Andlegt ofbeldi og hvernig ég sagði frá

Ég hef aldrei verið jafn berskjölduð hér (upprunalega á facebook) en ég ætla samt sem áður að kasta þessum skilaboðum út í heiminn.

Ég veit hvernig þú raunverulega hugsar.
Ég veit hvernig þér raunverulega líður.
Getgátur sem hugur okkar telur sig vita.
Orð sem sögð, særa.
Valda misskilningi og ruglingi.

Það er einungis maður sjálfur sem veit hvernig manni raunverulega líður og hvernig maður raunverulega hugsar.
Við vitum kannski ekki afhverju eða hvaðan það kemur, en okkar raunverulega líðan og hugsanir eru ólesanlegar fyrr en við bregðumst við þeim eða segjum frá.

Ég hef oft gripið mig í því ferli að selja mér einhverja hugmynd að einhverjum líði svona gagnvart mér eða hugsi svona til mín.
En hver er ég að trúa því að það sé 100 % rétt? Ætla ég að selja mér hugsanir og líðanir annars einstaklings í stað þess einfaldlega að hlusta.

Hugmyndir mínar um hugsanir og líðanir annara eru ekki raunverulega staðfestar fyrr en þær eru sagðar eða sýndar mér.
Þar til það gerist, þá hef ég ekkert nema mína eigin hugmynd, sem ég hef selt sjálfri mér. Sú hugmynd gæti verið kolröng og byggð á óöryggi og vanþekkingu á viðkomandi.Ég hef oft haft kolrangt fyrir mér um fólk og fundið mig lesa kolrangt í aðstæður.
Það er bara mannlegt.
Við getum öll gert mistök.

En um leið og einhver reynir að SELJA þér og SANNFÆRA þig um þá hugmynd að hann viti betur en þú sjálf/ur hverjar þínar hugsanir og líðanir eru.
Það er ekki ok.
Það er ekki í lagi að reyna að breyta því hvernig einstaklingur upplifir sinn eiginn veruleika.
Það er ekki í lagi að nota sektarkennd, hræðslu, lítillækkun, hótanir, ógnun, kúgun eða ofbeldi, til þess að stjórna öðrum einstakling og fá hann til þess að gera eitthvað eða segja eitthvað gegn sínum eigin vilja.

Þegar einstaklingur með brotna sjálfsmynd heyrir orðin „ég veit hvernig þér raunverulega líður, ég hvernig þú hugsar eða ég þekki þig betur en þú gerir sjálf/ur“ þá gæti hann í sínu viðkvæma ástandi farið að trúa því og hætt að treysta sjálfum sér.

Til margra ára hef ég borið erfiða fortíð á baki mér og alveg frá því ég fæddist var ég óvenjulega viðkvæm. Allt var persónulegt, alveg frá minnsta atriði. Það þurfti mjög lítið til þess að ég færi að hágráta og það gerði mig að mjög auðveldu fórnarlambi fyrir stríðni.

Ég skammaðist mín svo mikið og átti svo erfitt með að skilja að það er ekki allt persónulegt, að ég byrjaði hægt og rólega að fyllast af andstyggð gagnvart sjálfri mér.
Ég þoldi ekki litlu og viðkvæmu Karen, og eftir að ég hafði byggt veggi í kringum mig þá notaði ég húmor til þess að rakka niður þá manneskju sem ég var.

Ég tók sjálf þátt í því að rakka mig niður, því ég var með óbeit gagnvart þessari viðkvæmu stúlku sem ég var.
Þetta skapaði mikla togstreitu innra með mér og olli því að ég átti erfitt með að setja mörk.
Það var næstum hægt að sparka mér í vegg, berja mig í klessu og hrækja á mig og ég hefði samt komið til baka og grátbeðið um fyrirgefningu.
Ég var stútfull af skömm og sektarkennd og mjög brothætt.

Þessi orð hafa verið sögð við mig aftur og aftur.
„Ég veit hvernig þú ert, ég þekki þig betur en þú sjálf, ég veit hvernig þú hugsar og ég veit hvernig þér líður“.
Í brothættu ástandi mínu trúði ég því, aftur og aftur og það efldi sjálfshatrið með hverjum degi.

Ég skammaðist mín og var svo skíthrædd við að vera yfirgefin (sama hver það væri) að ég grátbað um fyrirgefningu.
Ég hataði sjálfa mig svo mikið að ég fór að segja öllum sem vildu hlusta frá minni fortíð, því mér fannst ég svo ógeðsleg og hræðileg manneskja að ég reyndi að útskýra og verja mig með því að gefa upp ástæður fyrir því að ég væri eins og ég er. Jafnvel þegar það var ekkert til að verja mig fyrir.

Svo hataði ég mig fyrir að tjá mig og þaggaði niður í sjálfri mér með því að gera grín af mér eða bara einfaldlega þegja.
Ég var annaðhvort sú manneskja sem sagði of mikið eða sagði ekkert.
Of opin, of lokuð.

Ég trúði því að hugmyndin sem hafði bólfest sig í höfðinu mínu væri sönn.
Sama hvað þau sem mér væru mér næst sögðu.
Þá sérstaklega mamma mín, yndislega fallega, klára og hjartahlýja mamma mín.
“ ég vildi að þú sæjir þig eins og ég sé þig“
Aftur og aftur..
En ég vildi ekki trúa því.

Í dag hef ég farið í mikla vinnu í sjálfri mér og ætla loksins að rífa þessa hugmynd úr hausnum á mér.
Ég ætla ekki lengur að hlusta á þá sem telja sig geta farið inn í hausinn á mér og sagt mér hver ég raunverulega er.
Ég veit hver ég er.

Ef það er einhver þarna úti sem tengir við þessa sögu, þá vil ég að þú vitir þetta

„Það hefur enginn rétt á því að segjast vita betur en þú sjálf/ur hvað þú ert að hugsa eða hvernig þér líður. Það hefur enginn rétt á að reyna að breyta því hvernig þú sérð þinn eiginn raunveruleika. Þú veist hvað gerðist. Þú veist hver þinn sannleikur er. Það hefur enginn rétt á því að reyna að fylla höfuðið þitt af neikvæðum hugmyndum eða hugsunum um sjálfa/sjálfan þig. Þú mátt setja mörk. Það getur látið fólki líða óþæginlega en það er mikilvægt.
Það að reyna að kúga, ógna, hóta, lítillækka, niðurlægja, hræða eða fylla þig af sektarkennd til þess að reyna að fá þig til að gera eitthvað sem þú vilt ekki gera er ekkert annað en tegund af andlegu ofbeldi. Það er þinn réttur og þín ábyrgð að segja stopp. Nú er komið nóg. Það mun enginn vernda hug þinn ef þú gerir það ekki“.

Ég er ekki að segja að ég sé fullkomin, við getum öll gert mistök. Það besta sem við getum gert er að læra af þeim og halda áfram að styrkja okkur og halda áfram að reyna að verða betri maður í dag en í gær. Tölum saman á einlægan og uppbyggjandi hátt.

Takk fyrir að lesa 

– Karen

Höfundur: Karen Lind Harðardóttir

Ég er 24 ára (nú 25) Harrypotternördi, eiginkona og söngkona í felum með mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Hér er ég að fjalla um andleg veikindi, mína batavinnu og allt sem mér dettur í hug, í von um að það veiti öðrum ánægju, hughreystingu eða hjálparhönd. Það er mikilvægt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur og að það sem ég skrifa um er einungis það sem ég hef tekið til mín útfrá reynslu, upplýsingum og lærdómi sem ég tengi sjálf við í mínu eigin lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.