Lítil skref

Lítil skref.. eitthvað sem ég er sífellt að minna mig á. Samt sem áður hef ég verið stöðugt að fresta því að byrja að skrifa hér.

Einhvern veginn fór ég að upplifa mikla hræðslu, en það var akkúrat ástæðan fyrir því að ég ákvað að byrja með þessa síðu í fyrsta lagi, svo það er skrítið að sama ástæðan sé að halda aftur af mér.

Hræðsla… hvað hún getur verið raunveruleg en samt sem áður ekki átt sér rökréttar ástæður. Jú ég gæti óvart nefnt eitthvað um mig eða heiminn sem fer illa í fólk og þá fríka ég út.. en er það ekki einmitt það sem ég er að skoða. Skoðanir í sinni einföldu og hreinu mynd.

Áskorunin var að sýna auðmýkt og opna augun mín fyrir því að ég má gera mistök, því það er það sem manneskjur gera. Við gerum mistök, lærum af þeim og höldum áfram. Þ.e.a.s. þegar við raunverulega göngumst við þeim og afneitum þeim ekki.

Ég lifði lífinu mínu alltof lengi með það hugarfar að ég þyrfti að vernda mig, aldrei gera mistök, aldrei láta neinn sjá að ég væri ekki fullkomin. Ég veit hversu fráleit hugsun það er, en það var það sem ég hafði fest mig við. Eitthvern veginn undir meðvitund, eitthvers staðar dýpra í undirmeðvitund (undir meðvitund, segir sér sjálft).

Það var ekki fyrr en ég fór að skora á þær hugmyndir sem ég hafði fastmótað um sjálfa mig og heiminn, að ég fór raunverulega að skilja allt betur.

Ég hafði fyllt höfuðið af allskonar þekkingu um andleg veikindi í gegnum árin, en ég var ekki að nýta hana á réttan hátt.

Jú.. ég var að læra meira um sjálfa mig og heiminn, en þekkinguna nýtti ég til þess að reyna að „laga“ mig og með tímanum var ég að reyna að gera hið ómögulega. Vera manneskjan sem sagði alltaf allt rétt, gerði alltaf allt rétt, brást alltaf rétt við o.s.frv.

Hvernig í ósköpunum ég hélt að mér myndi takast það að gera basicly hið fullkomna þóknunartæki úr sjálfri mér veit ég í rauninni ekki. Ég var einhvern vegin viss um að ef ég væri samþykkt af ÖLLUM, að þá væri ég nóg.

En það er einmitt málið. Ég var að leita að samþykki utan við sjálfa mig. Mitt líf hafði ekki gildi utan viðurkenningar allra hinna. Hvaða skilaboð var ég búin að vera að senda sjálfri mér seinustu billjón árin? (24 ára er billjón er það ekki?).

„Þú ert ekki nóg fyrr en einhver segir að þú sért nóg“.

Ojbara, hvað er það? Ég hafði eitt meiri hluta æskunnar, unglingsáranna og byrjun „fullorðinsáranna“ í það að sparka og hrækja á sjálfa mig. Á sama tíma leið mér hræðinlega og leyfði fólki að koma fram við mig eins og því hentaði.

Ég hrundi niður, ekki viss hvenær nákvæmlega.. en á einhverjum tímapunkti gat ég ekki meir. Það var orðið langt frá því að vera eðlilegt að þurfa að loka mig inni á baði í vinnunni og leggjast á gólfið til að ná andanum (nú þegar ég hugsa um það.. ég innilega vona að gólfið hafi verið þrifið nýlega, þegar ég gerði það..). Ég var hætt að lifa og byrjuð að þrauka. Sparkaði mér í gegnum hvern einasta dag. Reyndi á sama tíma að halda ímyndinni uppi. Búin á því. Uppgefin.

Ég hugsa til baka að þetta hafi allt verið blessing in disguise. Eitthvað til að ýta mér í rétta átt.

Þetta leiddi mig allt í átt að sjálfsvinnu. Ógeðslegri og yndislegri sjálfsvinnu. Nauðsynlegri sjálfsvinnu.

Fókusinn breyttist og ég fór að sjá hlutina í öðru ljósi. Skrifaði og skrifaði niður. Screenshot-aði hvern texta eða hvert quote sem ég tengdi við. Endalaust af upplýsingum og ljósaperum sem fór smám saman að kvikna á.

Heill haugur af upplýsingum og færni sem veittu mér svo mikla innsýn og upplýsingar um sjálfa mig og heiminn. Þær færðu mig nær sjálfri mér.

Ég áttaði mig á því að margt þarna væri svo einfalt og augljóst ef við opnuðum augun fyrir því og fengjum þær upplýsingar frá alheiminum. Ég áttaði mig á því að fólk væri að tengja við það sem ég hefði að segja. Ég áttaði mig á því að ég gæti mögulega hjálpað einhverjum, með því að deila því sem ég hef lært og velt fyrir mér í gegnum árin.

Þess vegna byrjaði ég að tjá mig, deila því sem ég væri að hugsa og læra um, ef ég héldi að það gæti einhver tengt við það.

Þess vegna tókum við Hrafnkell (maðurinn minn) þá sameiginlegu ákvörðun að opna þetta blogg.

Hér gæti verið vettvangur fyrir fólk eins og mig til þess að fylgjast með, læra og tengja við það sem ég hefði að segja, í gegnum mína batagöngu.

Ef það hjálpar einni manneskju, þá er það nóg.

Nú hvar var ég? Hræðslan við að stökkva út í þessa laug sem ég er búin að fylla af vatni í hausnum á mér. Ég veit bara að ég mun aldrei vita hvað ég gæti gert, ef ég tek aldrei stökkið.

Öryggið er einfalt og auðvelt. En ég er orðin þreytt á „hvað ef-sársauka“. Ef ég á að upplifa sársauka vegna þessar ákvörðunar, þá vil ég miklu frekar að hann sé raunverulegur og ekki „sársaukinn-sem- ég-er-hrædd-um-að-gæti-komið“. Það skilur mig bara eftir í vanlíðan, á sama stað, í örygginu. En ég læri ekki neitt.. og mig langar að læra. Ég er orðin þreytt á því að fela mig í gegnum lífið. Það er kominn tími til að ég átti mig á því að það er í lagi fyrir mig AÐ VERA SÉÐ.

Því ég er nóg, ég hef alltaf verið nóg og ég mun alltaf vera nóg.

Ég er til, ég má taka pláss.

 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.