Reglur sem þjóna mér ekki lengur

Þegar við erum lítil geta mótast mynstur eða ákveðnar reglur innra með okkur til þess að komast af.

Það gæti verið t.d.
Ég má ekki hafa skoðun, ég hef alltaf rangt fyrir mér
Ég þarf að brosa þegar mér líður illa, svo öðrum líði ekki óþæginlega
Ég má ekki gráta, það er ekkert til að gráta yfir.. þetta er bara ég.. það er eitthvað að mér
Ég þarf að fórna minni líðan fyrir líðan annara
Ég má ekki segja nei, ef ég geri það er ég vond
Ég mun alltaf klúðra öllu, svo best að ég láti aðra um að gera þá frekar
Ef ég bið um eitthvað þá er eg vond, svo best að þegja

O.s.frv.

Undirmeðvitundin mótar okkur í kjölfarið eftir þessum reglum. Allt bendir til þess að við séum eitthvað til að skammast okkar fyrir. Svo við reynum að vera fullkomin…eða við gefumst upp því kröfurnar eru of miklar. Megum aldrei gera mistök eða gerum ekkert annað en mistök.

Ég held að besta lýsingin á því hvernig undirmeðvitund treður sér inn í meðvitund sé hvernig gollum birtist í Lord of the rings. Meðvitundin, smeaogle, reynir að berjast og berjast á móti, en einhvern veginn nær gollum að sannfæra hann.

Gollum sannfærir Smeaogle um að hann sé skömm. Smeaogle bregst við í kjölfarið og fer í þá átt sem leiðir hann að vanlíðan, þó svo meðvitundin sé bara að reyna að gera gott eða viti af því að það sé í rauninni ekki gott.

Dæmi: ástarsamband sem býr til enn meiri skömm, vinasamband sem býr til enn meiri skömm, of mikið sjónvarpsgláp, símafíkn, óeðlilega mikil hjálpsemi drifin áfram af skömm, átraskanir, drykkja, fíkniefnaneysla, sykurfíkn, of mikill svefn, þráhyggjuhugsanir, mikil neikvæðni, hugrof, kynlífsfíkn, sjálfskaði… allt eitthvað sem deifir þetta augnablik, allt eitthvað sem veldur vellíðan þetta augnablik en veldur vanlíðan til langtíma. Meðvitund vill vellíðan en hún er ómeðvitað drifin áfram af þrá undirmeðvitundar í vanlíðan. Því hún lærði fyrir löngu
að það að upplifa vanlíðan = að fá ást.
Að upplifa vanlíðan = mitt virði.
Að upplifa vanlíðan = að tilheyra.

Við þurfum að vinna með undirmeðvitundina fyrst og fremst. Skora á allar þessar reglur sem nýtast okkur ekki lengur og leyfa okkur að upplifa hugsanir og tilfinningar okkar án þess að dæma. Og án þess að dæma fyrir að dæma o.s.frv.
Hvernig líður mér? Hugsun. Og hvernig líður mér eftir að þessi hugsun kom upp? Tilfinning. Hvernig líður mér eftir þessa tilfinningu? O.s.frv. leyfa öllu að koma. Taka eftir og upplifa. Leyfa okkur að vera mannleg. Allar hugsanir og tilfinningar í lagi. Allt bara partur af ferlinu.

Oft reynum við nefninlega strax að bregðast við, þegar við ættum í rauninni bara að leyfa okkur að taka eftir. Leyfa því sem kemur að vera. Leyfa því að líða hjá. Leyfa orkunni að fara í gegnum okkur og aftur út.

Það steikta í þessu er einmitt það að undirmeðvitundin telur sig vera að vernda okkur vegna fyrri reynslu af því að tilheyra ekki, svo hún reynir að draga okkur í átt að því sem leyfir okkur að líða eins og við tilheyrum.

Hvernig líður þér er ein besta spurning sem þú getur spurt þig, til þess að komast nær sjálfri/sjálfum þér í dag. Með því að gefa okkur rými, gefum við okkur virði. Með því að gefa okkur sjálf virði, þá gefum við okkur ást.

Þú ert nóg 
Allt sem segir þér að þú sért það ekki, er ekkert annað en ytra áreiti og þær upplýsingar sem þér hefur verið beint eða óbeint gefið þegar þú varst að læra hvers virði þú varst. Það er ekkert annað en það, upplýsingar, sem koma utan þín. Jafnvel endurvarp á meðvitaðri/ómeðvitaðri skömm einhvers annars.

Þær eru ekki það sem þú ert 

Með því að huga að okkur sjálfum, þá finnum við sjálfvirði. 

I am my own superhero 💪

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.