl.

Við þurfum taka okkur í sátt, fyrir allt sem við erum, með það að markmiði að halda áfram að læra og gera betur næst.

Við erum alltaf að læra. Út allt lífið. Allt sem gerist, getur kennt okkur eitthvað.

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.