‘Afhverju’

Fyrir hvern við erum að gera/taka þessa ákvörðun? Fyrir hvern við erum að sækjast eftir þessari niðurstöðu?

Þegar við finnum virði okkar útfrá því hvað aðrir, utan okkar, samþykkja og skilgreina sem ásættanlegt. Þá er ‘afhverju’ ástæðan okkar aldrei nógu sterk.

Þitt ‘afhverju’ ætti alltaf að koma út frá því að það er það sem þú velur. Það er það sem þú þarfnast til þess að líða vel, til langtíma litið.

Þegar við vitum að við erum nóg, þá tökum við ekki ákvarðanir til þess að verða heil, samþykkt.

Við tökum ákvarðanir því þær passa við okkar gildi og viðmið, tilgang og ástríðu í lífinu.

Aðstæður koma oft á móti og neyða okkur til þess að taka ákvarðanir sem við vildum ekki þurfa að taka. En þeir sem finna virði sitt útfrá áliti annara, þeir upplifa lífið sem þvingun til þess að gera það sem við viljum ekki gera. Biturð.

Þegar við erum nóg með sjálfum okkur og aðstæður neyða okkur til þess að taka ákvarðanir sem við vildum ekki þurfa að taka. Þá eru þær bara ákvarðanir. Ekki þessi þungi að vera samþykkt. Einungis verkfærakista til þess að lifa af. Einungis val til þess að framtíðin beri eitthvað betra í skauti sér. Einungis tækifæri til þess að læra af og skilja lífið betur.

En þegar ‘afhverju’ okkar er ekki byggt útfrá okkur sjálfum, þá missum við sjónar á því að við erum rithöfundur okkar lífssögu. Þá missum við sjónar á því að ákvarðanir okkar eru eitthvað til þess að læra af og hjálpa okkur að þroskast. Þá upplifum við okkur mun frekar eins og lífið stjórni okkur. Aðrir stjórni okkur. Eins og við séum bara strengjabrúður í stóru leikriti.

Og við missum sjónar á því að við lífið stjórnar okkur ekki. Ákvarðanir stjórna okkur, stýra okkur. Lífið er eitthvað sem gerist. Eitthvað sem er. En það eru ákvarðanir okkar, okkar ‘afhverju’, sem gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum.

Þitt ‘afhverju’ ætti aldrei að vera „ég fórna öllu sem ég er, til þess að vera samþykkt“. Þitt ‘afhverju’ ætti alltaf að vera byggt á eigin ákvörðunum, eigin vali, óháð virði. Óháð því að vera viðurkennd/ur fyrir þínar ákvarðanir. Þitt virði og viðurkenning kemur frá þér sjálfri/sjálfum og þú tekur ákvarðanir útfrá því.

Lífið er leikvöllurinn. Það kemur okkur á óvart og skapar hindranir sem við þurfum að komast yfir. En það er einmitt bara það sem við þurfum að gera. Komast yfir. Læra af ákvörðunum, læra af mistökum, gera betur næst.

En við ættum ekki að upplifa okkur þvinguð til þess. Eins og við höfum ekki lengur rödd til þess að tala útfrá okkur sjálfum. Líkama til þess að bregðast út frá okkur sjálfum.
Það ætti bara að vera eitthvað sem er. Hér er áskorum og ég ætla að komast í gegnum hana. Mannshugurinn er stöðugt að sækjast í meiri og meiri upplýsingar og færni. Það er það sem hjálpar okkur að lifa af.

Þitt ‘afhverju’ ætti alltaf að koma innra frá þér, óháð því hvort þú finnir virði útfrá því. Því þitt virði ætti að vera nóg, innra með sjálfri/sjálfum þér. Því þú ert nóg og hefur alltaf verið nóg.

Þitt ‘afhverju’ ætti alltaf að koma útfrá sjálfri/sjálfum þér, fyrst og fremst. Hvernig þessi ákvörðun hjálpar þér með því að læra nýja færni, nýjar upplýsingar, nýjar orsakir, nýjar afleiðingar o.s.frv.

Við erum stöðugt að læra, út allt lífið. Þannig virkar það bara. Við erum aldrei „full-lærð“. Við erum aldrei nein ákveðin niðurstaða. Að eltast við fullkomnun og að gera alltaf allt til þess að vera betur samþykkt, það mun skilja þig sjálfa/sjálfan eftir. Við erum ekki fullkomnun, við gerum mistök, við bætum okkur, þannig virkar það. Endalaus hringrás aftur og aftur.

Ef okkar ‘afhverju’ er á kostnað okkar sjálfra. Ef okkar ‘afhverju’ er að fórna því sem gerir okkur að okkur sjálfum fyrir alla aðra. Þá lifum við lífi utan okkar sjálfra. Eins og „fullkomin“ vélmenni, sem gera alltaf allt „rétt“. Ef við gerum alltaf allt „rétt“ og hættum að gera mistök, þá lærum við aldrei neitt nýtt. Þá þróumst við ekkert. Þá þroskumst við ekkert.

Leyfðu þínu ‘afhverju’ að koma frá þér. Þú ert nóg, leyfðu þér að vera það.

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.