Að vera séð

Ég átti það til að drekka of mikið, þegar ég fór á djammið með vinum mínum.
Ég átti svo erfitt að sitja með mínum eigin „vandræðaleika“ sem mig grunar að hafi verið dulbúin skömm. Ég átti svo erfitt með að vera séð.

Mér fannst eins og ég væri gegnsæ og það gætu allir séð hvernig mér leið. Svo ég reyndi alltaf að fela mig á bakvið eitthvað. Brosa meira, hlæja meira.. eitthvað.
Sumt virkaði stundum, sumt aldrei. Áfengi virkaði best.

Ég þróaði aldrei með mér neina almennilega fíkn, mér finnst það sjálfri hálf ótrúlegt að það hefði ekki gerst. En ég átti fleyri grímur, ég átti fleyri felustaði. Eflaust breytti það eitthverju, en ég get ekki verið viss. Áfengi fór alls ekki vel í líkamann minn og ég var fárveik í marga daga eftir að ég drakk. Líklega hefur það einnig haft eitthver áhrif.

Þegar vinir þínir eru farnir að segja þér að það sé kannski ekki sniðugt að þú drekkir í kvöld, því seinustu skipti hafiru drukkið allt of mikið, þá gætu þeir haft eitthvað til síns máls (sem þeir gerðu, í mínu tilfelli).

Ég var sár, ég vildi ekki missa af gamaninu og treysti mér ekki til þess að sjá hvort ég sem ég, væri nóg. Mér fannst það ekki.

Um leið og ég drakk hrundu allir veggir niður. Neikvæðu hugsanirnar létu sig hverfa og ég var frjáls.. þar til ég byrjaði að æla eða var við það að sofna og hefði líklegast ekki getað komið sjálfri mér heim.

Svo sumarið 2014, þá fer ég í útskriftarferð til Benidorm. Eftir viku hringdi ég í mömmu frá spænskum spítala. Það þurfti að dæla upp úr mér þrisvar.

Ég veit ekki enn þann dag í dag hvort um var að ræða byrlun eða allt of mikla drykkju. Mig langar ekki að vita það.

Ég hef reynt að fela mig á bakvið svo margt í gegnum lífið. Af hræðslu við að vera séð. Að vera hafnað. Ekki lengur. Ekki meir.

Með því að opna mig hér opna ég fyrir allt það sem ég er. Fullkomlega ófullkomna ég.

Ég vona að þú gerir það, eða munir gera það líka, einn daginn. Það er svo frelsandi.

Taktu pláss, finndu fyrir öllum tilfinningunum, leyfðu þér að vera.

Það ætla ég að gera.

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.