Þetta gæti verið þú

„Getur þú hjálpað mér?“ Spurði maðurinn mig er hann álpaðist niður göngustíginn. Ég sá örvæntinguna í augunum hans og ég fann hvað ég fann til með honum. Ég sá að hann var drukkinn, með aggressíva framkomu og ég þorði ekki að nálgast hann. Hjartað mitt syrgði þann sársauka sem maðurinn þurfti að upplifa og það að ég gat ekkert gert fyrir hann.
Hann hélt áfram að öskra að hann þurfti hjálp.
Einstaklingur í sárri neyð vegna andlegrar vanlíðan. Einstaklingur eins og ég og þú.

Hvað getum við gert til þess að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, hvað varðar andleg veikindi? Þetta er eitthvað sem við gætum öll, einhvern tíman á lífsleiðinni, þurft að takast á við.
Hvað getum við gert betur svo tilfellum fækki og/eða einstaklingar hafi þá færni og getu og vilja til þess að hjálpa sér sjálfir? Svo viðkomandi upplifi ekki króníska vanlíðan, heldur tímabundna. Hvernig getum við hjálpað fólki að hjálpa sér?

Það er eitthvað sem vantar hættulega mikið uppá.
Maðurinn sem ég mætti í dag gæti verið hvert og eitt okkar. Ef færni okkar væri minni. Ef aðstæður væru verri. Og svo lengi má telja.

Að drekkja sorgum sínum með áfengi eða fíkniefnum er ekkert annað en örvæntingarfull leið til þess að lina sársaukann, akkúrat þetta tiltekna augnablik. Það er eitthvað í undirmeðvitundinni sem kallar á það. Þetta er sársauki. Þetta er vanlíðan. Þetta er ekki heimska eða eigingyrni eða aðrir neikvæðir stymplar sem eru settir á alkóhólista eða fíkniefnaneytendur.

Við upplifum öll sársauka á lífsleiðinni, mismikinn og mislítinn. En við höfum samt sem áður mismunandi færni til þess að vinna úr því. Færni eru þær leiðbeiningar sem okkur er gefið um okkar nánasta umhverfi. Færni eru þau verkfæri sem okkur er gefið í gegnum okkar nánasta umhverfi. Færni er sá eiginleiki að vita það að við erum nóg. Færni er að fá rými til þess að upplifa og samþykkja tilfinningar okkar. Færni er að vita að við megum vera til og við megum taka pláss. Færni er að læra að við erum ekki tilfinningarnar okkar og þær skilgreina okkur ekki. Færni er… svo lengi má telja.

Þetta snýst allt um það hvenær, hvar, hvort og hvernig viðkomandi er sýnt og kennt þá færni sem þarf til að geta tekist rétt á við þetta tiltekna augnablik, horft til langtíma.

Það besta sem hægt er að gera er að fræða fólk. En viðkomandi þarf líka að hafa uppgötvað/fengið/lært þá færni til þess að geta tekið á móti og nýtt þá færni sem hann kynnist.

Þetta atvik stakk mig og ég varð að skrifa. Við sem samfélag hljótum að geta gert betur..
Ég leyfi mér að trúa því.

Knús 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.