Hvað er að vera manneskja?

Samfélagsmiðlar fá verðlauna (vellíðunar) kerfið til þess að virkjast, og það, hratt.
Við leitum að eitthverju til þess að veita okkur vellíðan og eftir augnablik, eina leit, eitt klikk, þá höfum við fundið það. Leið til þess að vera tengd. Leið til þess að tilheyra. Leið til þess að upplifa okkur ekki ein.

Það er margt gott við það. Ég hefði líklega vitað fæst af því sem hjálpar mér í dag, ef það hefði ekki verið fyrir samfélagsmiðla.

Það má samt deila um það hvort birtingarmynd einstaklinga sé sú hjálplegasta á samfélagsmiðlum.

Þetta fer náttúrulega allt eftir því hvernig þú notar samfélagsmiðla, ég held samt að við getum flest verið sammála því, að á þeim eigum við það til að vera yfirborðskennd, allir að reyna að sýna bestu hliðar og útgáfur af sjálfum sér. Ég hef sjálf verið sek um það.

Það sem mig langaði að ræða um er hvernig þetta hefur áhrif á mannleg tengsl.

Ef við erum öll mest megnis/einungis að setja fram okkar bestu hliðar, hvaða mynd erum við þá að gefa hvort öðru um hvort annað?

Hvað erum við að læra? Hvernig getum við nýtt það til þess að verða betri manneskjur og þar af, betra samfélag?

Hvað er það að vera manneskja? Er það bara beinu, fínpússuðu partarnir? Fá þeir ekki flest likes? Erum við ekki öll að velja „bestu“ myndirnar af okkur útlitslega séð? Því hvernig gæti ég leyft mér að hafa þessa mynd af mér á facebook? Ég er sko með undirhöku og bauga! Því flestir vita að það er ekki eðlilegt að vera með undirhöku og bauga.. eða hvað?

Hvað er það að vera manneskja? Er það bara allir fínu flottu hlutirnir sem við eigum? Ætli bíldruslan sem við áttum fyrir nokkrum árum hefði verið nógu áhugaverð, nógu flott?

Hvað er það að vera manneskja? Er það bara í lagi að tala um það þegar okkur líður vel? Eða er pláss fyrir að líða illa á samfélagsmiðlum?

Punkturinn sem ég er að reyna að koma með er sá að við tengjumst við hvort annað á samfélagsmiðlum. En við erum á sama tíma ekki að tengjast við hvort annað. Við gefum upp ákveðna ímynd sem aðrir tengja við og gefa á sama tíma sjálfir upp ákveðna ímynd.

Ef þú notar samfélagsmiðla til þess að reyna að hressa þig við þá skil ég að það er ekki gaman að heyra af því að þessum og hinum líður ekkert geggjað vel í dag.

En ef þú ert að nota samfélagsmiðla til þess að tengja við fólk, finnast þú tilheyra og minnka einmannakennd… hvað ertu þá raunverulega að tengja við?

Er bara til ein útgáfa sem er í lagi? Fullkomið útlit, fullkomin líðan, fullkominn orðaforði.. og svo áfram má telja? Hvað er þá að vera manneskja? Hvað lærum við?

Ég er ekki að segja að það sé ekki í lagi að pósta „fullkomnun“. Það þarf samt jafnvægi. Við þurfum líka að sjá hvað við erum „ófullkomin“.

Við erum allur pakkinn. Undirhaka. Slef. Baugar. Sléttur magi. Bumba. Bíldruslur. Glæsibílar. Vellíðan. Vanlíðan. Stafsetningavillur. Stafsetningasnillar… billjón skrilljón eiginleikar.

Við eigum öll það sameiginlegt að líða stundum illa. Við eigum öll það sameiginlegt að líða stundum vel.

Afhverju er ein útgáfan verðlaunaðari en önnur? Af hverju er ein útgáfan meira „í lagi/samþykkt“ en önnur?

Við erum að búa til mannlegt tengsl milli hálfmanneskja.

Það hvernig við erum ólík getur kennt okkur svo mikið um hvort annað. Það hvernig við tökum öðruvísi á hlutunum getur kennt okkur svo mikið um hvort annað. Það hvernig okkur líður getur kennt okkur svo mikið um hvort annað.

En ef við erum öll bara ímynd. Bara það sem flestir eru sammála um að sé í lagi. Bara það sem er auðveldara samþykkt. Hvað lærum við þá?

Ég man eftir því þegar mamma deildi myndbandi af mér að syngja frá því í fyrra, ég var bara að æfa mig að taka fyrstu skref aftur upp á svið, ég gjörsamlega fríkaði út þegar ég sá myndbandið, því hver nóta var ekki fullkomin og það heyrðist stress í röddinni. Mamma tók það niður og ég andaði aftur rólega.

Hvað var ég að segja við sjálfa mig?

„Það er ekki í lagi að aðrir sjái að þú ert ekki fullkomin“.

Við erum ekki róbotar, það er enginn fullkominn.

Það treysta sér ekki allir til þess að leyfa fólki að sjá sprungurnar í blómavasanum. Einhvern veginn er orðið auðveldara að vera það sem við teljum okkur eiga að vera, heldur en það sem við erum.

Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að tala um þetta. Þess vegna skrifa ég.

Við þurfum að leyfa okkur að vera ekki „fullkomin“. Það gerir okkur bara dómhörð og fær okkur til að bera okkur saman við hvort annað.

Í stað þess að dæma eða bera saman. Taktu eftir. Hvað getur þú lært?

Við erum öll og munum alltaf vera, work in progress.

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.