Þú ert allt sem þú ert

Í hreinu eðli okkar virkar sársauki og vellíðan sem leiðarvísar í lífinu.

Ef þetta veldur mér sársauka, þá forðast ég það.
Ef þetta veldur mér vellíðan, þá nálgast ég það.

Ef raunverulegur sársauki er til hægri, þá leitum við til vinstri.
Ef raunveruleg vellíðan er til hægri, þá leitum við til hægri.

Svona á það að virka. Einfalt.

Við erum tilfinningaverur. Við erum hugsuðir. Við bregðumst við. Það er það sem við erum. Allt sem gerir okkur, að okkur.

Tilfinningar eru eðlilegar.
Hugsanir eru eðlilegar.
Viðbrögð eru eðlileg.

Í gegnum umhverfið lærum við, sem börn, að standa á eigin fótum, hugsa sjálfstætt, hugga okkur sjálf og taka eigin ákvarðanir. Án áður nauðsynlegra leiðbeinenda (þeir sem eru eldri, vitrari og bera ábyrgð) tökum við ábyrgð á okkur sjálfum.

Hvernig lærum við að hugsa sjálfstætt?
Hvernig lærum við að hugga okkur sjálf?
Hvernig lærum við að bregðast við, við hæfi?

Í gegnum umhverfið, í gegnum leiðbeinendur.

Hvað gerist þá þegar við mætum sársauka frá umhverfinu? Þá forðumst við það sem olli okkur sársauka.

Sjálfstæð hugsun þróast á uppbyggilegan hátt þegar okkur er sýnt/sagt að við megum spyrja. Að það er í lagi að leitast eftir þekkingu, þegar maður skilur ekki.
Sjálfstæð hugsun þróast á uppbyggilegan hátt þegar okkur er sýnt/sagt að við þurfum ekki alltaf að vera sammála. Við megum vera ósammála. Við getum verið sammála um að vera ósammála. Það er í lagi.

Hvað gerist þá þegar við mætum sársauka í stað skilnings? Hvað lærum við þá?

Við megum ekki spyrja, það hefur neikvæðar afleiðingar.
Sumt á maður bara að skilja, þó svo enginn segi/sýni manni það.
Við eigum alltaf að vera sammála. Það borgar sig ekki að tjá sig. Það hefur neikvæðar afleiðingar að segja hug sinn.

Hvað getur enn fremur gerst?

Viðkomandi á að vita, viðkomandi þykist vita til að forðast sársauka. Viðkomandi þegir og kinkar kolli við öllu. Aðrir vita best. Annað hefur neikvæðar afleiðingar. Viðkomandi hefur ekki rödd. Viðkomandi kann ekki að setja mörk.

Við lærum að hugga okkur sjálf, á uppbyggilegan hátt, með því að sjá hvernig leiðbeinendur hugga sig. Með því að þeir sýni okkur það. Tilfinningar eru bara tilfinningar og þær fylgja okkur öllum. Þær eru eðlilegar.
Leiðbeinendur sýna sér samkennd þegar þeir upplifa tilfinningar. Hvaða tilfinning sem það er. Þeir upplifa, leyfa þeim að koma og fara, og svo halda þeir áfram. Orkan fór inn og út.
Leiðbeinendur sýna okkur samkennd þegar við upplifum tilfinningar. Hvaða tilfinning sem það er. Við upplifum, leyfum þeim að koma og fara og svo höldum við áfram. Orkan fór inn og út.

Hvað gerist þá þegar við mætum sársauka í stað skilnings? Hvað lærum við þá?

Tilfinningar ber að hræðast, þær eru óeðlilegar og það upplifa þær ekki allir. Þær ber að gagnrýna/dæma. Þeim á að berjast á móti. Þeim á að stjórna. Þær á að kæfa. Þær á að deifa.

Við lærum að bregðast við, við hæfi, á uppbyggilegan hátt, þegar leiðbeinendur sýna/segja okkur hvernig við eigum að bregðast við. Þeir gera það með því að segja/sýna okkur að við gerum eins og við getum, hvert augnablik. Ef við gerum mistök, þá horfum við á þau sem eitthvað til þess að læra af, til þess að gera betur næst. Við lærum að við erum alltaf að læra. Við lærum að við þurfum að horfast í augu við að við gerðum mistök, til þess að geta gert betur næst.

Hvað gerist þá þegar við mætum sársauka í stað skilnings? Hvað lærum við þá?

Við megum ekki gera mistök, það er eitthvað að okkur ef við gerum mistök. Við eigum alltaf að vita betur. Við sannfærum okkur um að við gerðum ekki mistök, það var bara eitthvað að, utan okkar. Við lærum ekki neitt. Nema bara það að afneita og hylma yfir mistökin.

Þegar ég tala um sársauka, þá á ég við refsingu af eitthverju tagi, án skilnings.

Hegðun/hugsanir og tilfinningar eru eðlilegur þáttur af því að vera eins og við erum. Því ætti að vera mætt með skilningi þegar við erum að læra að verða sjálfstæðir einstaklingar. Ef ekki, þá lærum við að það sé eitthvað að okkur. Að við séum gölluð.

Það sem gerist þegar okkur er refsað fyrir að reyna að skilja og tengja við heiminn og umhverfið, er að við lokum á þá parta af okkur sem var refsað fyrir og við lærum að hata þá.
Þeir eru slæmir. Þeir valda því að við erum ekki samþykkt. Þeir valda því að okkur er hafnað.

Við vitum ekki betur, við erum bara að læra. Við lærðum ekki að þessir partar voru eðlilegir. Bara partur af því að vera til.

Þegar við höfnum þessum pörtum, þá höfnum við sjálfum okkur. Við göngum í burtu frá innra sjálfinu og tökum alla partana sem voru samþykktir og notum þá sem reglur í gegnum lífið.

Þetta gerist allt í undirmeðvitundinni og getur haft töluverð áhrif á okkur, sem sjálfstæðir (ekki lengur börn) einstaklingar.

Við gengum í burtu frá pörtum af okkur sem eru eðlilegir og dæmdum þá sem óeðlilega.

Í kjölfarið reynum við stöðugt að fylla upp í það skarð, utan við okkur. Við erum stöðugt að eltast við hamingjuna utan við okkur. Ekkert utan okkar mun nokkurn tíman ná að fylla upp í skarðið, við munum alltaf þurfa meira og meira. Ýktara og ýktara.

Leiðin að hamingjunni er inn á við. Þegar við sættumst við þá parta sem við höfðum sent í útlegð fyrir mörgum árum.

Við upplifum okkur hálf, því við erum hálf. Við bönnuðum hinn helminginn af okkur.

Við verðum aldrei heil fyrr en við sættumst við okkur sjálf og samþykjum okkur fyrir allt það sem við erum.

Leiðin er inn á við.

Þú ert allt sem þú ert. Allir partarnir.

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.