Afhverju er snúið aftur?

Tekið af Facebook síðunni minni, eftir að ég fjallaði um andlegt ofbeldi:

Í kjölfar þess sem ég skrifaði í gær, fór ég í miklar vangaveltur.
Ég vildi finna leið til þess að sýna fólki, á minn eigin hátt, hvers vegna fórnarlömb ofbeldis fara til baka til ofbeldismanns/konu.

Ég hef oft orðið vitni að miklum misskilningi varðandi það, því fólk er yfirleitt mjög ringlað yfir því hvað það er sem dregur fólk til baka.

Ég vona að minn skilningur á þessu vekji fólk til umhugsunar.

Það er í rauninni einfaldlega hættulegt að hugsa “ ég myndi aldrei snúa til baka, þetta mun ekki koma fyrir mig eða hvað var hann/hún að pæla?“.
Það skapar skömm hjá fórnarlömbunum og skapar rými fyrir afneitun og blekkingu hjá mögulegum fórnarlömbum sem ofbeldismenn/konur stóla á.

Eins og ég skil það, þá eru þeir einstaklingar sem beita ofbeldi oft einstaklingar sem hafa í gegnum lífið verið mataðir af gagnstæðum hugmyndum.
Þú ert viðurstyggð/ þú mátt fá allt sem þú vilt
Vond viðbrögð/ góð viðbrögð

Þessar andstæður geta verið mataðar í gegnum einn einstakling sem trúir þessu um sjálfan sig eða tvo einstaklinga sem hegða sér á gagnstæðan hátt.
Því fleyri sem mata þá af þessum skilaboðum..
Því meira trúir einstaklingurinn að þetta sé sú hegðun sem hann á skilið.
Það myndast rof, því þessi skilaboð skerast á.
Í raun getur það verið að sá sem beitir ofbeldi, sé innst inni hrætt lítið barn sem hefur mótað sig eftir þessum tveimur hugmyndum og gengið inn í það hlutverk, að svona sé það bara og svona eigi það að vera. Varnarveggir.

Staðreyndin er samt sú að þeir/þær ofbeldismenn/konur sem sækja sér ekki sjálfir/sjálfar hjálp og fara í djúpa sjálfvinnu til að brjóta veggina niður og finna innra sjálfið. Þeir/þær munu ekki hætta þessari hegðun. Sama hvað þú reynir. Það er enginn að fara að breyta þeim nema þeir/þær sjálfir/sjálfar. Enn fremur eru sumir varnarveggir svo fastmótaðir að það er ekkert barnslegt sjálf lengur til þess að vinna með. Þeim einstaklingum er því miður bara alls ekki hægt að hjálpa.

Við erum oft mötuð þeirri hugmynd í gegnum bíómyndir og þætti ofl. Að fólk verði einungis fyrir ofbeldi í eitthverjum ýktum og augljósum aðstæðum. Að það gerist alltaf á ýktan hátt og þeir eða þær sem valda ofbeldinu séu ýktar persónur. Það er ekki alltaf þannig. Ofbeldi getur líka verið lúmskt og það er einmitt það sem skapar efann og getur fengið okkur til að kenna okkur sjálfum um.

Þegar við elskum einhvern, þá er hjartað svo ótrúlega brothætt að við seljum okkur það að þetta hafi ekki gerst, að við séum að bregðast of harkalega við, að þetta sé ímyndun í þér, að hann/hún myndi aldrei gera svona, hann/hún baðst afsökunar og mun aldrei gera þetta aftur (en gerir það), að þetta sé þér að kenna, að þetta sé bara því hann/hún elski þig svo mikið, ég misskildi hvað gerðist og svo fjöldi annara afsakana. Hjartað og hugurinn eru oft ósammála og það skapar togstreitu inn á við. Hjartað togar þig til baka en hugurinn áfram. Fólk hræðist það sem það þekkir ekki.

Þetta er mun algengara en fólk heldur.
Það eru nefninlega ekki allir sem geta sagt frá.

Ég vona að þetta gagnist einhverjum ❤

Þú ert ein/nn að ganga úti í eyði. Það er kalt úti og þú ert vilt/viltur, búin/nn að vera það í alltof langan tíma og vonast nú bara til þess að finna stað til að hlýja þér. Þú sérð X í heitapotti og þér er boðið í heitapottinn. Eini staðurinn þarna í kring til að hlýja sér er heitipotturinn. Í heitapottinum er kósý og þar er nudd og þæginleg sæti. Þetta er þvílík dekurstund. Smám saman hitnar potturinn meira og þú spyrð X hvort það sé hann sem er að hita pottinn upp meira. X segist ekki finna neinn mun og segir þér að þú sért bara að ímynda þér þetta. Kuldinn er svo mikill að það verður óvenju mikið contrast á milli kulda og hita og það er að rugla þig. Að lokum stígur þú uppúr pottinum, þetta aðeins of mikill hiti. X biður þig afsökunar, þetta var alveg óvart. Misskilningur. X biður þig afsökunar og segir þér að þetta gerist ekki aftur. Þú sættir þig ekki við þetta, þú brenndir þig. X segir þér leiðina heim en útskýrir fyrir þér að það er mjög löng leið. Farðu til vinstri. En þegar þú gengur í burtu í kuldanum finnur þú hvað þú ert ein/nn og hvað það er ótrúlega ótrúlega kalt úti. Það er orðið erfitt að ganga og þú treystir því ekki að þú munir ná að ganga alla þessa löngu leið. Ekki í þessu veðri. Þú munt frjósa í hel áður en þú nærð alla leið. Það er enginn annar staður til að hlýja sér í kring. Í minningunni minnistu þess einnig hversu notalegur potturinn var, áður en hækkaði í hitanum. Þú snýrð því við og ferð aftur í pottinn, því úti er óeðlilega kalt og einmannaleikinn er yfirþyrmandi. Þú manst ekki lengur hvernig þér leið áður en þú prófaðir pottinn í fyrsta lagi. Dapurlegi sannleikurinn er sá að leiðin heim var til hægri, X laug að þér.
Í pottinum er notalegt, þar til hækkar í hitanum og það verður óþæginlegra að vera í pottinum. Hringrásin heldur áfram, því potturinn lokkar þig til sín. Það er ekkert eins notalegt og hann, sérstaklega núna þegar þú finnur hvernig það verður kaldara og kaldara úti. Það er svo löng leið heim. Þú snýrð því aftur við og ferð aftur í pottinn. X hækkar hitann alltaf meira og meira og þú áttar þig ekki á því hvað er að gerast fyrr en það er orðið of seint.

Hugið vel að ykkur sjálfum.
Hver sem þú ert, hvar sem þú ert.

Þú ert nóg ❤

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.